Ítalski leikmaðurinn Gianfranco Zola og Eiður Smári Guðjohnsen fagna marki í leik gegn Manchester City á dögunum.
Ítalski leikmaðurinn Gianfranco Zola og Eiður Smári Guðjohnsen fagna marki í leik gegn Manchester City á dögunum.
GIANFRANCO Zola, litli töframaðurinn í liði Chelsea, segir við enska fjölmiðla að svo geti farið að hann endurskoði ákvörðun sína að leggja knattspyrnuskóna á hilluna takist liðinu að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Samningur Zola við Lundúnaliðið rennur út í sumar og allt fram að þessu hefur Ítalinn sagt að þar með væru dagar hans á knattspyrnuvellinum taldir.

Forráðamenn Chelsea eru hins vegar reiðubúnir að gera nýjan samning við Zola og eiga þá von heitasta að Chelsea nái Meistaradeildarsætinu en fjögur efstu liðin í úrvalsdeildinni vinna sér sæti í Meistaradeildinni og þegar átta umferðum er ólokið er Chelsea í fjórða sætinu og í harðri baráttu við Everton og Liverpool um það sæti.

Zola, sem verður 37 ára gamall á þessu ári, sýndi enn og aftur snilli sína þegar hann tryggði Chelsea sigurinn á WBA í fyrradag. Zola skoraði síðara mark þeirra bláklæddu með frábærum hætti - 14. mark hans á leiktíðinni.

Claudio Ranieri, stjóri Chelsea, hrósaði Zola í hástert eftir leikinn. "Zola er hreinn snillingur í mínum augum. Hann er töframaður með knöttinn og ég held hreinlega að þetta sé hans besta tímabil," sagði Ranieri, sem breytti hefðbundinni leikaðferð síns liðs. Í stað þess að tefla fram 4:4:2 lék Chelsea-liðið 3:5:2 með Eið Smára Guðjohnsen og Jimmy Floyd Hasselbaink í fremstu víglínu og í holunni fyrir aftan þá var Zola í frjálsu hlutverki.

"Ég vil bara ekki hugsa um framtíðina á þessari stundu. Það eina sem kemst í kollinn á mér hvað knattspyrnuna varðar er að reyna að spila eins vel og ég get og síðan verðum við bara að sjá til með framhaldið. Það sem skiptir mestu í lífinu er að hafa gaman af því sem þú gerir og það hef ég svo sannarlega. Ég vil ekki hugsa um annað þessa stundina en að spila góðan fótbolta, skora mörk og safna stigum fyrir Chelsea," segir Zola sem tókst að gera alla þessa hluti í leiknum við WBA.