Skiptar skoðanir voru meðal Breta um  hvernig bregðast ætti við  þorskastríðunum. Töldu sumir að beita ætti fullri hörku.
Skiptar skoðanir voru meðal Breta um hvernig bregðast ætti við þorskastríðunum. Töldu sumir að beita ætti fullri hörku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorskastríðin eru merkur kafli í íslenskri sögu. Það virðist hafa orðið Íslandi til láns að Bretar neyttu aldrei aflsmunar síns af fullum krafti. Bresk skjöl um aðdraganda þorskastríðsins 1972-73 sýna að þeir voru til í Lundúnum sem töldu réttast að láta Íslendinga aldeilis finna til tevatnsins. Guðni Th. Jóhannesson rifjar upp söguna.
ÞORSKASTRÍÐIN við Breta eru með merkustu þáttum í utanríkissögu Íslendinga eftir seinni heimsstyrjöld. Sigur hafðist í baráttu um helstu auðlind Íslands, fiskinn í hafinu umhverfis landið. Samt var andstæðingurinn miklu sterkari. En hann neytti nær aldrei aflsmunarins af öllum kröftum. Þorskastríðin urðu aldrei alvöru stríð, og það var Íslands lán. Sú lukka var þó fallvölt. Leynd var nýlega létt af breskum skjölum um aðdraganda annars þorskastríðsins við Breta 1972-73 og þau sýna að þeir voru til í Lundúnum sem sögðu réttast að láta Íslendinga aldeilis finna til tevatnsins. Þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Þótt skipherrar og skipverjar Landhelgisgæslunnar hafi verið færir í flestan sjó hefðu þeir orðið að leita vars fyrir freigátum breska sjóhersins - nema þær hefðu fyrst verið búnar að fylgja þeim ráðum sem voru ígrunduð ytra; að skjóta á varðskipin, taka þau herskildi eða sökkva þeim.

Víti til varnaðar

Fyrsta þorskastríðið, 1958-61, varð aldrei svo harðvítugt. Íslendingar stækkuðu fiskveiðilögsöguna í 12 mílur en breski flotinn verndaði togara í "hólfum" innan línu og kom í veg fyrir að varðskip gætu fært þá til hafnar fyrir landhelgisbrot. Bretar unnu þó aðeins stundarsigur, í besta falli, og þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar færði fiskveiðilögsöguna í 50 mílur árið 1972 sáu margir þeirra mikla meinbugi á því að bregðast eins við. Í utanríkisráðuneytinu í Lundúnum sögðu embættismenn að hægt væri að draga þennan lærdóm af fyrsta þorskastríðinu:

"Skærur milli herskipa og varðskipa gera líklega að engu allar vonir um sættir.

Við getum tæplega vænst þess að fá önnur ríki eða samtök, Atlantshafsbandalagið þar með talið, til að hafa áhrif á Íslendinga. Sá þrýstingur í þessa veru, sem við getum vonast eftir, mun vega jafnþungt og sá þrýstingur sem við sjálfir verðum beittir.

Lausn næst ekki nema sterk ríkisstjórn sé við völd á Íslandi og hún sé reiðubúin að semja í einlægni.

Við verðum að vera við því búnir að bjóða umtalsverðar tilslakanir, án þess að fá nokkuð á móti, til þess að bæta andann í samningaviðræðum.

Samkomulag næst aðeins ef við gefum mikið eftir og því lengur sem við bíðum, því verri verður lausnin að lokum."

Hvað var þá til ráða? Ráðherrar í ríkisstjórn íhaldsmannsins Edwards Heaths vildu helst ekki fallast á þessar niðurstöður. "Við eigum þá bara að láta alveg undan og gefast upp fyrir Íslendingunum!" skrifaði einn stjórnarliða og í fiskimálaráðuneytinu var tekið dýpra í árinni. Togaramenn gætu ekki misst fengsæl fiskimið undan Íslandi í einni svipan. Niðurstaðan í Lundúnum var því sú að hvað sem liði fyrri reynslu yrði Bretland að bregðast við.

