FRAMSÓKNARFLOKKURINN bætir við sig fylgi upp á 3,8 prósentustig og Frjálslyndi flokkurinn nær manni á þing, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem Fréttablaðið birti í gær. Þá missir Vinstrihreyfingin - grænt framboð fylgi upp á 4,5 prósentustig.

FRAMSÓKNARFLOKKURINN bætir við sig fylgi upp á 3,8 prósentustig og Frjálslyndi flokkurinn nær manni á þing, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem Fréttablaðið birti í gær. Þá missir Vinstrihreyfingin - grænt framboð fylgi upp á 4,5 prósentustig. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 36,9% atkvæða samkvæmt könnuninni nú, Samfylkingin 35,9%, Framsóknarflokkur 13,5%, Vinstri grænir 9% og Frjálslyndi flokkurinn 4,7%. Í síðustu könnun blaðsins var Samfylkingin með 1% meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn en nú snýst þetta við.

Í Fréttablaðinu segir að skv. samandregnum könnunum blaðsins verði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra eini þingmaður Framsóknarflokks í þéttbýli og þótt Frjálslyndi flokkurinn fái kjördæmakjörinn mann þá nægir fylgið ekki til þess að fá uppbótarþingsæti. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, nær ekki inn samkvæmt samandregnum könnunum blaðsins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, næði kjöri sem uppbótarþingmaður í Reykjavík norður.

Úrtak blaðsins var sex hundruð manns og var svarhlutfallið 66,8%.