9. ágúst 1991 | Minningargreinar | 463 orð

Minning: Nanna Snæland Fædd 15. júlí 1912 Dáin 1. ágúst 1991 Það eru

Minning: Nanna Snæland Fædd 15. júlí 1912 Dáin 1. ágúst 1991 Það eru áreiðanlega einhvers staðar fagnaðarfundir þessa dagana. Nanna er komin heim eftir langa og stranga lífsferð. Ég sá ekki hana Nönnu Snæland á bestu árum hennar en heyrði oft talað um þessa glæsilegu ungu stúlku sem margir álitu fegursta í Reykjavík. Sagt var líka að ungur tónlistarmaður, ungverskur (aðalsmaður, það þurftu þeir alltaf að vera í ævintýrasögum almannaróms á þeim árum), sem kom hér með hljómsveit, hafi orðið svo ástfanginn að hann hreif hana með sér suður í Evrópu.

Svo kom hún aftur í janúar 1949 ásamt seinni manni sínum, Andrés Kesckés, sem lést hér árið 1986. Mikið vatn hafði runnið til sjávar síðan Nanna kvaddi heimaland sitt og atburðir gerst í lífi hennar sem nægt hefðu í bækur. Fyrri mann sinn missti hún 1943. Nasistar flæddu yfir og hertóku Ungverjaland. Rússar komu og börðust við þá um yfirráð. Bardaginn um Búdapest þar sem Nanna bjó stóð vikum saman en íbúarnir flúðu í kjallara og önnur fylgsni þar sem þeir reyndu að lifa ósköpin af. Um þær mundir lá Nanna milli heims og helju eftir brjóstholsuppskurð vegna berkla en fór, strax og heilsan leyfði, af sjúkrahúsinu ofan í kjallaraholurnar til hinna. Þá hafði hún kynnst Andrési og voru þau gefin saman á meðan ástandið var enn þannig að það var lífshættulegt að skjótast í skjól milli húsa á leið þeirra til prestsins sem gaf þau saman.

Þegar þau Andrés komu hingað landflótta 10. janúar 1949 kynntist ég þeim fyrst. Þá sá ég að almannarómur hafði ekki logið. Falleg var hún og fas tignarlegt en hlýlegt. Það sem seinna kom í ljós sýndi að hér var með afbrigðum hæfileikarík kona sem kunni að nýta þá hæfileika eftir því hvers lífið krafðist hverju sinni.

Í glöðum hópi naut hún sín hvort heldur sem hún var gestur eða veitandi, ef lífið bauð til fagnaðar. Þegar á móti blés og úrræða eða fórna krafist, var það henni jafn eðlilegt að ganga til verks og leysa mál á ábyrgan hátt án undansláttar eða sjálfsvorkunnar. Kom sér þá vel hve verklagin hún var og sköpunargáfa og kímni gerði sitt til að vekja aðdáun á því sem hún hannaði og saumaði.

Mesta gleði Nönnu var Iðunn, nafna tvíburasystur hennar sem dó fyrir tveimur árum, einkadóttur þeirra Andrésar og barnabörnin fjögur. Þau voru henni allt. Kærleikur hennar er ríkulega endurgoldinn af þeim og þess hefur hún notið þessi síðustu ár sem hún dvaldi á Vífilstöðum.

Iðunn, Árni maður hennar og börnin öll hafa verið samhent í því að gera henni dagana sem bærilegasta og sýna henni elsku og virðingu.

Við hin kveðjum Nönnu og minnumst hennar og samverustundanna með gleði og þökk.

Ég veit við hittumst hinum megin.

Ágústa P. Snæland.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.