Sigurður Jónsson fæddist í Ystafelli 23. júlí 1924. Hann lést þar 13. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Sigurðsson bóndi og rithöfundur í Ystafelli og kona hans Helga Friðgeirsdóttir frá Þóroddsstað. Systkini hans eru: Kristbjörg húsfreyja Ystafelli; Hólmfríður húsmóðir á Akureyri; Friðgeir skógarbóndi í Ystafelli sem er látinn; Jónas fyrrv. búnaðarmálastjóri í Kópavogi og Hildur húsmóðir á Geiteyjarströnd í Mývatnssveit.

Sigurður kvæntist 7. júlí 1951 eftirlifandi konu sinni Kolbrúnu Bjarnadóttur úr Reykjavík. Hún er dóttir Regínu Þórðardóttur leikkonu í Reykjavík og Bjarna Bjarnasonar frá Geitabergi í Svínadal, læknis í Reykjavík. Börn Kolbrúnar og Sigurðar eru: Jón frkvstj. Reykjavík, f. 1952, kvæntur Sigríði Svönu Pétursdóttur sagnfræðingi, þau eiga Sigurð Bjarna, Guðrúnu Erlu og Pétur Má; Regína, f. 1953, fjármálastjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, hún var gift Þorkeli Björnssyni heilbrigðisfulltrúa á Húsavík, þau eiga Leif og Kolbrúnu; Helga, f. 1954, kennari á Akureyri, gift Benedikt Sigurðarsyni sérfræðingi við Háskólann á Akureyri, þau eiga Þorgerði og Sigrúnu; Bjarni, f. 1959, d. 1978; Erla, f. 1964, fræðslufulltrúi á Húsavík, gift Óskari Óla Jónssyni aðstoðarmanni byggingarfulltrúa á Húsavík, þau eiga Hrund og Braga. Einnig dvaldi lengi á heimili þeirra og hefur reynst þeim sem sonur Pétur Helgi Pétursson sjómaður á Húsavík, f. 1960, kvæntur Gunnlaugu Eiðsdóttur, þau eiga Eið, Bjarna, Ínu og Snæfríði.

Sigurður nam við Héraðsskólann á Laugum 1942 til 1944. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1945 og íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1951. Hann starfaði hjá Sundhöll Reykjavíkur 1945 til 1950. Hann var kennari við barna- og unglingaskólann á Patreksfirði 1951 til 1958 og í hreppsnefnd Patrekshrepps 1954 til 1958. Hann fluttist heim á föðurleifð sína að Ystafelli 1958 og tók þar við búi foreldra sinna ásamt bróður sínum Friðgeiri. Jafnframt búskap kenndi Sigurður í Ljósavatnshreppi allt til þess að hann lét af störfum vegna aldurs 1994. Fyrst sem skólastjóri við farskóla sem starfaði víða í sveitinni og síðar sem kennari við Stórutjarnaskóla, er hann tók til starfa.

Sigurður var hreppstjóri Ljósavatnshrepps til margra ára. Einnig orgelleikari og söngstjóri við Þóroddsstaðarkirkju um árabil. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var m.a. í stjórn HSÞ um langan tíma.

Á yngri árum var Sigurður afreksmaður í sundi, varð m.a. Norðurlandameistari 1949 og keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum í Lundúnum 1948. Hann keppti allan sinn feril undir merkjum Héraðssambands Suður-Þingeyinga og varð landsþekktur sem Sigurður Þingeyingur.

Útför Sigurðar verður gerð frá Þóroddsstaðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

"Ertu þarna litla mín?" Svona ávarpaði afi mig í hvert skipti sem ég kom til hans. Á eftir fylgdi mjúkt faðmlag og koss á kinnina. Það var ótrúlega notalegt að týnast í fanginu á honum.

Ég erfði ekki íþróttahæfileika Þingeyingsins og er sennilega það barnabarn hans sem hvað lélegast er í íþróttum og kappleikjum. Ég man samt eftir einum sætum sigri sem afi átti stóran þátt í.

Við vorum saman komin í Ystafelli öll elstu barnabörnin þeirra afa og ömmu. Sátum við eldhúsborðið að fá okkur hádegismat. Afa vantaði sárlega gleraugun sín og nennti ekki að brölta eftir þeim sjálfur. Hann sagði okkur að það okkar sem fyndi gleraugun og kæmi með þau til hans fengi 500 krónur í fundarlaun. Frændsystkini mín hlupu öll af stað með miklum látum en ég sat eftir, vissi sennilega að þessu hlaupi myndi ég tapa. Þegar þau voru komin út úr eldhúsinu hvíslaði afi glottandi að mér að líklega væru gleraugun nú á píanóinu inni í stofu. Þangað hljóp ég og varð 500 krónum ríkari. Við sögðum engum frá þessu leyndarmáli, ég vann einfaldlega kapphlaupið. Mitt fyrsta og síðasta.

