Margrét Þorbjörg Thors fæddist 16. janúar 1929 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 5. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ólafur Thors forsætisráðherra, f. 19. janúar 1892, d. 31. desember 1964, og Ingibjörg Indriðadóttir Thors, f. 21. ágúst 1894, d. 5. ágúst 1988. Auk Margrétar, sem var yngst systkina sinna, eignuðust Ingibjörg og Ólafur fjögur börn: Thor Jensen, f. 17. september 1916, d. 10. febrúar 1921, Mörtu, f. 28. mars 1918, d. 20. desember 1998, Thor, f. 31. mars 1922, d. 9. desember 1992, og Ingibjörgu, sem fædd er 15. febrúar 1924 og lifir nú ein systkina sinna.

Margrét giftist 30. ágúst 1952 Þorsteini Elton Jónsson flugmanni, f. 19. október 1921, d. 30. desember 2001. Þau skildu 1965. Foreldrar hans voru Snæbjörn Jónsson bóksali, f. 1887, d. 1978, og Annie Florence Westcott Jónsson, f. 1893, d. 1936. Margrét og Þorsteinn eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Ingibjörg Jónsson, f. 27. desember 1952, d. 22. júní 1998, gift Páli Herbert Þormóðssyni, f. 1. janúar 1951. Þeirra börn eru Indriði Viðar, Kjartan Thor, Anna Theresa og Ríkharður Hjalti. Sambýliskona Kjartans er Berglind Þyrí Guðmundsdóttir og eiga þau soninn Sævar Thor. 2) Anna Florence Jónsson, f. 2. mars 1954, gift Paul Masselter, f. 13. maí 1954, þau eiga soninn Michel Thor. Fyrri maður Önnu var Óttar Jóhannsson og eiga þau synina Ingvar Pétur og Ólaf Örn, en elsti sonur Önnu og Þorsteins Daníelssonar er Þorsteinn Elton Jónsson. Hann er kvæntur Maryse Wagner og eiga þau dótturina Chloé Fanny. 3) Margrét Þorbjörg Jónsson, f. 9. febrúar 1956, gift Aðalgeiri Arasyni f. 22. apríl 1957 og eiga þau þrjá syni, Pétur Ólaf, Ara Hálfdán og Þorstein Hjalta. 4) Ólafur Tryggvason, f. 13. júlí 1960, í sambúð með Auði Sigríði Kristinsdóttur f. 1. október 1962. Hann á tvo syni af fyrra hjónabandi, Kristján Rícharð og Daníel Tryggva, móðir þeirra er Soffía Alice Sigurðardóttir.

Margrét var lífsglöð og átti viðburðaríka ævi. Hún ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950, en hafði þá einnig varið tveimur árum við menntaskóla í Bandaríkjunum þar sem hún lauk Junior College-námi. Eftir stúdentspróf nam hún frönsku í París en gerðist síðan flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands. Þar kynntist hún Þorsteini eiginmanni sínum. Þau hófu búskap í Reykjavík en fluttu til Leopoldville í Belgísku Kongó sumarið 1956, þar sem Þorsteinn starfaði sem flugmaður. Heim fluttu þau í hasti 1960 vegna yfirvofandi stjórnarbyltingar. Þrátt fyrir skilnaðinn 1965 hélst vinátta þeirra Þorsteins alla tíð.

Eftir Afríkudvölina starfaði Margrét meðal annars sem leiðsögumaður hjá ferðaskrifstofunni Lönd og leiðir, einnig á tónlistardeild Ríkisútvarpsins og sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Hún var um árabil upplýsingafulltrúi og bókasafnsvörður Menningarstofnunar Bandaríkjanna í Reykjavík. Meðfram því stundaði hún nám við enskudeild Háskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi. Einnig var hún barnakennari við Landakotsskóla einn vetur. Eftir að Margrét hætti störfum utan heimilis var hún virk í félagslífi og naut lífsins eins og hún gat meðan heilsan leyfði.

