Mismunandi útlit Ingólfsstrætis 1 hefur mikil áhrif á götumyndina.
Mismunandi útlit Ingólfsstrætis 1 hefur mikil áhrif á götumyndina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Senn hefjast framkvæmdir við stækkun húss Fiskifélags Íslands í Ingólfsstræti 1 á stjórnarráðsreitnum. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Hlédísi Sveinsdóttur arkitekt um þessar framkvæmdir sem hún hefur hannað ásamt Gunnari Bergmann Stefánssyni.

Nú fer að líða að því að ráðgerðar framkvæmdir hefjist við hið gamla hús Fiskifélags Íslands við Ingólfsstræti 1. Þetta er sögufrægt hús, byggt árið 1933 og er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, fyrrum húsameistara ríkisins. Það stendur sem kunnugt er við sjóinn og er staðsetningin mikilvæg þar sem húsið er og verður órjúfanlegur hluti af borgarmyndinni frá sjó séð.

Það er EON arkitektar, Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Bergmann Stefánsson sem eru hönnuðir verkefnisins, sem er í raun stækkun hússins úr 1200 fermetrum upp í rétt rúmlega 3000 fermetra.

"Stækkunin felst í byggingu fjögurra hæða ofan á aðalhúsið sem er nú þrjár hæðir og auk þess verður turn á horni hússins reistur upp, þetta eru veglegar framkvæmdir sem á döfinni eru og ekkert verður til sparað að þær takist sem best," sagði Hlédís þegar hún var spurð nánar út í þessar framkvæmdir sem til standa.

"Þegar hús þetta var reist á sínum tíma stóð það eitt og sér og var mjög glæsilegt. Nú, 70 árum síðar, er það umkringt stórum húsum og það er löngu tímabært að reisa það upp í þann virðuleika sem það áður hafði. Við rannsókn á burðarvirki hússins kom í ljós að Guðjón hafði gert ráð fyrir að það yrði byggt ofan á það í framtíðinni. Byggt var við hús þetta 1971 eftir teikningum Guðmundar Kr. Guðmundssonar og Ólafs Sigurðssonar. Þá var húsið tengt með viðbyggingu við húsið Skúlagötu 4.

Einstaklega góð samvinna hefur verið við borgaryfirvöld

Eigandi hússins Ingólfsstræti 1 hefur um langan aldur verið Fiskifélag Íslands. Pétur Bjarnason, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Fiskifélagsins, hefur skoðað möguleika á stækkun byggingar þessarar í nokkurn tíma. Einstaklega góð samvinna hefur verið við borgaryfirvöld í Reykjavík og aðra sem að verkinu hafa komið, enda góð samvinna nauðsynleg þegar byggja á á viðkvæmum svæðum í miðborginni svo ekki sé talað um sjálfan stjórnarráðsreitinn," sagði Hlédís enn fremur.

En skyldi ekki vera erfitt að taka til við að stækka hús af þessu tagi sem sjálfur Guðjón Samúelsson teiknaði?

"Aðalútgangspunktur við hönnun þessa verks er að styrkja bygginguna í eiginlegri mynd innan þess hönnunarramma sem Guðjón Samúelsson ákvarðaði á sínum tíma. Þannig er byggingin reist upp í núverandi götumynd en leitast við að virða heildarmynd hennar. Turninn á horninu sem gefur byggingunni mikinn svip fær aukið vægi með glerjuðu fundarherbergi á efstu hæðinni.