Stundum var afi mesti krakkinn af okkur öllum. Tilraunir hans við eldamennsku í örbylgjuofninum þegar hann kom á heimilið sem enduðu oftar en ekki með ósköpum og fikt hans við eldinn í grillinu allan ársins hring ásamt ýmsum öðrum uppátækjum sönnuðu að það var alltaf stutt í strákinn í honum.

Það sem gerði hann samt ungan í anda allt hans líf var hans fallega og einlæga samband við ömmu. Manni hlýnaði svo sannarlega við hjartaræturnar að fylgjast með samskiptum þeirra og sjá hve vænt þeim þótti um hvort annað.

Það er margs að sakna á þessum tímamótum. Ég mun sakna þess að þræta ekki við hann um kókdrykkju unglinga, sakna þess að fá ekki að dekra við hann og nudda á honum fæturna, sakna þess að heyra hann ekki raula lögin sín, sakna þess að heyra hann ekki gagnrýna þá sem landinu stjórna - og svei mér ef ég mun ekki sakna umræðunnar um stofnsjóði. Mér er samt efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að taka þátt í lífinu með þessum merkilega karli. Og þakklæti fyrir að hafa átt hann sem afa því betri afa er vart hægt að hugsa sér. Hún "litla þín" kveður að sinni .

Stundin líður, tíminn tekur

toll af öllu hér.

Sviplegt brotthvarf söknuð vekur,

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

Þú varst ljós á villuvegi

viti á minni leið

þú varst skin á dökkum degi

dagleið þín var greið.

Þú barst tryggð í traustri hendi,

tárin straukst af kinn.

Þér ég mínar þakkir sendi,

þú varst afi minn

(Hákon A.)

Kolbrún Þorkelsdóttir.

Forstofan í Ystafelli - við köllum halló og djúpt og dálítið sungið halló tekur á móti okkur. Píanóið - afi að spila og við að syngja með. Fjósið - afi á leið niður varpann með heitt vatn í fötu. Skógurinn - afi á veginum að litast um eftir fallegum trjám. Sófinn heima - afi að leggja sig meðan amma skrapp í bæinn. Minningabrotin eru mörg og hlý.

Sundið - óteljandi sundferðir og ekki undarlegt að við höfum grínast með að bráðum fengi öll fjölskyldan sundfit. Í sundlauginni á Stórutjörnum eyddum við ófáum stundum og þar kenndi afi Þorgerði rétt sundtök. Meðan afi og amma kenndu við skólann átti gamli það til að lauma sér í kjallarann áður en hann fór ofaní - og fikta aðeins við hitastillinn á heita pottinum, stundum með þeim afleiðingum að potturinn varð svo heitur að enginn komst ofaní nema afi!

Þrátt fyrir að við systurnar höfum báðar æft sund í mörg ár, þá ræddum við sjaldan við afa um sund og keppnir. Eftir stórmót átti hann þó til að klappa á bakið á manni og segja: "Þetta gekk bara vel. Innanhússmeistaramótið núna um helgina verður engin undantekning - hún Sigrún stendur sig."

Þegar pabbi var á leið til Sydney bauð hann afa og ömmu að koma til Akureyrar og fylgjast með æfingum hjá Ólympíu-hópunum. Afi sat lengi á bakkanum og fylgdist með. Í framhaldinu sagði hann okkur í smáatriðum frá ferð sinni á ÓL 1948. Sú lýsing mun seint gleymast.

Takk, afi, fyrir sundið, sögurnar, rökræðurnar, sönginn og hlýja ístruna þína í bekknum í byggendunni.

Sundstelpurnar þínar,

Þorgerður og Sigrún.

