[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti gaf í gær Saddam Hussein Íraksforseta og sonum hans tveggja sólarhringa lokafrest til að fara í útlegð og sagði að ella hæfist stríð í Írak.

GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti gaf í gær Saddam Hussein Íraksforseta og sonum hans tveggja sólarhringa lokafrest til að fara í útlegð og sagði að ella hæfist stríð í Írak. Í ræðu, sem Bush flutti í nótt, hvatti hann íraska hermenn til að berjast ekki fyrir stjórn Saddams Husseins og kveikja ekki í olíulindum og varaði þá við því að þeir kynnu að verða saksóttir fyrir stríðsglæpi. Hann sagði að Írakar hefðu fengið tólf ár til að afvopnast og að hætta væri á mannfalli meðal bandarískra hermanna og jafnvel árásum hryðjuverkamanna í Bandaríkjunum kæmi til stríðs. Forsetinn útlistaði einnig áform sín um að aðstoða Íraka við enduruppbyggingu landsins eftir stríðið og við að koma á lýðræði.

Fyrr um daginn drógu Bandaríkjamenn, Bretar og Spánverjar til baka drög að nýrri ályktun, sem lögð höfðu verið fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, og bjuggu sig undir að hefja stríð í Írak án stuðnings ráðsins. Ari Fleischer, talsmaður Bush, sagði að tilraununum til að leysa Íraksdeiluna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna væri lokið.

Utanríkisráðherra Íraks, Naji Sabri, hafnaði úrslitakostum Bush í gærkvöldi og Saddam Hussein sagði að Írakar væru tilbúnir að berjast gegn Bandaríkjamönnum og Bretum "hvar sem er á allri jörðinni" hæfu þeir stríð í Írak. "Ef það er vilji Guðs munum við berjast með rýtingum, sverðum og kylfum ef skortur verður á öðrum vopnum."

Jeremy Greenstock, sendiherra Bretlands hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði, þegar hann tilkynnti að ályktunardrögin hefðu verið dregin til baka, að Bandaríkjamenn, Bretar og Spánverjar áskildu sér "rétt til að grípa til eigin aðgerða til að tryggja afvopnun Íraka". Hann kenndi Frökkum um að samstaða skyldi ekki hafa náðst um nýja ályktun í öryggisráðinu.

Powell harmaði óeininguna í öryggisráðinu. "Þetta er augljóslega próf sem öryggisráðið hefur ekki staðist," sagði hann.

Bandaríkjamenn og Bretar gáfu öryggisráðinu sólarhringsfrest á sunnudag til að styðja hernað í Írak en Frakkar héldu afstöðu sinni til streitu og hótuðu að beita neitunarvaldi sínu gegn ályktuninni. Sendiherra Frakklands hjá Sameinuðu þjóðunum, Jean Marc de la Sabliere, sagði að Bandaríkjamenn og Bretar hefðu áttað sig á því á síðustu stundu að meirihluti öryggisráðsins væri andvígur ályktuninni.

Dominique de Villepin, utanríkisráðherra Frakklands, varaði við því að hernaður í Írak myndi hafa "alvarlegar afleiðingar" fyrir Miðausturlönd og alla heimsbyggðina.

Ígor Ívanov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að áformin um hernað í Írak væru brot á alþjóðalögum og síðasta ályktun öryggisráðsins heimilaði ekki að hervaldi yrði beitt eins og stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa sagt.

Robin Cook segir af sér

Robin Cook, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, sagði af sér í gær sem leiðtogi stjórnarinnar í neðri deild breska þingsins til að mótmæla áformum hennar um að hefja hernað í Írak án stuðnings öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða bresku þjóðarinnar.

"Ég get ekki sætt mig við samábyrgð á þeirri ákvörðun að skuldbinda Breta til að taka þátt í hernaði í Írak án alþjóðlegs samkomulags eða stuðnings heima fyrir," sagði Cook í yfirlýsingu eftir fund með Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.

Jack Straw sagði í gærkvöldi að stjórnin hygðist biðja þingið að styðja þátttöku Breta í hernaði í Írak ef nauðsynlegt yrði að beita hervaldi. Búist er við að beiðnin verði borin undir atkvæði á þinginu í dag.

Washington, Sameinuðu þjóðunum. AP, AFP.