ÖSSUR Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði á fundi Samfylkingarinnar í Salnum í Kópavogi í gærkvöld að stríð á hendur Íraks án samþykkis Sameinuðu þjóðanna kæmi ekki til greina.

ÖSSUR Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði á fundi Samfylkingarinnar í Salnum í Kópavogi í gærkvöld að stríð á hendur Íraks án samþykkis Sameinuðu þjóðanna kæmi ekki til greina. Össur sagði veður í alþjóðamálum nú vályndari en verið hefði um langt skeið. Margt benti til að Bandaríkin ætluðu í árásarstríð við Írak og þá virtist einu gilda hvort það væri með eða án fulltingis alþjóðasamfélagsins og Sameinuðu þjóðanna.

"Engin þjóð á eða má fara með ófriði á hendur annarri þjóð án þess að alþjóðasamfélagið standi gervallt á bak við slíka ákvörðun. Slíkt á að vera útilokað og það er alveg ljóst að slíkt setur heimsfriðinn í bráða hættu. Slíka áhættu má ekki og á ekki að taka. Stríð í Írak án Sameinuðu þjóðanna getur kveikt í því púðri sem við vitum að er í púðurtunnunni fyrir botni Miðjarðarhafs með skelfilegum afleiðingum. Ný víðtæk styrjöld kynni í kjölfarið að bresta á og langvinnt stríð gæti hafist. Það er hugsanlegt að það yrði grimmara og mannskæðara en nokkru sinni fyrr þar sem skelfilegum vopnum á borð við glasasprengjur, sýklavopn, eiturefnavopn og jafnvel eitthvað enn verra getur verið beitt. Ég segi við ykkur á þessu kvöldi: Þessa áhættu hefur enginn þjóðarleiðtogi leyfi til að taka einn síns liðs," sagði Össur og uppskar mikinn fögnuð þeirra tæplega 200 áhorfenda sem í salnum voru.

"Það er okkar skoðun í Samfylkingunni að vilji Sameinuðu þjóðanna eigi að ráða för og verði að ráða för. Ég segi við ykkur á þessu kvöldi: Stríð við Írak á ekki að koma til greina án þess að samþykki Sameinuðu þjóðanna liggi fyrir," sagði Össur.