Leiftursókn frekar en herskipavernd

Herskipaverndin í fyrsta þorskastríðinu var kostnaðarsöm og kom niður á öðrum verkefnum breska flotans. Árið 1972 hafði heimsveldið gamla rifað seglin enn frekar og flotaforingjar staðhæfðu að þeir gætu ekki séð af fleirum en 1-2 freigátum til langvarandi gæslu á Íslandsmiðum. Slík vernd yrði aðeins til málamynda. Þar að auki væru nýrri skip Breta með þynnri byrðing en þau eldri og mættu síður við því hnjaski sem væri að vænta í eltingarleik við íslensk varðskip. Um vor og sumar þetta ár, þegar útfærslan í 50 mílur var í vændum, lögðu forsvarsmenn sjóhersins þess vegna til að í stað þess að reyna af veikum mætti að verja togara til langframa, skyldi stefnt að sigri í eitt skipti fyrir öll.

Greinargerð breska varnarmálaráðuneytisins um slíka stefnu er allsvakaleg lesning: "Komi til þess að sjóhersins sé þörf er snörp leiftursókn þar sem hann hefði frumkvæðið talin betri en ómarkviss herskipavernd í hólfum sem gæti dregist mjög á langinn. Ríkisstjórn Bretlands myndi þá taka af skarið og lýsa afdráttarlaust yfir að við myndum beita valdi til að mæta ólöglegum aðgerðum Íslendinga á úthafinu. Verði togarar okkar engu að síður teknir, myndi herskipafloti okkar ... stefna að því að hernema eða gera óvirk eins mörg varðskip Landhelgisgæslu Íslands og kostur er. Slík viðbrögð myndu koma togurum allra þjóða til góða og hefðu án efa sérlega sterk áhrif á íslensku ríkisstjórnina. Aftur á móti mætti vænta pólitískra vandræða innan Atlantshafsbandalagsins og Rússar gætu dregist inn í átökin nema einhvers konar samkomulag hefði fyrst tekist við þá. Annar kostur felst í því að taka með valdi íslenska togara eða koma í veg fyrir að íslensk varðskip geti látið úr höfn."

Íslendingar yrðu þá ekki teknir neinum vettlingatökum. Togararnir, sem Bretar réðust að, yrðu væntanlega færðir til Bretlandseyja og þær hugmyndir að hindra varðskip í að sigla frá landi þýða varla annað en að freigátur sætu fyrir þeim í fjarðarmynni eða hafnarkjafti, nema þá að átt sé við lagningu tundurdufla! Það má heita ótrúlegt að einhverjum hafi dottið í hug að ganga svo hart fram. Breskur blaðamaður, sem fylgdist með þorskastríðinu 1972-73 og aðdraganda þess, kveðst þó hafa heyrt þá um slíkar hugleiðingar.

Í sjávarútvegsráðuneytinu virtust sumir embættismenn einnig vera hrifnir af því að láta hart mæta hörðu, því ef varðskip yrðu fyrst "tekin úr leik yrði herskipavernd á eftir svo miklu léttari". Þar var líka nefnt að hægt væri að mæta skorti á freigátum með því að leigja togara og vopna þá. Þeim rökum að verndin í fyrsta þorskastríðinu hefði verið dýrkeypt yrði þannig ekki svarað með því að leggja upp laupana heldur taka fastar á móti.

Í skýrslu varnarmálaráðuneytisins var viðurkennt að mikil áhætta fylgdi svo eindregnum aðgerðum. Skip gætu sokkið, kæmi til skotbardaga. En kostirnir væru alltaf þeir að flotinn þyrfti ekki að vera bundinn á Íslandsmiðum um lengri tíma, togarar allra þjóða fengju að fiska í friði og íslenskum ráðamönnum myndi skiljast að Bretar ætluðu ekki að gefa eftir. Hér höfðu menn því í huga "byssubátapólitíkina" frá blómaskeiði breska heimsveldisins á nítjándu öld, Pax Britannica, þegar Bretar sendu herskip um víða veröld til að gæta hagsmuna sinna og andstæðingarnir urðu að láta undan ofureflinu.