Það yljar mér að vita að afi fór með mikilli reisn og á þann hátt sem hann kaus sjálfur. Hann lést á sama stað og hann fæddist, en það skipti hann miklu máli. Það myndast alltaf tómarúm við að missa ástvin en minningarnar eru eilífar. Ég á margar minningar um afa minn og síðustu daga hef ég notað til að rifja þær upp. Mér eru minnisstæðar fjósaferðir, sundferðir, koma mjólkurbílsins, reykkofinn og margt annað. Mér er einnig ofarlega í huga ferð sem ég fór með afa og ömmu, frá Reykjavík til Akureyrar. Ferðin tók eina tólf tíma enda þurfti að uppfræða unglinginn í aftursætinu um náttúru og staðhætti á leiðinni; svo þurfti líka að stoppa til að fara í sund. Svo unnu þau landinu að mér fannst sem að þau þekktu hvern stein, hvern bæ og allar sögur sem þessum kennileitum tengdust. Nú er ég í námi sem kallar á þekkingu í landafræði Íslands. Það gladdi afa að vita að ferðafélagar hans, Vegahandbókin og Íslandskort, fylgja mér nú hvert á land sem ég fer.

Ég þakka fyrir samfylgd, leiðsögn og minningar.

Guðrún Erla Jónsdóttir.

Enginn ræður því hvenær kallið kemur. Afi fékk þó ráðið hvar og hvernig. Heima hjá ömmu, í eigin rúmi.

Ég minnist ljóða, kaupfélaga, réttlætis og málfars. Ég lít upp til karlmennsku, sannfæringar og kímnigáfu. Ég þakka félagsskap, fyrirmynd, gildismat og sundferðir. Ég veit að greinin skal vera stutt, hnitmiðuð, án málalenginga og laus við óþarfa.

Takk fyrir allt, nafni.

Sigurður Bjarni Jónsson.

Það er vor í lofti, komin vorjafndægur og allur gróður að byrja að taka við sér.

Með trega og söknuði sest ég niður og skrifa nokkrar línur til að minnast fóstra míns, Sigurðar Jónssonar, Þingeyings, sem nú er látinn.

Það er ekki langt síðan hann tjáði mér að hann reiknaði ekki með því að það voraði hjá sér að þessu sinni.

Þessi árstími er mér svo kær vegna þess að ég kynntist þessum ljúfa manni að vori til fyrir margt löngu. Hann var stór en ég var lítill þar sem hann tók á móti mér á hlaðinu í Ystafelli, ég var bara rétt orðinn níu ára gutti. Hann var hlýr, ég var feiminn, en feimnin hvarf fljótt því ég var strax tekinn inn í þann stóra hóp sem löngum dvaldi í Ystafelli. Sigurður bar mikla virðingu fyrir landinu sínu og kenndi mér margt um allan þann gróður sem vex og dafnar svo vel í landi Ystafells, ekki síst í Fellsskógi. Þar dvaldi ég löngum stundum með honum og Friðgeiri bróður hans við gróðursetningu, grisjun eða við að höggva jólatré. Þessar skógarferðir ylja mér enn um hjartarætur þegar ég minnist þeirra. Ég dvaldi mörg sumur í Ystafelli við gott atlæti og væntumþykju þeirra hjóna, Sigurðar og Kolbrúnar. Eftir að mín börn uxu úr grasi dvöldu þau á sumrum í Ystafelli hjá ömmu og afa, eins og þau kölluðu ætíð Kolbrúnu og Sigurð. Þau kveðja líka með söknuði afa í Ystafelli og þakka honum mikla ástúð og væntumþykju í sinn garð. Sigurður var einkar barngóður og óspar á hrós og hvatningu.

Sigurður Þingeyingur hefur synt sína síðustu ferð. Hann fór sáttur í þá för, enda hafði hann ærna ástæðu til. Fyrir rúmum fimmtíu árum kynntist hann henni Kolbrúnu sinni, Reykjavíkurstúlkunni, sem hann flutti með sér norður í Kinn og auðgaði þar með mannlífið í þeirri sveit til muna. Ef hægt er að hugsa sér fallegt hjónaband, þá er það hjónaband þeirra Ystafellshjóna. Væntumþykja þeirra og ástúð í garð hvort annars leyndi sér aldrei. Þetta sýndi Kolbrún svo fallega með einstakri alúð og nærgætni síðustu mánuðina. Hún gerði Sigurði kleift að dvelja í Ystafelli til hinstu stundar. Hann fæddist í Ystafelli og þar fékk hann að deyja með þeirri sæmd og virðingu sem hæfði Sigurði Þingeyingi fullkomlega.

Vertu sæll, kæri fóstri, og takk fyrir mig.

Pétur Helgi Pétursson

og fjölskylda.