Útför Margrétar fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Það er ekkert langt síðan ég kynntist henni Möbbu. Hún tók mér opnum örmum frá fyrstu stundu, svo hamingjusöm fyrir hönd sonar síns, að ég held að við höfum orðið fyrirfram ástfangnar í gegnum hann. Sú væntumþykja jókst við kynnin og varð í raun meira en væntum, því fyrir mig hefur þetta orðið upplifun sem ég mun alltaf búa að. Svo gerðumst við sambýliskonur og deildum söguheimi okkar í þetta tæpa ár sem við fengum að búa saman. Ég vandist því að svara því nafni sem hún valdi mér í hvert skipti. Ég hef reynt að greina hvort eitthvað mynstur væri á nöfnunum og er ekki frá því að ég hafi frekar verið Rósa þegar ég var að taka til, Hjördís í kringum mat og Sigrún svona almennt, en þó var það ekki algilt. Svo var ég líka Auður inn á milli. Mabba kenndi mér hvað orðabækur eru máttlausar, með frjórri hugsun sinni. Ég hef heyrt að á blaðamennskuárum hennar hafi hún verið á þeirri skoðun að kvenkynsblaðamaður ætti að kallast blaðra. Orðanotkun hennar var skemmtileg, hún svaf ekki bara eins og engill, heldur eins og tveir englar eða fleiri eftir atvikum.

Þrátt fyrir stutt kynni, get ég ekki gert öllum góðu kostunum hennar skil í svona stuttri grein, því hún var stór persónuleiki. Eitt af því skilvirkasta í fari hennar var hvað hún var skemmtileg. Eftir að við gerðumst sambýliskonur gerðist það einhver skipti að ég hitti fólk sem ekki þekkti hana og sagði með vorkunnsemi í röddinni við mig: "Ó, býrðu með tengdamömmu þinni?". En ég gat vorkennt þeim til baka, því þeir höfðu ekki einu sinni hugmyndaflug til að átta sig á hvað ég var heppin. Ég bjó ekki bara með "tengdamömmu", ég bjó með stórskemmtilegri konu, víðförulli og fróðri, ákveðinni og einlægri. Hún var mikil lífsnautnakona, í öllum merkingum þess orðs; naut bæði lífsins og lífsins lystisemda. Einlægnin hennar var einstaklega skemmtileg í kringum góðan mat, því þá gat hún ekki setið á sér að gera Ohhoho af hrifningu og það var mikið af Ohhoho þegar hann Óli okkar kokkaði. Tillitssemi hennar var líka einstök. Nú síðast þegar við biðum eftir sjúkrabílnum í janúar, og hún átti erfitt með mál og allar hreyfingar vegna áfallsins sem hún var að ganga í gegnum, þá hætti hún ekki fyrr en hún hafði gert sig skiljanlega með að biðja mig um að hringja fyrir sig í dansarann og afboða hann, svo hann færi ekki fýluferð. Dansarinn hennar Möbbu er enn eitt dæmið um skemmtilega tilveru hennar. Ég og flestir aðrir hefðum líklega slysast til að líta svo á að hann væri bara sjúkraþjálfari, sem kom tvisvar í viku eftir að hún slasaðist í haust, en hún kaus að hafa þetta skemmtilegra.

Ég er þakklát fyrir þann yndislega tíma sem ég fékk með henni. Þótt heilsu hennar væri farið að hraka, er ég kynntist henni, hafði hún samt mikið að gefa og virtist eiga nóg handa öllum. Ég þakka fyrir minn skammt. Ég mun alltaf njóta okkar kynna.

Ég vona að þú skemmtir þér vel á nýjum slóðum, Mabba mín. Takk fyrir að vera svona yndisleg. Er ekki veröldin dásamleg?

Auður Sigr. (ásamt Rósu, Hjördísi og Sigrúnu).

