Kristín Blöndal, fyrirliði Keflavíkurliðsins, í leik gegn ÍS á dögunum.
Kristín Blöndal, fyrirliði Keflavíkurliðsins, í leik gegn ÍS á dögunum.
"ÉG held það verði KR og Keflavík sem mætast í úrslitum. Bæði liðin vinna væntanlega 2:0 í undanúrslitunum, Keflvíkingar þó á auðveldari hátt en KR," segir Ívar Ásgrímsson, þjálfari kvennaliðs ÍS, um úrslitakeppni kvenna í körfuknattleik sem hefst í kvöld með leik KR og Grindavíkur. Keflavík og Njarðvík mætast síðan annað kvöld.

Nágrannarnir í Reykjanesbæ, Keflavík og Njarðvík, hafa fjórum sinnum mæst í deildinni í vetur og er staðan úr þeim leikjum þannig að Keflavík hefur sigrað í þremur og Njarðvík einum og hefur Keflavík gert 59 stigum meira en Njarðvík.

"Keflavík byrjaði leiktímabilið mjög vel og var þá með jafnsterkt lið og ÍS og KR í fyrra. Þær voru fullmannaðar á meðan mörg önnur lið voru með meidda leikmenn og án erlends leikmanns. Þær unnu stóra sigra en ég held það hafi ekki gert þeim neitt gott því á sama tíma og þær stóðu nokkuð í stað bættu önnur lið við sig þegar menn náðu sér af meiðslum.

Keflavík er með mjög öflugan og stóran hóp. Sonja Ortega er mikill liðsmaður og spilar vel sem slíkur en það sem vantar hjá Keflavík er einhver sem liðið getur leitað til þegar taka þarf af skarið eins og undir lok jafns leiks. Þær brenndu sig til dæmis á þessu í bikarúrslitaleiknum á móti okkur og það gæti komið þeim í koll í úrslitakeppninni - þó varla á móti Njarðvík í undanúrslitunum.

Ég held að Keflavík vinni Njarðvík 2:0 og það meira að segja nokkuð auðveldlega. Þó er rétt að geta góðrar frammistöðu Njarðvíkurstúlkna í síðasta leik liðanna sem endaði 81:71. Þrátt fyrir hátt skor tókst Njarðvík að hanga í Keflavík lengi vel, en ég held að í þessum leikjum muni Keflavíkurstúlkur pressa Njarðvikinga stíft og það stenst Njarðvík ekki," segir Ívar um nágrannaslaginn á Suðurnesjum.

KR loks að ná fullum styrk

KR og Grindavík hafa einnig mæst fjórum sinnum í deildinni og þar er staðan jöfn, 2:2, en KR gerði tveimur stigum meira í viðureignunum. "Þessi viðureign verður jafnari en hin en ég held samt að KR vinni 2:0 líkt og Keflavík. Þetta fer þó mjög mikið eftir því hvað erlendi leikmaður Grindvíkinga, Yvonne D. Shelton gerir. Allur leikur Grindvíkinga fer í gegnum hana, sama hvort það er vörnin, sóknin, sendingar eða hvað það nú er. Það er bæði styrkur Grindvíkinga og veikleiki," segir Ívar.

"KR er sterkasta varnarliðið í deildinni og ég held að þeim takist að stöðva Shelton og Grindavíkurstúlkurnar. Shelton nær ekki að sækja eins mikið inn í teiginn og hún vill því þar eru Hanna Kjartansdóttir og Jessica Stomski og þær eru báðar mjög góðar í vörn.

Það má segja að KR sé loksins núna að ná fullum styrk þótt enn vanti dálítið upp á það hjá Grétu [M. Grétarsdóttur], en hún hefur verið meidd og það hefur sett svip sinn á hana. Hana vantar ennþá fullan styrk og það getur verið slæmt fyrir KR. Það sem KR vantar helst er einhver sem ógnar með skotum fyrir utan og þar er Gréta sterk sé hún í formi er hún leikmaður sem KR þarf nauðsynlega að hafa.

Hanna hefur leikið mjög vel að undanförnu og einnig Stomski sem er öflugur leikmaður. Þá hefur Hildur [Sigurðardóttir] leikið frábærlega eftir að Stomski kom til liðsins og virðist finna sig best þegar einhver stór og sterk er inn í teignum. Ég held að KR-stúlkur hafi það 2:0 en það verður erfiðara fyrir þær en Keflavík á móti Njarðvík," sagði Ívar.