Leiðir okkar Sigurðar Jónssonar eða Sigga í Ystafelli lágu fyrst saman 1958, þegar hann flutti upp á loft í Ystafell með Kollu sína og börnin, Nonna, Regínu og Helgu. Ég var þá níu ára patti en hann þessi stóri frændi minn. Þessi fjölskylda hefur verið mér miklu meira en frændfólk æ síðan, vegna þess að ég var hluti hennar öll sumur fram til fjórtán ára aldurs. Síðan hefur mér einnig fundist að ég væri, á vissan hátt, að koma heim þegar ég hef komið í Ystafell.

Ég man hvað ég var hrifinn af hillunni með öllum verðlaununum hans Sigga frænda. Þar voru margir bikarar og verðlaunapeningar en undarlegast þótti mér samt skothylkið sem ég held að hann hafi fengið í verðlaun í Helsinki.

Á þessum tíma var ég byrjaður að æfa sund að fyrirmynd Sigga og ég var ákveðinn í að afla eins margra verðlauna og Siggi frændi. Gaman var að fara með Sigga í sund og hann kenndi mér að liggja þannig í vatninu að hægt væri að synda á alla hugsanlega vegu hvort heldur var á grúfu eða baki, aftur á bak eða áfram.

Ekki tókst mér að verða eins góður sundmaður og Siggi, en það er nú önnur saga.

Í hugann kemur minning úr brekkunni fyrir ofan eldhúsgluggann í Ystafelli. Þar situr Siggi flötum beinum og er að fella net á tein. Hann hafði þá keypt sér hluta úr síldarnót og var að búa til fyrirdráttarnet. Þetta hlaut að vera stærra og merkilegra net en áður hafði verið gert til fyrirdrátta í Fljótinu. Ég var alla vega viss um það þá.

Það var heldur ekki lítið ævintýri fyrir ungan pjakk að fá að fara með út í Eyrar að draga fyrir með þessu mikla neti.

Fyrstu árin var þá báturinn Ullarfoss notaður við fyrirdráttinn. Ullarfoss höfðu þeir bræður og frændur í Ystafelli smíðað úr tré og járni. Mér er minnisstætt að mér þótti hann fara undarlega í vatni, þegar hann var settur á fljótið því skuturinn stóð svo hátt upp, og hafði ég orð á þessu. Þá var mér sagt að þetta ætti að vera svona, því báturinn væri hannaður fyrir blautt net í skutnum. Þegar netið var komið á sinn stað var líka allt í lagi.

Mest þótti mér þó um hreysti Sigga við fyrirdráttinn eftir að Ullarfoss var orðinn ónýtur. Þá lét hann sig ekki muna um að vaða með netið út og væri of djúpt til að vaða, tók hann bara tógið uppí sig og synti lengra og dró þannig fyrir syndandi þar til að hann gat botnað aftur.

Við veiddum oft vel í þessum fyrirdráttar ferðum.

Siggi var mjög músíkalskur og ekki var amalegt að sitja og hlusta á hann spila á píanóið eða harmoniku allskonar tónlist, eða þegar við sungum saman við undirleik hans heima í stofunni í Ystafelli.

Ég trúði því þá og leyfi mér að trúa því enn, sem hann sagði mér eitt sinn, að hann hefði orðið stór píanisti ef hann hefði ekki orðið fyrir því slysi í æsku að skemma á sér einn fingurinn.

Siggi var borinn og barnfæddur samvinnumaður enda minnisvarðinn um stofnun SÍS reistur á grunni æskuheimils hans. Fyrir mér er það notaleg tilviljun að lokið var við að endurreisa minnisvarðann síðastliðið sumar.

Þegar samvinnuhreyfingin átti í tilvistarkreppu hin seinni ár hugsaði hann mikið um það í hverju vandi hreyfingarinnar fólst og hver væri ástæða þess að svo fór sem fór með þá góðu hreyfingu.

Það var fróðlegt að ræða við hann málefni samvinnuhreyfingarinnar vegna þess hve vel hann þekkti grundvallar hugmyndafræði hennar og hversu hann hafði brotið vandamál hennar til mergjar. Í slíkum umræðum kom líka fram hin mikla rökfesta þess manns sem virkilega hefur ígrundað það sem hann vildi ræða um.

Þannig var einnig farið um flest þau mál sem til umræðu voru við matarborðið inni í "byggendunni" eða inni í stofu á síðkvöldum.

Eitt fannst mér alltaf einkenna málflutning Sigga, en það var hin sterka réttlætiskennd hans. Ég veit líka að Siggi hafði stórt hjarta og ríkar tilfinningar.

Siggi og Kolla voru miklir höfðingjar heim að sækja og voru þau þar hvort sem annað, enda fannst mér aldrei bera skugga á samheldni þeirra. Stundum var farið seint að sofa þegar góð veisla var í Ystafelli og þá gerðist það stundum að sungið var með tilfinningu "We shall overcome" áður en menn sofnuðu vært.