"Lafhægt að semja"

En nú var öldin önnur. Í utanríkisráðuneytinu sögðu bæði embættismenn og lögfræðilegir ráðunautar að hugleiðingar um sjóhernað á hendur Íslendingum væru með öllu tilgangslausar. Einnig vó þungt að herskipavernd hafði sett aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu í uppnám í fyrsta þorskastríðinu. Harðari stefna yrði enn hættulegri og vinstri stjórnin í Reykjavík kvaðst jú hafa í huga að skipa Bandaríkjamönnum á brott úr herstöðinni við Keflavík. Ekki mætti hella olíu á þann eld. Þá væru nokkurs konar hefndaraðgerðir alltaf í blóra við alþjóðalög og almenningsálitið í heiminum myndi fordæma yfirgang Breta.

Þar að auki lifðu vonir um samninga og málskot til Alþjóðadómstólsins í Haag. Fyrsta þorskastríðinu hafði lokið árið 1961 með samkomulagi við Breta þar sem viðreisnarstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks féllst á að kæmi til frekari deilna vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar mætti skjóta henni til dómstólsins. Bretar töldu enn að Íslendingar myndu, eins og einn embættismanna þeirra sagði síðar, "standa við orð sín eins og heiðursmönnum sæmir". Allt frá því að vinstri stjórnin komst til valda árið 1971 höfðu sendinefndir þjóðanna jafnframt hist og reynt að komast að málamiðlun um veiðar breskra togara innan 50 mílna. Í júlí 1972 var lokalotan haldin og Bretarnir virtust reiðubúnir að koma mjög til móts við nær alla skilmála Íslendinga. En það dugði ekki til, jafnvel þótt Einar Ágústsson, hinn sáttfúsi utanríkisráðherra Framsóknarflokksins, teldi unnt að ná viðunandi samningum. Vandinn var sá að Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra stóð í veginum. Það sögðu íslenskir embættismenn að minnsta kosti, sárgramir yfir þrjóskunni í þessum staðfasta forystumanni Alþýðubandalagsins sem vildi nær hvergi hvika frá ýtrustu kröfum. John McKenzie, sendiherra Breta í Reykjavík, sagði svo frá í skeyti til utanríkisráðuneytisins í Lundúnum:

"[Hans G.] Andersen hefur tjáð mér að á stormasömum ríkisstjórnarfundi eftir að slitnaði upp úr viðræðunum hafi minnstu munað að [Einar] Ágústsson segði af sér vegna þess að [Lúðvík] Jósepsson neitaði að halda samningum áfram á grundvelli þeirra tillagna sem Lafði Tweedsmuir [aðalsamningamaður Breta] hafði lagt fram. Andersen fullyrðir að það hefði þó verið í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar á fundi fyrr um daginn. Hann telur þetta staðfesta að Jósepsson vilji ekki lausn, en hann heldur að samráðherrar hans geti enn neytt hann til þess að gefa eftir.

Í raun réð óbilgirni Alþýðubandalagsins og ótti annarra stjórnmálaflokka við að sýnast linari gagnvart Bretum miklu um að upp úr viðræðunum slitnaði. Íslensk stjórnvöld sniðgengu sömuleiðis þann bráðabirgðaúrskurð Alþjóðadómstólsins að bíða lokaniðurstöðu og leyfa veiðar þeirra (og Vestur-Þjóðverja) upp að ákveðnu marki. Íslendingar myndu sækja rétt sinn á miðunum sjálfum, ekki við samningaborð eða fyrir dómstólum. Þetta þótti mun hraustlegri stefna í huga fólks en úrtöluraddir um málamiðlanir, þolinmæði og skuldbindingar frá 1961. Það er önnur saga en þessi hér hvort það hafi verið skynsamlegt sjónarmið.