Hlutföll byggingarinnar breytast og til að styrkja stöðugleika hennar er myndaður grágrýtissökkull upp að annarri hæð. Auk þess að létta yfirbragð byggingarinnar er þannig mynduð sjónræn tenging við nærliggjandi byggingar. Þó arkitektúr byggingarinnar sé haldið áfram innan þess hönnunarramma sem mótaður var í upphafi eru í hönnuninni vísbendingar þess að hér er um að ræða seinni tíma viðbót. Þannig er turninn aftengdur byggingarmössum við Skúlagötu og Ingólfsstræti með löngum gluggum sem ganga samfellt upp allar hæðirnar, einnig er efsta hæðin hönnuð með léttu "fljótandi" gleri sem aftur myndar mótvægi við þungan massa byggingarinnar. Leitast er við að láta útsýnið njóta sín að fullu með stórum gluggum. Efsta hæðin er inndregin og þar myndast svalir til suðurs og norðurs. Bætt er við veglegu anddyri og móttöku á fyrstu hæð. Þreföld lofthæð, 9 metrar, er þar og útveggur upprunalegrar byggingar heldur sér þannig frá annarri og þriðju hæð ef horft er niður í anddyri út um núverandi glugga suðurhliðar. Leitast er við að spila saman gleri og steinhúðaðri steinsteypu til að binda saman gamla og nýja tímann í heildstæðri hönnun. Innanhúss er ætlunin að halda áfram með sömu útgangspunkta, þ.e. að styrkja upprunalega hugsun og heildarmynd hússins en gefa vísbendingar um nútímalega hönnun og tæknilega þróaðar útfærslur í nýjum byggingahlutum."

Hver má ætla að verði framtíðarnýting á þessu húsi?

"Við skipulag og hönnun er staðsetning byggingarinnar ráðandi þáttur. Tekið var mið af framtíðarnýtingu byggingarinnar með annarri uppbyggingu á stjórnarráðsreitnum.

Í skipulagi hússins er gert ráð fyrir að á 1. til 6. hæð verði glæsilegt skrifstofuhúsnæði. Ný aðkoma/inngangur er í nýrri viðbyggingu. Efsta hæðin er með stórum og glæsilegum fundarsölum fyrir minni og stærri fundi og ráðstefnur. Óhætt er að segja að útsýnið úr fundarsalnum í turninum verði einstakt með fjallasýn upp að Snæfellsjökli og útsýni yfir alla borgina. Hugsanlegt er að tengja tvær efstu hæðirnar við Skúlagötu 4 þar sem sjávarútvegsráðuneytið er nú til húsa."

Gott dæmi um íslenska "steypuklassík"

Hefur verið tekið mið af byggingarlega sögu hússins við nýja hönnun þess?

"Ingólfsstræti 1 er dæmi um "steinsteypuklassík". Þetta tímabil einkennist af þróun, úrvinnslu, reynslu og aðlögun alþjóðlegra sjónarmiða í byggingarlist að íslenskum aðstæðum. Fremstur í flokki húsameistara sem mótuðu þessa stefnu var Guðjón Samúelsson en hann sótti áhrif til arkitektsins Eliels Saarinens. Hópur íslenskra húsasmíðameistara stofnaði með sér samtök 1926 sem var kallað Byggingarmeistarafélag Íslands, þetta var fyrsta fagfélag sinnar tegundar á Íslandi og forveri Arkitektafélags Íslands.

Á sama tíma og hús þetta við Ingólfsstræti reis var Guðjón að vinna að Þjóðleikhúsinu, sem reis á tímabilinu 1928 til 1951 og nokkru síðar hóf hann að vinna að Háskóla Íslands 1935, sem var síðasta stórvirki Guðjóns.

Í þessum byggingum og fleiri frá þessum tíma gætir sterklega áhrifa "steypuklassíkur". Í þessum flokki húsa má m.a. sjá mismunandi formaðar stallbrúnir sem ramma inn fleti. Veggir eru deildskiptir og gluggar settir í háar einfaldar einingar undir stallbrúnum. Öll þessi stílbrögð eru einkennandi fyrir Ingólfsstræti 1. En það sem hús þetta þykir þó sérstakast fyrir er að þetta er annað af tveimur húsum þar sem notuð er kvarz- og hrafntinnuáferð á ytri veggi. Hitt húsið er Þjóðleikhúsið sem kunnugt er."

Var erfitt að fá leyfi til þessara breytinga á Ingólfsstræti 1?

"Við höfum haft náið samstarf við borgaryfirvöld og hefur verkefnið þróast að nokkru leyti í þessu samstarfi. Þetta hefur verið einkar ánægjulegt ferli og áreynslulaust og flestir eru að ég hygg ánægðir með útkomuna sem fljótlega mun sjá dagsins ljós."