Ég held það hafi verið á sjötugs afmælisárinu hans sem honum var gefinn nokkur fjöldi skógarplantna og þær gróðursettar uppi við Steinholt. Þessi plöntun fjölskyldunnar varð svo að hefð og er nú búið að planta í stóran hluta lands Ystafells vestan í Kinnarfellinu. Ég skoðaði þessa fyrstu plöntun í janúar í ár og varð þá ljóst að þar er að spretta upp verðugur minnisvarði um Sigga.

Stór maður er fallinn frá. Ekki bara stór maður á velli heldur stór hvar sem að honum var komið. Eftir lifir mér minningin um góðan mann.

Ég og fjölskylda mín vottum Kollu og fjölskyldu hennar samúð.

Blessuð sé minning Sigga.

Jón Árnason.

Nú er mikill öldungur að velli fallinn. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég byrjaði að venja komur mínar til afa og ömmu og Sigga og Kollu í Yztafell. Þar var alltaf glatt á hjalla, enda barnahópurinn stór. Eftir fráfall afa og ömmu tóku Siggi, Kolla og Geiri að fullu við búsforráðum og ráku mikið rausnar- og kærleiksheimili. Þeirra hús stóðu okkur frændfólkinu, og reyndar öllum, alltaf opin. Oft var mannmargt í Ystafelli, því að fólk, og þá einkum við börnin, laðaðist að heimilinu. Eftirá að hyggja hef ég oft undrast, hvernig hægt var að veita öllum beina af slíkri rausn, því að oft var engan veginn vitað fyrirfram hve margir yrðu í mat eða til gistingar, en Kolla bar alltaf fram nægan og ljúffengan mat og enginn fór svangur frá borði í Yztafelli. Með tímanum varð Yztafell mitt annað heimili. Börn Sigga og Kollu urðu mér sem systkini, og ég hef oft státað af ríkidæmi mínu að eiga tvenna foreldra. Mér fannst heimilið í Yztafelli vera örugg höfn, þar sem brotskaflar lífsins mundu ekki ná til mín.

Eftir nokkra umhugsun tel ég mig standa í stærstri þakkarskuld við Sigga sem uppalanda. Við vorum ekki gömul krakkarnir, þegar hann byrjaði að skerpa hugsun okkar og rökræðu. Oft var margt við matarborðið í Yztafelli og mikið rökrætt og skrafað. Menn voru ekki alltaf sammála og vildi brenna við að þeir sem höfðu hæst, teldu sig hafa á réttu að standa. Siggi gætti þess að allir, jafnt stórir sem smáir, fengju að leggja til málanna. Hann bar jafna virðingu fyrir skoðunum allra, en beitti oft þungum mótrökum. Með því móti þjálfaði hann okkur krakkana í gagnrýninni hugsun og umræðu. Hann lét engin málefni samfélagsins sér óviðkomandi, enda er sinnuleysi um málefni líðandi stundar einn versti óvinur lýðræðisins. Hann kenndi okkur að brjóta hvert mál til mergjar af heiðarleika og skilja kjarnann frá hisminu. Þess hefur á öllum tímum verið þörf, en er nú hverjum og einum knýjandi nauðsyn, til að takast á við válega þróun í heiminum.

Siggi, ég kveð þig í djúpri og einlægri þökk.

Knútur Árnason.

Þegar ég man fyrst eftir mér sem strákur heima í Ystafelli varð mér starsýnt á hillu sem hékk uppi í stofunni með ótrúlegu safni bikara og skrautpeninga. Þetta var verðlaunasafn Sigurðar Þingeyings fyrir sundafrek sem hann hafði unnið sem ungur maður. Sjálfur var hann þá víðs fjarri, líklega við kennslu á Patreksfirði þar sem hann bjó um skeið ásamt Kollu og vaxandi barnahóp. Mér er sagt að ég hafi beðið Kolbrúnar þegar hún var einu sinni að passa mig, en þá var Siggi búinn að klófesta hana og ég orðinn of seinn, þótt ég hafi snemma áttað mig á kostum hennar. Kolla er Reykjavíkurmær og þeim ungu hjónunum voru margir vegir færir, en þau settust að í Felli og héldu uppi þeirri hefð og reisn sem löngum hafði einkennt staðinn.