"Árásir á úthafinu"

Á miðnætti 1. september 1972 var íslensk fiskveiðilögsaga færð út í 50 mílur. Bretar sendu ekki herskip á vettvang, heldur voru vopnlaus eftirlits- og hjálparskip togaraflotanum innanhandar. Utan línu sveimaði ein freigáta með fyrirmæli um að láta lítið fyrir sér fara. Fljótlega skarst þó í odda. Breskir togarar létu skipanir varðskipa um að hætta veiðum í landhelgi sem vind um eyru þjóta og máluðu jafnvel yfir nafn og númer svo ekki væri hægt að skrá þá og sekta síðar meir. En þá létu varðskipsmenn krók koma á móti bragði. Á fimmta degi átakanna skar Ægir, undir stjórn Guðmundar Kjærnested, á annan togvír eins togarans. Þessu höfðu Bretar ekki búist við. Allar þeirra áætlanir höfðu gert ráð fyrir að varðskipin myndu setja togara á "svartan lista" og reyna að ráðast til uppgöngu í þá. Togvíraklippurnar reyndust frábært leynivopn. Þær voru nógu skeinuhættar til að valda usla en ekki jafn ögrandi og áhættusamar og hertaka togara.

Bretar reiddust þó við, eins og gefur að skilja, og sendiherra þeirra í Reykjavík mótmælti þessum "árásum" á úthafinu sem stefndu lífi og limum manna í stórhættu. Þótt það væru ýkjur gátu klippingar vissulega verið varasamar, í það minnsta að sögn þeirra sem urðu vitni að þeim í togurunum. Sjómennirnir urðu æfir og þingmenn þeirra ókyrrðust. Gæti floti hennar hátignar ekki skakkað leikinn?

Illra kosta völ

Aftur þurfti að íhuga herskipavernd. Nú töldu embættismenn varnarmálaráðuneytisins að fjórir kostir kæmu til greina. Í fyrsta lagi væri hægt að senda 1-2 freigátur á Íslandsmið til að fylgjast með atburðarásinni og senda skýrslur um framferði varðskipanna. Í þessu væri þó lítil vernd og bæði togarajöxlum og almenningi heima fyrir þætti lágt lagst fyrir sjóherinn að standa í slíkri tilkynningaskyldu en gera ekkert til varnar breskum þegnum á hinu opna hafi.

Í öðru lagi gætu 1-2 freigátur reynt að fylgja herskáustu varðskipunum og hindra að þau kæmust í tæri við togarana. Aftur mætti segja að slíkar aðgerðir stoðuðu lítt til lengdar. Í þriðja lagi væri hægt að veita vernd í hólfum eins og í fyrsta þorskastríðinu. Þá yrðu sex skip bundin við Íslandsgæslu hverju sinni og það þyldi sjóherinn alls ekki, að sögn varnarmálaráðuneytisins. Engin freigáta yrði í Miðjarðarhafi eða við Eyjaálfu þótt Bretar hefðu skuldbundið sig til þess, einungis ein freigáta gæti verið öðru hvoru í Karíbahafi þar sem næg voru verkefnin og leggja yrði af Beira-vaktina svokölluðu, en bresk herskip sigldu undan ströndum Mósambík og reyndu að koma í veg fyrir að olía og vopn bærust til liðsmanna Ians Smiths sem höfðu lýst yfir sjálfstæði nýlendunnar Ródesíu (nú Zimbabwe) innar í Afríku þvert á vilja stjórnvalda í Lundúnum.

Var þá svona komið fyrir sjóhernum? Að ein lítil fiskveiðideila, næstum því á heimaslóð, væri honum um megn? Yfirmenn flotans sögðu að hugsanlega væri hægt að nota fjórar freigátur á Íslandsmiðum en eftir stæði að hann gæti tæpast uppfyllt skyldur sínar annars staðar, afli togaranna myndi engu að síður snarminnka, hættan á afdrifaríkum skærum við varðskipin yrði áfram til staðar og verndin gæti þurft að vara til frambúðar.

"Árásarstefnan"

Einungis lokalausnin var eftir. Forsvarsmenn flotans sögðu á nýjan leik að þeir vildu hafa "frumkvæði á miðunum, færi svo að herskip yrðu að sigla norður að Íslandsströndum. Best væri að bíða með allar aðgerðir uns varðskip hefði greinilega brotið alþjóðalög, helst með því að ráðast um borð í togara vel utan 12 mílna markanna. Síðan myndu Bretar bera fram hörð mótmæli á alþjóðavettvangi og fylgja þeim eftir í verki, "þrátt fyrir alla pólitísku og lagalegu annmarkana".

