Forystumenn Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde og Davíð Oddsson, ræða saman í fyrirspurnartímanum í gær.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde og Davíð Oddsson, ræða saman í fyrirspurnartímanum í gær.
DAVÍÐ Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega í fyrirspurnartíma ráðherra á landsfundi flokksins í gær, málflutning talsmanna Samfylkingarinnar um fjármál stjórnmálaflokka og birtingu upplýsinga um framlög til...
DAVÍÐ Oddsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega í fyrirspurnartíma ráðherra á landsfundi flokksins í gær, málflutning talsmanna Samfylkingarinnar um fjármál stjórnmálaflokka og birtingu upplýsinga um framlög til flokkanna.

"Við sjálfstæðismenn höfum ekkert að fela og erum tilbúnir til þess að standa að tillögu sem bannar fyrirtækjum að styðja stjórnmálaflokka ef aðrir eru tilbúnir til þess," sagði hann.

Davíð sagði að þremur dögum fyrir síðustu kosningar hefði birst viðtal við aðaltalsmann Samfylkingarinnar, sem hefði lýst því yfir að strax eftir kosningar yrðu birtar upplýsingar um fjárframlög til Samfylkingarinnar í þeim kosningum. Hið sama hefðu talsmenn R-listans gert en þetta hefðu bara verið orðin tóm og engar upplýsignar hafi enn verið birtar.

"Samt slá þessir aðilar sér á brjóst og þykjast heilagri en aðrir og kenna öðrum um að vilja ekki opna bókhald sitt sem sýni þann stuðning sem þeir hafa fengið," sagði Davíð.

Gagnrýndi Davíð einnig fréttamenn fyrir að hafa ekki spurt Samfylkingarfólk hvað sé að marka þessar yfirlýsingar og um ástæður þess að ekki hefur verið staðið við þær. Ljóst sé að hér sé um hreina sýndarmennsku að ræða hjá Samfylkingunni.

Davíð sagði einnig að þegar hann hafi komið fram með þá hugmynd að flokkarnir næðu samstöðu um að banna fyrirtækjum að styðja flokkana, þá hafi Samfylkingin allt í einu ekkert viljað með málið gera.

"Jónas Kristjánsson, hinn reyndi fjölmiðlamaður, sem ég er ekki alltaf sammála, skrifaði á heimasíðu sína fyrir mánuði, að það væri enn óupplýst hvernig hinn mikli kostnaður sem Samfylkingin eyddi í auglýsingar fyrir síðustu kosningar var greiddur. Þið munið að Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkurinn, var í þriðja sæti yfir auglýsingakostnað samkvæmt opinberum tölum sem voru birtar. Það hefur ekkert verið gefið upp hvernig þessar auglýsingar [Samfylkingarinnar] voru fjármagnaðar," sagði Davíð.

"Við sjálfstæðismenn höfum ekkert að fela og höfum lagt það til að ef aðrir vilja hafa þetta svona séum við tilbúnir til þess að standa að því að banna fyrirtækjum að styðja flokka. Af hverju vilja þeir það ekki? Það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur 30 þúsund meðlimi og þeir vita að Sjálfstæðisflokkurinn getur haldið sér gangandi án styrkja frá fyrirtækjum. Það geta hinir ekki en samt eru þeir alltaf að reyna að hafa fjármál okkar í flimtingum. Þeir ættu að skoða og opna sínar eigin bækur," sagði Davíð.