Það var mín gæfa og margra annarra að eiga þar alltaf innhlaup, og þar var mikið um að vera og margt spjallað og brallað. Á síðsumarkvöldum var dregið fyrir í Fljótinu, og þá var tækjabúnaðurinn eitt net, langt og mikið. Siggi brá tauginni yfir um herðar og bringu og óð út í strauminn meðan vætt var en synti þegar því sleppti með netið yfir álinn og aftur til lands. Og þegar dregið var komu margir fiskar sem strákarnir fengu að góma ef þeir réðu við þá. Aðrir voru stærri.

Margs fleira er að minnast, þegar Sigurður í Ystafelli er allur. Hann fékk hægt andlát að nóttu til, sofnaði rólegur að kvöldi við hlið Kollu, heima í húsinu sem afi og amma byggðu og sem áður iðaði af lífi, þar sem afi tók á móti okkur í bæjardyrunum og kyssti með skeggbroddum og munni fullum af skroi. Þarna tóku Siggi og Kolla við búi og ráku ásamt Geira um langa hríð. Nú verður þar minna umleikis en var, en minningarnar lifa. Hafi þau hjónin ævarandi þökk fyrir allt, frá mér og mínum og Kolla bestu kveðjur frá okkur Örnu og Nönnu.

Kristján Árnason.

Nú þegar við kveðjum Sigga frænda er margs að minnast. Hugurinn leitar norður til Ystafells, þess staðar sem í æsku minni var sá stærsti og merkilegasti af öllum. Þar bjuggu afi og amma og þangað fórum við systkinin með foreldrum okkar á hverju sumri. Þegar hugsað er til baka allt frá fyrstu norðurferð sem ég man eftir og til þeirrar sem ég fór síðasta sumar, hefur þessum ferðum fylgt mikil tilhlökkun. Það var ekki aðeins tilhlökkunin að sjá jörðina, skóginn eða Fljótið, heldur fyrst og fremst fólkið. Lengst af ævi minni voru það Siggi og Kolla sem tóku á móti mér þegar ég kom norður. Þau eru fólkið sem hefur aukið á og viðhaldið þeirri tilhlökkun sem því fylgdi að koma í Ystafell.

Sem ungur drengur horfði ég með lotningu á verðlaunagripina sem Siggi hafði hlotið fyrir sundafrek sín, hvernig gat ungur drengur annað en borið virðingu fyrir slíkum kappa sem hann var. Árin liðu, ferðum norður fjölgaði og í hverri heimsókn kynntist ég Sigga betur. Þó að Siggi talaði minnst um sjálfan sig fannst mér ég þekkja hann vel, kannski vegna þess að manni leið vel í návist hans, hann var bæði yfirvegaður og rólegur og hann hafði þessa miklu bjarnarhlýju sem aðeins sumum er gefin. Það var fátt skemmtilegra en ræða þjóðmál við Sigga, hann var hugsjónamaður, sem hafði gaman af því að rökræða málin. Siggi var ekki aðeins vel upplýstur um málefni líðandi stundar hann var líka fróður um söguna og unni málinu, þannig var það bæði lærdómsríkt og gaman að ræða við hann.

Margar af mínum ferðum norður voru veiðiferðir og þá var gott að fá að gista hjá Sigga og Kollu. Nokkrum föstum liðum í þeim veiðiferðum mun ég aldrei gleyma, því þó að aðrir hafi kennt mér að veiða þá var það samt svo að líklega hefur enginn sýnt veiðiskap mínum meiri áhuga en Siggi. Það var fátt skemmtilegra en koma heim í Ystafell að lokinni veiðiferð og þurfa að gera grein fyrir veiðinni. Alltaf var vakað eftir mér og mín beið bæði matarveisla og andleg fæða sem ég mun aldrei gleyma. Við Védís sendum Kollu og hennar fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón Erlingur Jónasson.

Það verður aldrei eins að koma norður í Yztafell eftir að Siggi frændi er fallinn frá. Við systkinin höfum komið þangað næstum því á hverju ári frá því við munum eftir okkur og því fylgdi ævinlega mikil tilhlökkun.

Þegar við hugsum til baka koma margar góðar minningar upp í hugann.

Kennarinn og íslenskumaðurinn Siggi sem leiðrétti þegar okkur varð fótaskortur á tungunni. Bóndinn Siggi í fjósinu hér á árum áður sem vann sín verk í rólegheitum, oft með barnaskara í kringum sig. Stundirnar í stóra eldhúsinu þar sem Siggi sat á sínum stað og mikið var rætt um landsins gagn og nauðsynjar jafnt við börnin sem þá fullorðnu. Svo reykti hann Siggi besta hangikjöt á Íslandi og í okkar fjölskyldu voru engin jól án þess. Nú þegar hann er farinn viljum við systur með þessum fáu orðum þakka fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum í Ystafelli hjá Sigga og Kollu. Við sendum Kollu, Nonna, Regínu, Helgu, Erlu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigrún, Helga og

Úlfhildur Jónasdætur og fjölskyldur.

