ÁKVEÐIN vinnubrögð eru viðhöfð þegar mál er tekið til formlegrar rannsóknar. Skipaður er rannsóknarstjóri fyrir hvert mál sem stjórnar rannsókninni og skrifar rannsóknarskýrslu.

ÁKVEÐIN vinnubrögð eru viðhöfð þegar mál er tekið til formlegrar rannsóknar. Skipaður er rannsóknarstjóri fyrir hvert mál sem stjórnar rannsókninni og skrifar rannsóknarskýrslu. Málin eru misjafnlega viðamikil og ólík eftir því hvort um atvik er að ræða eða slys þar sem flugvél hefur farist með hugsanlegum dauðsföllum.

En hvernig gengur frumrannsókn fyrir sig á slíkum vettvangi?

Fyrsta atriðið segja þeir Þormóður og Þorkell vera að bjarga fólki og tryggja öryggi. Eftir það hefjast rannsakendur handa og stjórnandi rannsóknar skipar mönnum til verka. Fyrst þarf að skoða vettvang og fara sér hægt við það enda segja þeir eitt mikilvægasta atriðið að gæta þess að spilla ekki gögnum. Einnig er ljósmyndað og myndbandstökuvél komið fyrir til að nema allt sem gert er á staðnum. Skráning á því sem ber fyrir augu er mikilvæg og gögn eru merkt áður en hreyft er við þeim. Jafnframt þarf að tryggja að fáanleg séu afrit af samskiptum flugvélar og flugumferðarstjórnar og aðrar utanaðkomandi upplýsingar. Menn reyna að gera sér grein fyrir hvernig flugvélin hefur farið í jörðina, kanna stöðu allra stjórntækja, stýrisflata, vængbarða, mæla o.s.frv.

Eftir vettvangsrannsókn er leitað viðbótarupplýsinga með viðtölum við þá sem komu við sögu eftir því sem unnt er, úr áðurnefndum gögnum af samskiptum við flugvélina, hjá sjónarvottum og hugsanlega þeim sem komu fyrstir að. Í þessu sambandi segja þeir mikilvægt að t.d. björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið hafi í huga að þeir geti veitt mikilvægar upplýsingar og hefur RNF í því skyni áætlað/haldið námskeið með þessum aðilum varðandi umgang á slysavettvangi. Þeir ítreka að björgun fólk sé hins vegar alltaf forgangsatriði - annað komi í kjölfarið.

Stjórnandi rannsóknarinnar skrifar síðan drög að skýrslu sem rædd er í nefndinni og þegar hún hefur verið samþykkt eru gefin út drög að lokaskýrslu sem send er málsaðilum til umsagnar. Eftir frest til athugasemda er skýrsla síðan gefin út.

Í þessu sambandi minnast þeir Þormóður og Þorkell á mikilvægi samvinnu við fjölmiðla. Segja þeir RNF vilja upplýsa um gang mála hverju sinni eins og hægt er. Flugslys og flugatvik séu hins vegar viðkvæm og oft ekki unnt að veita nema lágmarksupplýsingar fyrr en rannsókn lýkur. RNF hefur vegna þessa komið upp nýju vefsvæði til þess að efla miðlun upplýsinga til almennings.