Þau vináttubönd sem tengdu mig Möbbu tengdamóður minni fæ ég seint fullþökkuð. Ég kynntist henni fyrir 26 árum, gat verið eitthvert sumarfiðrildi ellegar verðandi tengdasonur en hús hennar stóð strax opið mér og öllum vinum mínum. Mabba reyndist allskyld sumum þeirra. Það var því margt í fari hennar sem mér fannst fyrirfram kunnuglegt. Hún fékk góðan skammt af þeim bestu eiginleikum sem einnig einkenna frændfólk hennar allt, var heil og traust og velviljuð, með mikla persónutöfra og kunni vel að gleðja geð annarra. Hverrar þjóðar sem nærstaddir voru, tungumál voru henni enginn þröskuldur í að tjá hressileika, orðheppni og snarpan húmor. Alvaran var auðfundin meðfram og einlæg guðsást og blessunarorð hrein og bein. Henni, systkinum hennar og móður er ég afar þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast og allt sem þau hafa gefið og gert fyrir fjölskyldu okkar Maggýjar. Minni fjölskyldu var Mabba sannarlega elsk, var umhugað um hagi foreldra minna og frændfólks og bar virðingu fyrir þeim. Hún var amma Mabba sona minna, og þegar átti að velja einum þeirra nafn vildi eldri bróðir hans að hann yrði skírður Emmi Mebbi. Sjálf unni hún orðaleikjum, einn jólapakkinn innihélt booze-áhöld, lítil sérrýglös. Og þvílík matargerðarlist og nöfnin eftir hennar höfði - Dálæti furstans frá Timbúktú, sem gat líka eins verið bara vöfflur úr grjónagraut.

Lífið er ekki alltaf leikur, alvarlegur heilsumissir síðasta mánuðinn sýndi vanmátt okkar andspænis snúningi lífshjólsins. Ég man atvik fyrir nokkrum árum sem leið án orða, það var eins og Mabba sæi kusk á enninu á mér og fjarlægði það, en jafnskjótt hvarf höfuðverkur sem ég hélt að enginn vissi af. Sannarlega var óskandi að geta endurgoldið þannig í veikindum hennar. En hún kvaddi í fullkomnum friði og ég samgleðst henni og þeim sem nú njóta félagsskapar hennar efra. Guð blessi þig alla daga Mabba mín.

Aðalgeir Arason.

Mabba móðursystir. Hvað dettur manni fyrst í hug? Engin spurning: ef Mabba var einhvers staðar, þá var gaman þar. Garanterað að hún héldi uppi fjöri með sinni óviðjafnanlegu orðheppni og húmor. Hún var full af óstýrlátum lífskrafti, sem sprengdi utan af sér alla ramma. Hún var eiginlega nokkrum númerum of stór fyrir venjulegt samfélag. Það verður aldrei um hana sagt að hún hafi verið prúð eða pen. Nei, Mabba var stór í sniðum og hjartahlýjan þvílík að það þurfti ekkert að kynda nálægt henni.

Lengi fannst mér eins og Mabba hefði fæðst á röngum stað. Sálin hefði sennilega verið póstmerkt til New Orleans, því hennar rétta element var jazzinn, marglitu Kreolakjólarnir og besti matur í heimi í tonnatali. Maturinn hennar var æðisgenginn, en alltaf allt of mikið af honum, því Mabba nennti ekki að elda ofan í fjóra, fjórtán var nær lagi hvort sem von var á þeim í matinn eða ekki. Alltaf pláss fyrir einn í viðbót, allar áætlanir sveigjanlegar, ef þær voru þá til. Hún Mabba jazzaði í gegnum lífið, og spilaði bara eftir eyranu.

Allir sem þekktu hana eiga litríkar minningar. Sjálf man ég fyrst eftir henni þar sem hún stóð fyrir ofan mig í tröppunum á svölunum út í garð hjá afa og ömmu og var að reykja langa sígarettu með stæl. Í ljósbláum kjól og ótrúlega háhæluðum korkskóm. Flottir fótleggir. Jafnvel ég, fimm ára, tók eftir því. Hún var svoldið fjarlæg og flott með hláturmildan náunga upp á arminn, sem ég hélt að væri sýslumaður af því að hann var með vínarbrauð á öxlunum. En þetta var auðvitað hann Steini flug, maðurinn hennar Möbbu og stóra ástin í lífi hennar alla tíð. Þótt þau hafi skilið fyrir - nú trúi ég ekki mínum eigin útreikningum - nærri 40 árum! þá slitnaði aldrei strengurinn á milli þeirra. Þau voru alltaf vinir og félagar og hún sá aldrei sólina fyrir honum. Enda var það ekkert hægt, því annar eins sjarmör var vandfundinn. Hann var hugrakkur, lítillátur og heillandi ævintýramaður, en það lá ekki sérlega vel fyrir honum að eiga bara eina konu í einu, frekar en James Bond. En þetta vissu þær vel, Kata seinni konan hans og Mabba, og þær stýrðu málum af þeirri visku, að þessi tvö heimili mynduðu eina fjölskyldu.