Þegar ég frétti andlát Sigurðar Jónssonar í Ystafelli kom það mér ekki á óvart. Vitað var að hverju stefndi. Samt hnykkir manni við. Síðasti fundur okkar var heima í Ystafelli fyrir síðustu jól. Nokkru áður í góðri ferð austur í Fellsskóg sem gott er að eiga í minningunni. Rætt var um mannlífið og tilveruna, hvað betur mætti fara og framfarir hverskonar. Samvinnuhreyfinguna og skógrækt. Tíminn setur sitt mark á menn og málefni, einnig í minni gömlu heimasveit og í Ystafelli hafa nú orðið þáttaskil.

Breytingarnar eru ótrúlegar þegar litið er til baka þau tæplega 50 ár sem mitt minni nær. Fyrstu minningar mínar um skóla og Sigurð Jónsson eru tvinnaðar saman í órofa heild. Hann var skólinn. Síðar einnig hans ágæta kona Kolbrún Bjarnadóttir. Siggi og Kolla. Á þessum árum, um 1960, var ekki sérstakt skólahús í Ljósavatnshreppi. Þar var farskóli, þ.e. kennt var nokkrar vikur í senn á heimilum þar sem húsrými var fyrir hendi, t.d. í Fremstafelli, á Landamóti og Hóli.

Fyrst fékk ég að fara í skólann sem gestur með Kristjáni bróður mínum ári áður en hin eiginlega skólaganga hófst. Það var mikið gaman. Ekki var gamanið minna þegar skólinn hófst fyrir alvöru. Nemendur gengu heiman frá sér að þjóðvegi og biðu þar eftir skólabílnum. Brúsapallurinn var þar mörgum skjól ef biðin lengdist vegna ófærðar og þeir voru margrar gerðar og menningarfyrirbæri út af fyrir sig. Skólabíllinn var nýr Rússajeppi, hið ágætasta farartæki og duglegur í snjó. Bílstjórinn var jafnframt skólastjórinn og kennarinn, Sigurður Jónsson.

Stundum var snjólétt og fljótfarið og börnin söfnuðust eitt af öðru upp í Rússann, sem virtist stækka eftir þörfum og fjölda nemenda. Því betur voru menn ekki smámunasamir á þessum tíma og Sigurður hreppstjóri Geirfinnsson á Landamóti hafði óvenju næman og skynsamlegan skilning á lagatúlkun og reglugerðum. Það gat verið til bóta þegar hann sá ótrúlegan farþegafjölda tínast út úr skólabílnum.

Í annan tíma var snjóþungt og svo var oft í Kaldakinn. Þá þurfti að moka og ýta en Sigurður Þingeyingur var mikið hreystimenni og sparaði sig hvergi. Þá reyndi mikið á bíl og skóflu en skaflarnir urðu undan að láta hver á fætur öðrum. Krakkarnir þutu inn og út úr bílnum eins og flugnasveimur eftir því hvernig stóð á spori. Þvílíkt ævintýri og dásamlegar minningar.

Síðan hófst kennslan. Heimilislegt andrúmsloft og hæfilegur agi við að hjálpa nemendum til að taka framförum, en þeir voru á ýmsum aldri og misjafnlega á vegi staddir. Um kennslufræðina má segja að hún hafi miðað að því að koma öllum til nokkurs þroska og laða fram hæfileika hvers og eins. Þetta voru góðar kennslustundir og skemmtilegar.

Stundum áttu einstakir nemendur dálítið erfitt með að sitja kyrrir og hljóðir við sín viðfangsefni. Oftast nægði að sussa aðeins á þá sem í hlut áttu. Þó kom fyrir að hóta þyrfti þyngstu refsingu sem var að fá ekki að mæta í skólann daginn eftir. Með slíkt yfir höfði sér sátu jafnvel rauðhærðir ærslabelgir á strák sínum.

Seinna, þegar ég hef fylgst með eigin börnum og annarra, hefur mér stundum orðið hugsað til þessarar refsingar. Mér finnst það segja meira en mörg orð um skólastarfið að ódælum nemanda þætti sú refsing þyngst að fá ekki að mæta í skólann. En svona var gaman í mínum barnaskóla og fyrir það er ég ævinlega þakklátur mínum kennurum, Sigga og Kollu.

