Jón Þórarinsson tónskáld og fyrrverandi dagskrárstjóri Sjónvarpsins er 70 ára í dag. Nú er hartnær hálf öld síðan Jón fór að starfa við Ríkisútvarpið. Að vísu hefur hann ekki unnið þar samfellt allan þennan tíma, en frá þvíer hann hóf starf árið 1938 hjá Útvarpinu, sem þá var í Landssímahúsinu við Austurvöll, hefur hann lengst af verið tengdur stofnuninni, ýmist sem fastur starfsmaður í ýmsum deildum hennar eða í þjónustu aðila sem henni eru nátengdir. Þannig var hann móttökustjóri, þulur, fréttamaður og síðast en ekki síst var hann fulltrúi í Tónlistardeild Útvarpsins um níu ára skeið, áður en hann gerðist framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á Tónlistardeild Útvarpsins vann hann ötullega að því að efla tónlistarþekkingu og bæta tónlistarsmekk langsmanna, og að því að gera Útvarpið að "tónleikasal allrar þjóðarinnar". Þá átti hann afgerandi þátt í því að Sinfóníuhljómsveit Ís lands var stofnuð.

Persónuleg kynni okkar hófust er hann var skipaður dagskrárstjóri Lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins árið 1968, en þeirri stöðu gegndi hann til ársins 1979. Með okkur tókst strax hið besta samstarf sem aldrei bar neinn skugga á. Dagskrárstjóri Lista- og skemmtideildar þurfti bæði að stjórna veigamiklum hluta hinnar innlendu dagskrárgerðar og sinna aðdráttum á erlendu lista- og skemmtiefni. Á þessu umfangsmikla sviði nýttust fjölþættir hæfileikar hans og víðtæk menntun frábærlega vel.

Þegar Jón Þórarinsson lét af embætti hjá Sjónvarpinu árið 1979 settist hann ekki í helgan stein, síður en svo. Hann hefur tekið að sér ýmis verkefni fyrir Sjónvarpið bæði á sviði tónlistar og eins við þýðingar, þegar mikils hefur þóttvið þurfa. Þá tók hann sæti í út varpsráði árið 1983 og þar hefur reynsla hans og glöggskyggni verið stofnuninni til mikilla heilla.

Auk þess hefur hlaðist á hann fjöldi verkefna fyrir ýmsa aðra, og nú síðast hefur hann tekið að sér framkvæmdastjórn Listahátíðar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Jóni ánægjulega samvinnu og góða vináttu, og ég vona að Ríkisútvarpið og þjóðin öll megi enn njóta krafta hans um langa hríð og sendi honum og fjölskyldu hans innilegar árnaðaróskir á þessum merkisdegi.

Pétur Guðfinnsson