Mabba vílaði ekkert fyrir sér. Með þrjár litlar dætur fylgdi hún Steina til belgísku Kongó þegar hann fékk vinnu þar '56. Það hefur ekki verið heiglum hent að setjast að þarna, fjarri stuðningi ættingja og vina. Hún varð að treysta á sjálfa sig. Það gerði hún með glans og skilaði fjölskyldunni heim reynslunni ríkari þegar þau þurftu að yfirgefa Afríku í snarhasti í upphafi byltingarinnar. Heimilið bar alltaf afrískan blæ eftir þetta, með fallegum munum og þeirri víðsýni sem það gefur að hafa búið í annarri menningu um árabil.

Nei, hún vílaði ekkert fyrir sér og hún var óþolinmóð og fljót að leysa málin. Einu sinni var hún í heimsókn hjá pabba og mömmu með krakkana. Þegar hún ætlaði heim kom í ljós að fjólublái lettinn var fastur í afturábakgír. Það þýddi nú lítið að tala um slík vandamál við föður minn, en hann stakk upp á að hóa í einhvern sem vit hefði á gírum. Mabba nennti því ekki, og bakkaði bara heim.

Sumir segja að skrifborð manna lýsi þeirra innri manni. Ég vil benda sálgreinum á að kanna innihald kvenveskja. Möbbu taska var óvenjustór og rosalega þung, enda komu undarlegustu þarfaþing upp úr henni. Einu sinni var ég með Möbbu í húsi, þar sem þurfti að flytja mynd til á vegg, en hafði dregist því það fannst enginn hamar. Mabba kafaði ofan í kvenveskið og dró upp klaufhamar. Þegar hún varð fertug buðumst við Dóra vinkona til að taka til eftir boðið. Henni fannst það góður kostur, og sagði að á móti mættum við eiga öll þau veisluföng sem af gengju, vot og þurr. Ég hef áður látið þess getið hvílíkur höfðingi hún var í matargerð og þrátt fyrir hvað þessi afmælisveisla var vel lukkuð og fjölmenn dugðu afgangarnir okkur Dóru í margar veislur. Mabba benti okkur á, að eina almennilega ílátið sem hún hefði fundið til að blanda kokkteilinn í væri hylkið utan af ryksugunni. Vildum við vinsamlega tæma það og taka með okkur? Við gerðum það og árgangurinn okkar í Menntó dimmitteraði meira og minna með aðstoð kokkteilsins hennar Möbbu.

Þær eru óteljandi sögurnar af þessari eldkláru og óvenjulegu konu. Ég sagði áðan að mér hefði fundist eins og hún hefði fæðst á röngum stað. En það hefur verið að renna upp fyrir mér, að hún var afsprengi síns fólks. Kraftinn átti hún ekki langt að sækja, með föður sinn Ólaf og afa sinn Thor Jensen. Munurinn var sá, að hún beislaði ekki sinn kraft. Hann braust fram óhaminn, stundum meiri, stundum minni. Hún beindi honum ekki í farveg, heldur lét hann bara vaða.

Eins og í miklum vatnsföllum lá dýpsti straumurinn í streng sem fáir, ef nokkrir, sáu. Mabba deildi ekki sínum dýpstu hugsunum. Hún var stolt og sterk og kvartaði aldrei, sama á hverju gekk. Hún gat sjálf og þáði ekki einu sinni arm að styðja sig við yfir götu.

Ég kveð mína elskuðu móðursystur með söknuði og þakka mínum sæla fyrir að hafa átt hana að. Mikið hefði lífið orðið litlausara án hennar Möbbu. Guð blessi hana og ástvini hennar alla.

Guðrún Pétursdóttir.

Ó æska, æska

þegar dagarnir komu

eins og undarlegt heillandi

ævintýri,

og þeir báru allan fögnuð og fegurð lífsins

í faðmi sínum.

Þegar við börnin gengum í gróandi túninu,

og grasið og blómin

og lækirnir

voru leiksystkin okkar.

(Steinn Steinarr.)

Það mun hafa verið árið 1931, sem Ingibjörg og Ólafur Thors fluttu í sitt nýbyggða hús í Garðastræti 41 og með þeim fjögur börn þeirra; Marta, Thor, Ingibjörg og Margrét Þorbjörg, sem var yngst og kölluð Mabba. Hún er hér kvödd.

