19. mars 2003 | Fólk í fréttum | 319 orð

KVIKMYNDIR - Háskólabíó - Norrænir bíódagar

Hrokafullar, varnarlausar

FARVEL ÞRÖSTUR (BYE BYE BLUEBIRD) **½

Leikstjórn og handrit: Katrin Ottarsdóttir. Kvikmyndataka: Jörgen Johansson. Aðalhlutverk: Hildigunn Eyðfinsdóttir, Sigri Mitra Gaini, Johan Dalsgaard, Elin K. Mouritsen, Birita Mohr. 97 mín. Dan/Fær. Den Danske Film Institut 1999.
EN gaman að sjá færeyska kvikmynd! Og ekki er verra þegar hún er bara býsna áhugaverð. Hér segir frá tveimur ungum konum, Rannvá og Barbu, sem koma heim til Færeyja, eftir að hafa (að mér skildist) unnið sem fyrirsætur víða í Evrópu. Þær telja sig miklar heimskonur og eru vel hrokafullar þegar þær leggja í ferð um eyjuna til að gera upp fjölskyldumál sín, sem og tilgangur heimferðarinnar er. En brátt bráir af þeim og við sjáum að undir niðri eru þær ósköp aumar og varnarlausar.

Ég verð að viðurkenna að fyrst fannst mér erfitt að komast inn í myndina. Stelpurnar voru hrokafullar og hleyptu engum að sér. Líka fannst mér erfitt að skilja bakgrunn þeirra og þrár. Smám saman komu þó hlutirnir í ljós, og stelpurnar urðu virkilega heillandi og sömuleiðis bílstjóri þeirra um eyjuna, hann Rúni.

Katrin vill greinilega segja frá ýmsu varðandi Færeyjar í þessari mynd. Það virðist erfitt hversu lítið landið er, og því þrengir að fólki sem er ekki nákvæmlega einsog aðrir eða hefur nýjar hugmyndir um hlutina. Það var forvitnilegt að sjá að frændur okkar færeyskir eru ólíkari okkur en ég áleit. Þeir virðast mun guðhræddari og líta barneignir fyrir hjónaband mun alvarlegri augum en við. En mesta áherslu leggur Katrin á hversu óheillavænar Færeyjar eru ungum konum. Ef þær verða óléttar bíður þeirra ekkert annað en hjónaband, og í flestum þeirra virðast karlmennirnir vera fullir alla daga, timbraðir fyrir framan sjónvarpið eða flúnir frá öllu saman. Og ef þær eiga sér draum geta þær gleymt honum. Ég veit ekki hvernig þetta er í raun, en myndin er séð með augum ungra kvenna sem vilja meira en bleiuþvott og uppvask.

Vissulega er mikill byrjendabragur á Bye Bye Bluebird hvað snertir handrit, tæknivinnu og leik. En verkið er samt sem áður heillandi lítil mynd, og greinilegt að leikstjórinn hefur fullt að segja. Svo það er spennandi að sjá hvaða sögu Katrin Ottarsdóttir segir okkur næst.

Hildur Loftsdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.