FIMLEIKAFÓLK úr Gerplu hafði mikla yfirburði á Íslandsmótinu í þrepum íslenska fimleikastigans sem fram fór um helgina.

FIMLEIKAFÓLK úr Gerplu hafði mikla yfirburði á Íslandsmótinu í þrepum íslenska fimleikastigans sem fram fór um helgina. Keppt var í átta mismunandi þrepum og sigruðu keppendur frá Gerplu í öllum flokkum og það sem meira var af þeim 22 sem komust á verðlaunapall voru 18 verðlaunahafar úr Gerplu.

Á mótinu fengu aðeins þeir að keppa sem staðið höfðu sig best á fyrri mótum vetrarins, þannig að aðeins þeir kepptu sem hafa staðið sig best í skylduæfingum í vetur.

Mikill áhugi var á mótinu og segjast forsvarsmenn fimleika ekki muna eftir því að áhorfendur hafi þurft frá að hverfa, en fullt var út úr dyrum í íþróttahúsi Bjarkar.