Þarna urðu þau næstu nágrannar okkar á Hólavelli (Suðurgötu 20). Við vorum átta systkini þar, sex bræður og tvær systur. Milli þessara hópa barna og unglinga myndaðist vinátta sem hélst allt lífið. Auk þess voru feður okkar bæði vinir og samherjar.

Mabba var aðeins tveggja ára, en ég (Obba) þriggja ára þegar þau fluttu í nágrennið. Þar með hófst vinátta okkar sem hefur þá staðið í sjötíu og tvö ár. Heimili okkar beggja stóðu alltaf opin fyrir okkur og það væri efni í heila bók allar þær góðu minningar sem ég á frá heimili hennar og hennar góðu foreldra sem alltaf sýndu manni elskusemi og ótrúlega mikið umburðarlyndi í oft ærslafullum leikjum okkar úti og inni. Mabba var strax þróttmikil, ákaflega glaðlynd og skemmtileg. Auk þess var hún vinföst og vinamörg.

Þessir góðu eiginleikar hennar entust út lífið. Leikvangur okkar var vesturbærinn. Á Landakotstúni komu saman börn víða að úr nágrenninu sem héldu hópinn árum saman. Það var farið í ótal leiki. Enn er mér minnisstætt þegar "Feddi" (Ferdinand) ráðsmaður í Landakoti kom askvaðandi til að reka okkur úr túninu, en við vissum auðvitað að þar máttum við ekki vera þegar túnið tók að grænka. Þá var nú betra að vera fljótur að hlaupa enda varð a.m.k. einn úr hópnum Evrópumeistari í 100 metra hlaupi! Í þá daga var kúabú í Landakoti.

Mabba var ávallt framarlega í flokki, góður félagi okkar allra, hugmyndarík og glaðsinna. Á vetrum var farið á skauta á tjörninni enda stutt að fara. Við gengum í Miðbæjarskólann. Hún var góður námsmaður og var ein af tuttugu og níu sem náðu prófi inn í MR, af um tvö hundruð nemendum sem þreyttu próf. Hún sat tvo vetur í MR. En þá langaði hana til að fara til Ameríku og stunda nám þar. Það varð úr og lauk hún námi í menntaskóla þar. Hún var 18 ára þegar hún sneri heim að nýju. Ég man hvað hún var falleg og glæsileg. Barnæskan var að baki og framtíðin blasti við með öllum sínum væntingum. Mabba tók þá ákvörðun að klára stúdentspróf í sínum gamla skóla, MR. Hún sat í 5. og 6. bekk og varð stúdent 1950. Hún hélt alla tíð tryggð við skólasystkini sín, bæði þau sem hún byrjaði með og hin sem hún tók stúdentsprófið með. Þar, eins og alstaðar sem hún hélt sig, var hún hrókur alls fagnaðar og vinsæl að sama skapi.

Eftir stúdentspróf stundaði hún nám í París og gerðist síðan flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands. Það varð örlagaríkt því að þar hófust kynni hennar og Þorsteins Jónssonar flugkappa sem varð svo eiginmaður hennar. Þorsteinn varð fljótlega vinur okkar, vina hennar og áttum við hjónin margar ánægjustundir með þeim. Þau Þorsteinn eignuðust fjögur börn. Örlögin höguðu því samt svo að þau slitu sínu hjónabandi á meðan börnin voru ung. Mabba sýndi þá hvað í henni bjó og fór út á vinnumarkaðinn þar sem hún starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu; sem leiðsögumaður og einnig um árabil hjá Amerísku upplýsingastofnuninni.

Hún lét sig ekki muna um með vinnu og barnauppeldi að stunda nám í frönsku og ensku við HÍ, enda mikil tungumálamanneskja. Hún lauk BA prófi í ensku. Hana skorti aldrei kjark og áræðni.

Hún þurfti að standa af sér þung áföll. Elsta dóttir hennar, Ingibjörg, missti heilsuna og dó fyrir nokkrum árum frá manni og fjórum börnum. Þetta var gífurlegt áfall og ekki bætti úr að heilsa Möbbu var þá farin að gefa sig. Hún hefur tekið öllu í lífinu með reisn og jafnaðargeði, bæði meðbyr og mótbyr eins og sönnum höfðingja sæmir. Höfðingi, já það var hún sannarlega. Hún var alla tíð tilbúin að hjálpa öllum sem til hennar leituðu og oft gerði hún meira en hún með góðu móti mátti.

