Kofi Annan greinir fréttamönnum frá boðum sínum til starfsfólks SÞ í Írak í gær.
Kofi Annan greinir fréttamönnum frá boðum sínum til starfsfólks SÞ í Írak í gær.
KOFI Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ), greindi frá því í gær að hann hefði fyrirskipað öllu starfsfólki samtakanna í Írak að yfirgefa landið, bæði vopnaeftirlismönnum og þeim sem vinni að neyðaraðstoð.

KOFI Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ), greindi frá því í gær að hann hefði fyrirskipað öllu starfsfólki samtakanna í Írak að yfirgefa landið, bæði vopnaeftirlismönnum og þeim sem vinni að neyðaraðstoð. Friðargæsluliðar sem framfylgja vopnahléssáttmálanum eftir Persaflóastríðið á landamærum Íraks og Kúveit hafa líka verið kallaðir á brott.

Ótti við að stríð kunni að skella á alveg á næstunni hefur valdið því að flestir sem það geta reyna nú að forða sér út úr Írak. Borgurum vestrænna ríkja hefur verið ráðlagt að halda sig fjarri Persaflóasvæðinu öllu. Bandarískir og brezkir borgarar fengu í gær áskorun frá stjórnvöldum landa sinna um að yfirgefa Kúveit, og var hættan á yfirvofandi hryðjuverkaárásum tilgreind sem ástæða.

Í kjölfar þess að George W. Bush Bandaríkjaforseti gaf á sunnudagskvöld öryggisráði SÞ sólarhringsfrest til að lýsa stuðningi við hernaðaríhlutun eða sitja annars hjá, ráðlagði Bandaríkjastjórn vopnaeftirlitsmönnum SÞ að yfirgefa Írak. Yfir 165.000 bandarískir og brezkir hermenn standa nú gráir fyrir járnum í eyðimörkinni í norðurhluta Kúveit, tilbúnir til innrásar í Írak. Um 100.000 til viðbótar eru í vígstöðu um borð í herskipum og annars staðar á svæðinu.

Írösk stjórnvöld kröfðust þess í gær að SÞ hættu að draga saman seglin í landinu og sökuðu samtökin um að svíkja "ábyrgð sína á að viðhalda friði og öryggi í heiminum".

Erindrekar hinna ýmsu landa biðu heldur ekki boðanna að koma sér frá Bagdad í gær. Þjóðverjar, Kínverjar og Svisslendingar voru meðal þeirra. Erindrekar Frakklands og Grikklands sögðust ætla að bíða þess hvaða fyrirmæli vopnaeftirlitsmennirnir fengju.

En rússneski sendiherrann í Bagdad, Vladimír Titorenko, kvaðst ætla að fara hvergi. Rússneska utanríkisráðuneytið ráðlagði hins vegar rússneskum borgurum að yfirgefa landið.

Bandaríska utanríkisráðuneytið skipaði öllu öðru starfsliði en því bráðnauðsynlegasta í sendiráðum og ræðisskrifstofum Bandaríkjanna í Kúveit, Sýrlandi, Ísrael, á Vesturbakkanum og Gaza að fara þaðan og bandarískum borgurum ráðið frá því að dvelja þar eða ferðast þangað.

Sameinuðu þjóðunum, Dubai, Kúveitborg. AFP, AP.