"Við sjálfstæðismenn munum leggja allt kapp á að fjalla um árangurinn af störfum flokksins, þá stefnu sem við leggjum fram og sýn okkar um farsæla framtíð Íslands."

UM helgina hófst fundaröð sjálfstæðiskvenna sem ber yfirskriftina "Stefnumót við þig - Framtíðin er björt". Konur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins standa fyrir fundaröðinni auk fleiri sjálfstæðiskvenna af framboðslistum og úr sveitarstjórnum. Markmið fundanna er að fjalla um störf og stefnu flokksins í ríkisstjórn og þann mikla árangur sem náðst hefur á undanförnum árum.

Íslendingar hafa um nokkurt skeið veitt Sjálfstæðisflokknum umboð til þess að fara með stjórn landsmálanna og í vor leita sjálfstæðismenn eftir endurnýjuðu umboði. Við sjálfstæðismenn göngum bjartsýnir til þessarar baráttu því síðustu ár hafa verið farsæl og nú á undanförnum mánuðum hefur hverju stórmálinu af öðru verið komið í gegn, en nægir þar að nefna einkavæðingu ríkisbankanna og undirbúningsferli Kárahnúkavirkjunar. Efnahagslífið er á öruggri uppleið, verðbólgan hefur hjaðnað, vextir lækkað, gengið styrkst og útlit er fyrir góðan hagvöxt á næstu misserum. Að óbreyttu eru því allar forsendur fyrir því að lífskjör haldi áfram að batna á Íslandi. En það er ekki sjálfgefið - það skiptir máli hverjir halda um stjórnartaumana.

Kjósendur verða að spyrja sig þeirrar spurningar í vor hvort þeim muni vegna betur til lengri eða skemmri tíma ef vinstri stjórn verður mynduð. Menn þurfa að rifja upp óreiðuna sem ríkti í tíð síðustu vinstri stjórnar, sem sat frá 1988-1991 og tókst að lækka kaupmátt almennings umtalsvert. Í Reykjavík er nú við völd vinstri sambræðingur sem hefur margfaldað skuldir borgarinnar á mesta mesta hagvaxtarskeiði lýðveldissögunnar. Og ekki nóg með það, heldur jafnframt hækkað skatta og gjöld. Þessar staðreyndir verða kjósendur að bera saman við störf og stefnu ríkisstjórna Davíðs Oddssonar.

Í aðdraganda þessarar kosningabaráttu hefur Samfylkingin tekið þann pólinn í hæðina að ræða flest annað en málefnin sem öllu skipta og lagt þess í stað traust sitt á dylgjur og lágkúrulegan áróður sem að miklu leyti hefur beinst að forsætisráðherranum persónulega. Þessi áróðursherferð hefur reyndar snúist í höndunum á þeim sem vonandi leiðir til þess við getum einbeitt okkur að knýjandi málefnum fyrir íslenskt samfélag í kosningabaráttunni. Við sjálfstæðismenn munum í það minnsta leggja allt kapp á að fjalla um árangurinn af störfum flokksins, þá stefnu sem við leggjum fram og sýn okkar um farsæla framtíð Íslands.

Árangurinn af starfi ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins blasir við. Á umliðnum tólf árum höfum við komist í fremstu röð þjóða á flestum sviðum. Kosningarnar í vor munu snúast um það hvort Ísland muni halda áfram á þessari öruggu framfarabraut eða hvort eyðslupólitík vinstri manna nái undirtökunum með tilheyrandi skattahækkunum, skuldaaukningu og efnahagsóróleika. Valið liggur hjá kjósendum, sem við sjálfstæðismenn treystum að muni gera samanburð á þeim kostum sem í boði eru, og velji þann sem líklegastur er til þess að bæta enn lífskjörin á næstu fjórum árum. Samanburðurinn segir allt sem segja þarf.

Eftir Sólveigu Pétursdóttur

Höfundur er dóms- og kirkjumálaráðherra.