Ég sem þessar línur rita get aldrei þakkað nógsamlega hennar vinátu og tryggð við mig og allt mitt fólk fyrr og síðar. Börnum hennar og barnabörnum, sem líka eru mér kærir vinir, votta ég mína innilegustu samúð. Ingibjörgu systur hennar, sem ein er eftir af þessum glæsilega systkinahópi, sendi ég líka mínar bestu samúðar- og vinarkveðjur.

Ég kveð elskulega vinkonu mína með ljóðlínum eftir Þorstein Erlingsson:

Og nú fór sól að nálgast æginn,

og nú var gott að hvíla sig,

og vakna upp ungur einhvern daginn

með eilífð glaða kringum sig

Nú opnar fangið fóstran góða

og faðmar þreytta barnið sitt;

hún býr þar hlýtt um brjóstið móða

og blessar lokað auga þitt.

Hún veit hve bjartur bjarminn var,

Þótt brosin glöðu sofi þar.

Farðu vel og Guð þig geymi.

Þorbjörg Pétursdóttir.

Við andlát stórbrotinnar konu eins og Margrét Thors var, kemur upp í huga mínum kafli í Íslandssögunni sem mótaði flest ytri skilyrði sem mín kynslóð lifir við. Hugurinn fyllist af þakklæti og aðdáun á þeirri framsýni, dugnaði og elju sem einkenndi allt umhverfi Margrétar og þess góða fólks sem að henni stendur. Mabba, eins og flestir kölluðu hana, var mér frá upphafi eins og önnur móðir enda nánasta vinkona móður minnar.

Fyrstu minningar mínar um hana eru frá uppvaxtarárunum í Garðastrætinu. Hún bjó með fjölskyldu sinni á Hávallagötunni og þar byrjaði vinátta og væntumþykja sem varði um alla tíð. Við vorum heimagangar hjá henni og allur barnahópurinn eins og stór systkinahópur. Okkur krökkunum þótti mikið til þess koma að búa við hliðina á foreldrum Möbbu, frú Ingibjörgu og Ólafi Thors. Við höfðum miklar mætur á þessum merkishjónum og bárum mikla virðingu fyrir þeim. Það var alltaf líf og fjör í kringum Möbbu. Hún sagði afburða skemmtilega frá og hafði lag á að að kalla fram allt það jákvæða í lífinu. Mér fannst alltaf að hún hefði lausn á öllu, enda naut ég hjálpsemi hennar og ráðgjafar alla tíð.

Geta hennar og vilji til að laga sig að öllum aðstæðum gerði það líka að verkum að við sem vorum kynslóðinni yngri sóttumst eftir því að vera í nálægð hennar. Á þessu varð engin breyting þegar árin liðu. Eftir að fjölskylda mín fluttist upp í Borgarfjörð varð heimili hennar í Reykjavík sem mitt eigið. Það var ávallt tilhlökkunarefni að fara til höfuðstaðarins og heimsækja hana. Þegar ekið var fram hjá Korpúlfsstöðum þar sem Thor Jensen, afi Möbbu, reisti glæsilegasta bú landsins fyrr og síðar, leitaði hugurinn til hennar og allra þeirra stórvirkja sem fjölskylda hennar stóð fyrir.

Okkur fannst það líka framandi þegar Mabba fluttist til belgíska Kongó með fjölskyldu sinni. Jafnvel þótt við hefðum fregnir af þeim var tómlegt á meðan. Við fögnuðum því líka innilega þegar hún kom heim og sérstaklega þegar hún kom í heimsókn í Borgarfjörðinn með börnunum. Það var altaf glatt á hjalla. Það lá því beint við þegar ég stundaði nám í Reykjavík að ég fengi húsaskjól hjá Möbbu. Þar naut ég hlýju og væntumþykju á fallegu heimili hennar á Rauðalæknum. Mér leið líka eins og ég væri einn af hópnum.

