MIKIL umræða hefur orðið um framtíð þeirra alþjóðastofnana sem glímt hafa við Íraksdeiluna. Stór orð hafa verið látin falla um framtíðarhorfur Sameinuðu þjóðanna (SÞ), Atlantshafsbandalagsins (NATO) og Evrópusambandsins (ESB).

MIKIL umræða hefur orðið um framtíð þeirra alþjóðastofnana sem glímt hafa við Íraksdeiluna. Stór orð hafa verið látin falla um framtíðarhorfur Sameinuðu þjóðanna (SÞ), Atlantshafsbandalagsins (NATO) og Evrópusambandsins (ESB). Stofnanirnar eru taldar af mörgum hafa misst trúverðugleika sinn og eru sagðar rúnar trausti. Þær eru annaðhvort sakaðar um getuleysi til að koma Íraksstjórn frá völdum eða vanmátt til að koma í veg fyrir stríð. Það hefur mest mætt á SÞ í þessari deilu enda sú stofnun samkvæmt alþjóðalögum sem á að takast á við Íraksmálið. NATO og ESB hafa staðið til hliðar vanmáttug að grípa til nokkurra aðgerða með eða á móti stríði vegna ágreinings aðildarríkja þeirra. Það er því ekki nema von að spurt sé hvort þessar stofnanir hafi beðið varanlegt tjón af völdum Íraksdeilunnar.

Deilurnar innan NATO eru alvarlegar og verulegt áfall fyrir bandalagið. Ríkisstjórnir Frakklands og Þýskalands hafa sjaldan eða aldrei áður beitt sér með svo afgerandi hætti gegn utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Frakkar og Þjóðverjar hafa oft verið andsnúnir aðgerðum Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi en ríkin hafa verið sammála um að vera ósammála og þegjandi samkomulag hefur verið um að þau bregði ekki fæti fyrir hvert annað. Frakkar með stuðningi Þjóðverja hafa hins vegar í Íraksdeilunni leitt andstöðu ríkja heimsins gegn innrás í Írak og reyndu til dæmis að halda vopnaeftirlitsmönnum SÞ eins lengi í Bagdad og nokkur kostur var til þess að draga úr líkum þess að Bandaríkin og Bretar hæfu stríð.

NATO er sem aldrei áður klofið á grundvelli þess hvaða ríki fylgja Bandaríkjunum að málum og hvaða ríki vilja að Evrópa marki sér sérstöðu innan þess. Órofin samstaða ríkisstjórna Breta og Bandaríkjamanna vekur athygli en kemur ekki á óvart. Bretar hafa alltaf stillt sér upp sem helstu bandamenn Bandaríkjanna innan NATO og hafa nú fengið ríkisstjórnir stóru ríkjanna Spánar og Ítalíu til liðs við sig. Ekkert ríki NATO leggur hins vegar stríðsrekstrinum lið með beinum hætti nema Bretland sem hlýtur að vera Bandaríkjunum áfall.

Það er einnig álitshnekkir fyrir NATO að hafa ekki getað haft taumhald á ríkisstjórn Tyrklands sem hefur sent her inn í norðurhluta Íraks þrátt fyrir ítrekaðar óskir Bandaríkjamanna og Breta að Tyrkir haldi að sér höndum. Tyrkland, aðildarríki NATO, blandar sér þannig með beinum hætti inn í hernaðarátökin þvert á vilja allra aðildarríkja bandalagsins.

Það eru blikur á lofti með stækkun NATO til Austur-Evrópu. Eystrasaltsríkin, Slóvakía, Rúmenía og Búlgaría hafa gefið til kynna með óbeinum stuðningi við stefnu Bandaríkjanna að þau eru líklegri til að fylgja þeim að málum innan NATO heldur en Þjóðverjum og Frökkum. Staða Bandaríkjanna innan NATO sem og þeirra ríkja sem hafa viljað styrkja Atlantshafstengslin eins og Íslands, Danmerkur, Hollands og Bretlands gæti því styrkst nokkuð með stækkuninni. Hvort þetta þýðir að stefna Bandaríkjanna verði í auknum mæli ofan á innan NATO er hins vegar ómögulegt að spá um. Stækkunin til austurs gæti hins vegar leitt til djúpstæðari ágreinings innan NATO þó að allt of snemmt sé að slá því föstu.