Þau reyndust mér einnig frábærlega vel þegar við Jón, elsti sonur þeirra (Nonni Sig), lásum heima til prófs upp úr neðri deild (1. bekk) Laugaskóla. Hún var mín stoð og stytta í tungumálum og hann í raungreinum. Betra gat það ekki verið.

Nú er löngum vinnudegi lokið og maklegt að þreyttir fái hvíld. Enginn veit hvað við tekur en mér finnst alltaf hlýlegt að hugsa til kveðjuorða Jónasar Hallgrímssonar til vinar síns Tómasar Sæmundssonar:

Flýt þér, vinur, í fegra heim;

krjúptu að fótum friðarboðans

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa guðs um geim.

Að leiðarlokum vil ég þakka gott nágrenni um margra ára skeið og vináttu sem hefur verið mér mikils virði. Nú hefur gamli íþróttagarpurinn og lærifaðirinn Sigurður Þingeyingur fengið hvíld eftir mikið og merkilegt dagsverk. Kollu, börnum þeirra og afkomendum og aðstandendum öllum votta ég samúð mína þegar ég kveð góðan dreng. Blessuð sé minning hans.

Valtýr Sigurbjarnarson.

Við lát Sigurðar frænda míns í Felli, hvarflar hugurinn til baka heim í Kinn.

Ég var 12 ára þegar þau hjónin, Sigurður og Kolbrún, fluttu í sveitina og gerðust kennarar okkar barnanna. Með þeim komu nýir straumar og áherslur. Kolbrún kenndi okkur t.d. að teikna og fara með liti og Sigurður lét okkur syngja - kenndi okkur meira að segja að syngja í röddum. Hvort tveggja var kærkomin nýjung í skólastarfinu. Minnist ég skóladaganna á Hóli með mikilli gleði. Þótt skólaárið væri stutt, þar sem þau hjónin urðu að skipta því í tvennt á milli sveitarenda, tel ég að þeim hafi auðnast að koma okkur börnunum til engu minni þroska en mörgum skólanum tekst nú til dags á margfalt lengri tíma. Kom þar margt til, en þó fyrst og fremst það, að þau urðu strax vinir okkar og samstarfsmenn. Hef ég oft hugsað um það síðan hvað Sigurður átti auðvelt með að höfða til okkar barnanna. Hvað hann virtist eiga hægt með að setja sig í spor okkar og hve laus hann var við að gera til okkar óbilgjarnar kröfur. Ekki minnist ég þess heldur að hann léti skapsmuni sína nokkru sinni bitna á okkur. Þó var hann mikill skapmaður og gat verið stór í stykkjumum ef því var að skipta.

Seinna urðum við samstarfsmenn. Það varð þegar ég í ofdirfsku minni kom beint úr skóla heim í sveitina mína til að gerast þar sálnahirðir.

Þá eins og endranær var gott að eiga þau Fellshjón að. Áttum við margt saman þau átta ár sem ég þjónaði prestakallinu - ræktuðum saman rófur hvað þá annað. En mest og nánast varð samstarf okkar Sigurðar þó í þjónustu við Staðarkirkju. Þar hafði hann verið organisti um tíma þegar ég kom til skjalanna. Allt hafði verið þar með hefðbundnum hætti um langan aldur þegar ég, nýgræðingurinn, kom með breyttan messusöng undir hendinni og heimtaði að hann yrði sunginn. Því tók Sigurður með miklu jafnaðargeði og lét sem honum líkaði vel. Er ekki að orðlengja það að samstarf okkar vað allt hið besta.

Sigurður var músíkalskur og fljótur að lesa nótur. Hann var prýðilegur söngmaður og hafði yndi af því að æfa kórsönginn, á því sviði náði hann ágætum árangri. Var alltaf gott að þjóna með hann sér við hlið á Þóroddsstað, þótt einstaka sinnum yrði okkur smávægilega á í messunni. Mér er bæði ljúft og skylt að færa honum þakkir fyrir langt og óeigingjarnt starf í þágu kirkju og kristni. Á þeim akri var hann eins og víðar drjúgur verkmaður.

Með fráfalli Sigurðar í Felli er mikið og vandfyllt skarð fyrir skildi í Kinn.

Ég og fjölskylda mín kveðjum hann með þakklátum huga og biðjum honum fararheilla á Guðs vegum. Blessuð sé minning hans.

Jón A. Baldvinsson.