Allar götur síðan og þrátt fyrir langan aðskilnað vegna veru minnar erlendis hélst þessi einstaka vinátta. Sambandið rofnaði aldrei og það urðu alltaf fagnaðarfundir þegar leiðir lágu saman. Að leiðarlokum fyllist hugurinn þakklæti fyrir að fá að vera samferða yndislegri manneskju eins og Margrét var og söknuði vegna fráfalls hennar. Það er allt tómlegra án hennar. Ég bið Guð að blessa börnin hennar: Ingibjörgu sem er látin; Önnu; Margréti og Ólaf og veita þeim huggun harmi gegn.

Jón Kjartansson.

Við Mabba kynntumst í Menntaskóla og héldum okkar góða sambandi þaðan í frá. Við vorum samstiga um margt og fórum kannski ekki hefðbundnar leiðir að hlutunum. Sjálfsagt höfum við verið taldar ódælar á stundum - það var til dæmis ekki hefðbundið, eða í takt við tíðarandann í kringum 1950, að við sprönguðum um í gallabuxum og "bobby socks", mæðrum okkar til mikillar skelfingar og skólasamfélaginu til undrunar.

Mabba var ekki nein venjuleg vinkona. Uppátæki hennar og húmorinn voru einstök. Það var líf og fjör í kring um hana. Hún giftist honum Steina, hetju háloftanna og þekktum ævintýramanni. Með honum flutti hún með börn og buru til Kongó. Á svefnherbergisloftinu þeirra Steina í Kongó höfðu hreiðrað um sig tvær eðlur - Mabba sagði mér glöð í bragði að nú væru staðgenglar okkar Péturs hjá henni og eðlurnar fengu nafnið Eðla og Pétur.

Hugmyndarík var hún og lét fátt stöðva sig ef því var að skipta - hún fylgdi hjartanu frekar en hefðunum og þá minnist ég þess er börnin okkar voru í sumarskóla á Stykkishólmi. Einn daginn kom hún að máli við mig og sagðist vilja fá að sjá börnin sín, en í þá daga var ferð í Stykkishólm, og til baka, gott dagsferðalag. Mabba lét ekki vegalengdir aftra sér - eitt símtal og Mabba var búin að útvega flugvél og flugmann og í heimsókn fórum við.

Margs er að minnast og af nægu að taka þegar á að minnast Möbbu - væri reyndar efni í heila bók. Hún lifði ævintýralegu, en á tíðum erfiðu lífi. Hún sigraði hvern hjallann af öðrum, hún vann mörg og ólík störf, hafði áhrif á samferðafólkið og er minnisstæð hverjum þeim er hana þekkti. Hún er nú farin á æðri stað þar sem hún kemur væntanlega til með að hrista duglega upp í hlutunum - já það verður líf og fjör í himnaríki núna. Ég þakka henni samfylgd og trausta vináttu. Það var mitt lán að eiga hana að vinkonu. Aðstandendum votta ég samúð.

Erla Tryggvadóttir.

Kveðja frá Morgunblaðsmönnum

Margrét Thors var þegar orðin lífsreynd kona og veraldarvön, þegar hún réðst til starfa á ritstjórn Morgunblaðsins upp úr miðjum sjöunda áratugnum, fjögurra barna móðir og hafði búið um alllangt skeið erlendis. Hún var því af öðru sauðahúsi en það unga fólk, sem setti svip sinn á ritstjórnina. En Mabba, eins og hún var kölluð í daglegu tali, féll fljótlega inn í þann glaðværa og vinnusama hóp sem fyrir var.

Hún vann fljótt hug samstarfsmanna með lífsgleði sinni og kitlandi hlátri. Og Mabba var mikill húmoristi. Með ljúfu viðmóti tileinkaði hún sér þau vinnubrögð, sem tíðkuðust á blaðinu, og sætti sig við miklar kröfur og langan vinnutíma.

Þeim fækkar óðum, sem enn eru starfandi á ritstjórn Morgunblaðsins og unnu með Möbbu fyrir rúmum þremur áratugum. En þessi sérstæða kona er enn ljóslifandi í minningunni og fyrrverandi samstarfsmönnum er það mikils virði að hafa kynnzt henni. Þessi kynni eru þökkuð að leiðarlokum og börnum Margrétar Thors og öðrum ástvinum eru sendar samúðarkveðjur við fráfall hennar frá Morgunblaðinu og gömlum samstarfsmönnum.

Björn Jóhannsson.