Þetta var "árásarstefna" Breta, og bar nafn með rentu: "Herskip hennar hátignar myndu leita uppi íslensk varðskip, annaðhvort í landhelgi eða á úthafinu og leggja til atlögu við þau. Til greina kemur að sökkva varðskipunum, gera þau óvirk eða senda vopnaðar sveitir til að hertaka þau, og yrðu þær að vera nægilega vel vopnum búnar til þess." Jafnframt mætti íhuga að herskip færu "inn í íslenska landhelgi til að ná aftur togara sem hefði verið tekinn. Hér var því aftur rætt um að freigáturnar sigldu inn á firði og upp í landsteina. Kostirnir við svo snörp viðbrögð væru umtalsverðir, sögðu menn í varnarmálaráðuneytinu og sátu greinilega við sama keip og um vorið. En ekki mætti sýna neitt hálfkák þannig að "Ísland gæti ... tekið upp eigin árásir á ný þegar sjóherinn hyrfi á brott. Þetta þýðir að ná yrði öllum eða nær öllum varðskipum sem væru í færi, eða grípa til aðgerða gegn íslenskum togurum sem Ísland gæti ekki þolað til lengdar." Ráðamenn í Reykjavík myndu þá sjá að þeim væri hollast að semja um lausn deilunnar.

Aftur viðurkenndu forsvarsmenn flotans að leiftursókn af þessu tagi gæti haft mjög alvarlegar pólitískar afleiðingar. Íslenskur almenningur léti sig tæplega hafa það að vera í hernaðarbandalagi með þjóð sem skyti á og sökkti jafnvel varðskipum þeirra. Þá væri Keflavíkurstöðin í voða og lagaleg rök um sjálfsvörn eða að Íslendingar hefðu fyrst beitt valdi voru líka mjög veik. Lokaniðurstaðan var þess vegna sú að "þessi deila [verði] ekki leyst með vopnum." En færi svo að bresk stjórnvöld teldu sig ekki eiga annarra kosta völ en að beita herskipum til að vernda togarana og knýja Íslendinga til að láta undan, þá væri snörp árás illskárri en langvinn herskipavernd.

Skjóta skal á brú eða vélarrúm

Það var lán bæði Íslendinga og Breta að hinum harkalegu ráðum breska flotans var aldrei fylgt. Hins vegar var það ógæfa beggja að bresk stjórnvöld, jafn seinþreytt til vandræða og þau voru, létu loks til leiðast og skipuðu herskipum að vernda togarana í hólfum innan fiskveiðilögsögunnar. Þetta varð 19. maí 1973, og ómaði þá Land of Hope and Glory í talstöðvum togaranna.

Í átakareglum fyrir freigátukapteina á Íslandsmiðum, Rules of Engagement, sagði að þeir mættu staðsetja skip sín milli varðskips og togara og sigla þannig að það gæti ekki klippt á togvíra, án þess þó að stuðla að árekstri. Og þeir máttu aldrei skjóta á eða að varðskipum nema í sjálfsvörn. Innan skamms sauð samt upp úr á Íslandsmiðum. Skipstjórar stórra dráttarbáta, sem voru herskipunum til halds og trausts, tóku lítt hátíðlega fyrirmæli um að forðast árekstra við varðskip, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Freigátukapteinar ákváðu líka stundum að þola árekstra frekar en að víkja úr vegi fyrir varðskipum og þykja minni menn í allra augum á miðunum. Og nokkrum sinnum báðu þeir um heimild til að hóta skotárásum og fylgja því eftir ef nauðsyn kræfi. Í varnarmálaráðuneytinu hafði áður verið bent á að yrði slík heimild veitt félli hún undir tiltekna reglu um skotárásir: "Skjóta skal ... á brú og/eða vélarrúm og halda því áfram uns skipið hlýðir fyrirskipunum." Önnur almenn regla ætti þó einnig við: "Skotárásir eiga einungis að miða því að gera vopn andstæðingsins óvirk." Á fundi í forsætisráðuneytinu í Lundúnum fóru embættismenn ráðuneytisins nánar út í þá sálma hvernig haga mætti skotárásum á íslensk varðskip. Í skýrslu um fundinn segir:

"Í fyrsta lagi sögðu þeir að grundvallarsjónarmiðið um "lágmarksárás" ætti við í því tilfelli. Á hinn bóginn viðurkenndu þeir að það félli þá undir fyrstu aðgerðir í röð stigvaxandi viðbragða [sem gætu leitt til skotárása á brú eða vélarrúm] ... Í öðru lagi sögðu þeir að í þeim vályndu veðrum sem gætu orðið undan Íslandi snerist málið um að hitta skip frekar en hluta þess." Að vísu var bent á að vel gæti viðrað og skothríðin gæti verið af stuttu færi."

Vandinn var líka sá að fallbyssurnar á freigátunum voru ekki ætlaðar til skotbardaga í návígi. Skipherra breska sjóhersins, sem stýrði skipi í þessu þorskastríði, sagði síðar frá því hvernig hann hefði búið sig undir að beita byssunum ef þörf krefði: "Ég og skotvopnaliðsforinginn vörðum talsverðum tíma í að athuga hvernig best væri að standa að því að skjóta úr aðalfallbyssunum (4,5 þumlunga skotvídd) ef það reyndist nauðsynlegt að miða á tiltekinn hluta skips, t.d. reykháf af 200 yarda færi. Ekki hafði verið gert ráð fyrir því við hönnun skotkerfisins sem hentaði auðvitað betur þegar fjarlægðin var um 20.000 yardar! Okkur tókst þó vel upp; ég held að lausnin hafi falist í miðun með stýripinna í skotturni en fínni stillingu eftir augsýn."

Versta lausnin

Svo fór að leyfi til skotárása var aldrei veitt í Lundúnum, þótt fullyrða megi að ráðherrar hafi eitt sinn verið komnir á fremsta hlunn með að fyrirskipa hertöku Ægis með öllum tiltækum ráðum. Það gerðist eftir að varðskipið skaut mörgum skotum að togaranum Everton í lok maí 1973. En þeir sátu á sér. Áfram var allt stál í stál.

Frá þröngu sjónarmiði sjóhersins var það versta lausnin. Nokkurra ára herskipavernd virtist í uppsiglingu þar sem varðskipin gætu keppst við að klippa án þess að Bretar mættu beita þeim vopnum sem þeir byggju yfir. Íslandsvinurinn Sir Andrew Gilchrist, sem var sendiherra þeirra í Reykjavík í fyrsta þorskastríðinu, sagði síðar í bók sinni Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim að það hefði verið "óskiljanlegt að stjórnin skyldi hverfa aftur að sömu ráðum sem höfðu reynst áhrifalaus og fánýt." En tæpast gat hún gefist alveg upp. Orðstír hennar hefði beðið hnekki og breskir ráðamenn voru líka handvissir um að íslensk stjórnvöld væru í órétti, enda mátti deila um þau lagalegu rök sem Íslendingar notuðu til að færa út einhliða og afneita fyrri skuldbindingum um málskot til Haag.

"Þetta sögðum við!

Á hinn bóginn gat breska ríkisstjórnin ekki gengið milli bols og höfuðs á Íslendingum. Þótt greinargerðir varnarmálaráðuneytisins sýni að sá möguleiki var íhugaður verður að líta á þær í réttu samhengi. Mennirnir herskáu í Lundúnum virðast til dæmis hafa gert ráð fyrir að stjórnvöld í Reykjavík myndu gefa eftir, annað hvort við harðvítugar hótanir einar saman eða fljótlega eftir að sjóherinn sýndi mátt sinn og megin, án þess að til átaka kæmi. Bretar hefðu þá bara gabbað Íslendinga.