Það ber hins vegar að hafa í huga að þau ríki Evrópu sem aðild eiga að NATO hafa alla tíð deilt um hversu náið samstarf eigi að hafa við Bandaríkin. Frakkar hafa leitt ríkjahópinn sem telur að ríki Evrópu eigi að marka sér sérstöðu innan bandalagsins þannig að ekkert nýtt er undir sólinni hvað það varðar. Það er helst að Þjóðverjar hafi stillt sér upp við hliðina á Frökkum með meira afgerandi hætti en áður. Það er hins vegar margt sem bendir til þess að hér sé um tímabundna afstöðu að ræða þar sem ríkisstjórnarskipti í Þýskalandi myndu gjörbreyta stöðunni.

Það er ekki nýmæli að tekist sé á um öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins. Sambandinu hefur ekki tekist að koma á sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu og líklega er langt í land að það takist. Bretar hafa alla tíð haft sérstöðu innan sambandsins hvað utanríkismál varðar og hafa ásamt nokkrum stuðningsríkjum oft haft aðra stefnu en meginþorri ríkja sambandsins. Öryggis- og varnarmálastefna ESB hefur einkum gegnt því hlutverki að koma í veg fyrir að ríki sambandsins vinni með beinum hætti gegn hvert öðru á alþjóðavettvangi. Reglulegir fundir forsætis- og utanríkisráðherra sambandsins á tímum átakanna á Balkanskaga eru til dæmis taldir hafa komið í veg fyrir að ríkin blönduðu sér einhliða í átökin.

Öryggis- og varnarmálastefnan hefur verið byggð á skipulögðu upplýsingaflæði milli aðildarríkjanna, samráði og samhæfingu þegar svo ber undir. Ríki ESB hafa hvert um sig haft sjálfstæða utanríkisstefnu og munu halda því áfram. Íraksdeilan er í raun bara eitt dæmi af mörgum um misheppnaða tilraun aðildarríkja ESB til samræmdra aðgerða. Deilan hefur í raun ekkert spágildi um framtíð Evrópusambandsins og samstarf aðildarríkja þess.

Umfjöllun um stöðu Sameinuðu þjóðanna verður ekki skilin frá umræðu um stöðu Bandaríkjanna í heiminum. Eitt af því sem stendur upp úr eftir Íraksdeiluna er misheppnaðar tilraunir Bandaríkjastjórnar til að fá aðrar ríkisstjórnir til liðs við sig. Einungis innan við 50 ríki geta talist til bandamanna Bandaríkjanna í stríðinu við Írak sem þýðir að hátt í 150 ríki létu ekki undan þrýstingi Bandaríkjastjórnar. Ríkisstjórn Bush gerði allt sem hún gat til að frá ríki öryggisráðs SÞ til stuðnings við stríðsrekstur en þrátt fyrir loforð um mikla efnahagsaðstoð og ýmiskonar fyrirgreiðslu létu ríkin ekki undan þrýstingi. Smá og efnahagslega illa stæð ríki höfnuðu samvinnu við Bandaríkjastjórn og kröfðust þess að Íraksdeilan yrði leist á vettvangi SÞ.

Eina stórveldi heimsins getur farið sínu fram hernaðarlega en það hefur þurft að gera það án stuðnings alþjóðasamfélagsins. Það er ekki öfundsverð staða. Ríkisstjórn Bush á mikið verk framundan. Hún þarf að koma á betra og nánara sambandi við meginþorra ríkja heimsins. Hún þarf á öllu sínu að halda til að sannfæra önnur ríki um að grípa megi til einhliða aðgerða án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Flestallar ríkisstjórnir eru á þeirri skoðun að leysa eigi alvarleg ágreiningsmál ríkja á vettvangi SÞ og að ekki eigi að grípa til hernaðaraðgera án samþykkis öryggisráðsins. Það má því túlka nýliðna atburði á vettvangi SÞ í þá veru að þeir hafi skýrt hvert ríki heimsins vilja stefna á alþjóðavettvangi. Ríki heimsins hafa valið Sameinuðu þjóðirnar og þar með hafnað einhliða aðgerðum Bandaríkjanna. Deilur næstu árin munu snúast um það í hve miklum mæli Bandaríkin, í krafti þess að vera eina stórveldi heimsins, geti farið sínu fram án þess að vinna eftir þeim leikreglum alþjóðakerfisins sem meginþorri ríkja hefur kosið að fylgja.

Það er vissulega rétt að sundrung meðal aðildarríkja þessara þriggja alþjóðastofnana hefur veikt þær. Það er hins vegar ekki hægt að draga þá ályktun að stofnanirnar hafi veikst til langframa. Það getur tíminn einn leitt í ljós og skiptir líklega mestu hvernig takast muni að byggja upp traust milli aðildarríkja stofnananna að lokinni Íraksdeilunni.

BALDUR ÞÓRHALLSSON