Og engan klæjaði í fingurna að skjóta á vinaþjóð. Íslenskir varðskipsmenn höfðu bjargað mörgum breskum sjómönnum úr sjávarháska og voru rómaðir fyrir hugrekki á hættustund. Jafnframt verður að hafa í huga að í varnarmálaráðuneytinu voru menn öðrum þræði aðeins að benda á að herskipavernd með gamla laginu frá fyrsta þorskastríðinu myndi ekki skila árangri, eða reynast allt of dýrkeypt. Ef hún yrði engu að síður reynd - og brygðist - þá gætu þeir sagt: "Þetta sögðum við!"

Eftir stendur þó alltaf að forsvarsmenn breska flotans vildu frekar beita meiri hörku en minni, væri herskipa þörf á Íslandsmiðum, og freigátukapteinum fannst súrt í broti að vera uppálagt að vernda breska togara á "hinu frjálsa hafi" en mega svo lítið gera til að gegna þeirri skyldu. "Við vorum að reyna að berjast með hendur bundnar fyrir aftan bak," sagði einn þeirra löngu síðar.

Þorskastríðinu um 50 mílna útfærsluna lauk með bráðabirgðasamningi í nóvember 1973. Samkomulagið var keimlíkt drögunum frá sumrinu árið áður og eftir á má segja að hvorki Bretar né Íslendingar hefðu mikils misst við að sýna þá örlítið meiri sáttavilja. Það er reyndar freistandi að segja að fljótt á litið hafi frekar staðið upp á Íslendinga í þeim efnum þótt ekkert skuli um það fullyrt hér.

Vald hinna veiku

Hitt er augljóst að helstu ráðamenn íslenskir í þessu þorskastríði, Ólafur Jóhannesson og Lúðvík Jósepsson, töldu sig vita að þegar á allt væri litið stæðu Íslendingar betur að vígi en Bretar og því væri óhætt að láta slag standa. Þegar Henry Kissinger kom til Íslands sumarið 1973 í fylgd með Nixon Bandaríkjaforseta ræddu íslenskir ráðherrar auðvitað við þá um átökin við Breta. Kissinger, manna fróðastur um styrjaldir og stjórnmálasögu, var "furðu lostinn" eins og hann skrifaði síðar: "Hér höfðum við 200.000 manna eyþjóð sem hótaði að fara í stríð við fimmtíu milljón manna heimsveldi, út af þorski. ... Íslensku ráðherrarnir héldu fast við stefnu sem fyrr á öldum hefði verið dauðadómi líkust. Mér varð hugsað til þeirra orða Bismarcks [fyrsta kanslara Þýskalands á nítjándu öld] að vald hinna veiku ykist við óskammfeilni þeirra en þeir sterku veiktust vegna eigin fjötra."

Vald í alþjóðasamskiptum var orðið flóknara en svo að það yrði mælt í fjölda herskipa. Áhyggjur breskra stjórnarerindreka vegna herstöðvarinnar í Keflavík og veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu staðfesta að hernaðarmikilvægi landsins í kalda stríðinu skipti geysilegu máli um lyktir þorskastríðsins. Íslenskir ráðamenn, bæði þá og í öðrum fiskveiðideilum við Breta, beittu þessu "vopni" miskunnarlaust. Aukið vægi alþjóðalaga kom Íslendingum einnig vel. Stjórnvöld í Lundúnum báru það mikla virðingu fyrir lögum og rétti að þau freistuðust aldrei til þess að sýna varðskipsmönnum í tvo heimana. Þorskastríðið var líka að mörgu leyti áróðursstríð og Bretar vissu að víða um heim yrðu þeir alltaf sakaðir um að ráðast á lítilmagnann, jafnvel þótt þeim sjálfum þættu Íslendingar vera í hlutverki ribbaldans.

Í stuttu máli má segja að það hafi annars vegar sýnt siðferðisstyrk Breta og sáttahug að þeir ákváðu aldrei að berjast til þrautar, en hins vegar sýnir sú ákvörðun að senda herskip á vettvang, eiginlega með hálfum huga, að breska ríkisstjórnin gat ekki horfst í augu við óumflýjanlegan ósigur. Því það breytti engu hvort Bretar ynnu orrustur á Íslandsmiðum, töpuðu þeim eða héldu í horfinu. Stríðinu myndu þeir alltaf tapa.

Höfundur er sagnfræðingur. gudnijohannesson@yahoo.com