"Ef við höfum ekki vöxt í atvinnulífinu verður ekkert svigrúm hjá ríkinu að auka þjónustu sína og styrkja velferðarkerfið."

GRÍÐARLEGAR breytingar hafa orðið á atvinnuháttum landsmanna og á viðskiptaumhverfinu. Með auknu frelsi í viðskiptum hefur samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs batnað verulega. Það er mikilvægt að hafa í huga að okkar atvinnulíf á í síharðnandi samkeppni við fyrirtæki á alþjóðamarkaði. Rekstrarumhverfið hér þarf því að jafnast á við það besta í löndunum í kringum okkur.

Framsóknarflokkurinn hefur farið með málefni atvinnulífsins síðastliðin átta ár. Óhætt er að segja að þar hafi tekist vel til. Þegar Framsóknarflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn árið 1995 ríkti algjör stöðnun í íslensku atvinnulífi. Hjólin tóku hins vegar að snúast á nýjan leik þegar samningar tókust um fjárfestingar í stóriðju eftir langa baráttu stjórnvalda og allra flokka til þess að laða hingað til lands erlent fjármagn. Byggt var nýtt og fullkomið álver í Hvalfirði og álverið í Straumsvík stækkað. Þessi fyrirtæki hafa reynst mikill happafengur fyrir íslenska þjóð. Rekstur þeirra hefur gengið afar vel, þau skapa mörg og vel launuð störf og skapa þjóðarbúinu mikilvægar útflutningstekjur.

Miklu fleira hefur gerst síðan 1995. Hér hafa orðið til þúsundir starfa í nýjum atvinnugreinum svo sem á sviði hátækni, lyfjaiðnaðar, líftækni og hugbúnaðar. Háskólar hafa stóreflst með aukinni samkeppni og samfara auknu frelsi á fjármagnsmörkuðum hafa orðið til ótal mörg ný störf. Þessi störf eru unnin af háskólamenntuðu ungu fólki og eru vel launuð. Ríkið hefur dregið sig út úr rekstri á þessum samkeppnismarkaði og lagt þess í stað áherslu á að styrkja eftirlitsstofnanir og herða löggjöf á því sviði. Hvað háskólana varðar er rétt að benda á að með tilkomu nýrra háskóla á síðustu árum hafa skapast við þá mörg góð störf og það sem mikilvægara er; þar bjóðast nú fleiri tækifæri fyrir fólk að mennta sig, meiri fjölbreytni og aukin endurmenntun. Aukin menntun er lykilforsenda þess að Ísland standi sig í samkeppni þjóðanna.

Vel búið að íslenskum fyrirtækjum

Á síðasta ári var gerður alþjóðlegur samanburður á rekstrarkostnaði fyrirtækja. Ísland var þar borið saman við stærstu lönd Evrópusambandsins, Bandaríkin, Kanada og Japan. Þessi rannsókn, sem unnin var af KPMG í Kanada, sýndi svo ekki verður um villst að hér er vel búið að fyrirtækjum. Best kom Ísland út í greinum á sviði hugbúnaðar, rannsókna og þróunar, lyfja- og stoðtækjaframleiðslu. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattalegum aðstæðum fyrirtækja hér á landi hafa haft jákvæð áhrif á rekstur þeirra, sem skilar sér í hærri launum til starfsmanna og auknum verðmætum í þjóðarbúið.

Áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi staðfestir góðar rekstraraðstæður hér á landi. Ákvörðun alþjóðlega álfyrirtækisins Alcoa um að velja Ísland til að byggja sitt fyrsta álver í 20 ár, sýnir styrk okkar. Sú framkvæmd mun án nokkurs vafa bæta þjóðarhag, auka útflutningsverðmæti okkar, skapa hér hagvöxt og aukna landsframleiðslu. Þessi framkvæmd tryggir landsmönnum hærri laun - sama hvar á landinu sem þeir búa.

Framsóknarflokkurinn getur svo sannarlega verið stoltur af sínu starfi í ráðuneytum atvinnumála undanfarin 8 ár. Það býr kraftur í íslensku atvinnulífi og þeim krafti á ekki að halda niðri heldur skapa honum farveg svo hann leysist úr læðingi. Við munum áfram leggja áherslu á atvinnumálin fáum við tækifæri til í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Það er enda undirstaða alls að hér sé blómlegur rekstur fyrirtækja, að við búum við hagvöxt í efnahagslífinu og fjölgum áfram störfum. Ef við höfum ekki vöxt í atvinnulífinu verður ekkert svigrúm hjá ríkinu að auka þjónustu sína og styrkja velferðarkerfið.

Blómlegur kvikmyndaiðnaður

Framsóknarflokkurinn mun áfram leggja áherslu á nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Við höfum stutt við atvinnugreinar, sem áður voru að mestu afskiptar, en í dag standa miklu sterkari. Kvikmyndaiðnaðurinn er ágætt dæmi um það. Árið 1996 voru ársverk í kvikmyndaiðnaði 120 hér á landi en eru nú margfalt fleiri. Þegar 5 mínútna atriði í nýjustu James Bond-kvikmyndinni var tekið upp hér á landi á 10 vikum var rúmum 300 milljónum króna velt inn í landið. Og það sem meira er að á Höfn í Hornafirði velti verkefnið rúmum 200 milljónum króna gegnum samfélagið þar, og það utan hefðbundins ferðamannatíma. Þessari atvinnugrein hafa verið sköpuð skilyrði til vaxtar m.a. með sérstökum aðgerðum stjórnvalda til að laða að erlenda kvikmyndagerð.

Þannig byggist atvinnustefna Framsóknarflokksins á fjölbreytni. Það er því algerlega út í hött að halda því fram að við hugsum eingöngu um stóriðju. Við styðjum hana ásamt öðru. Við höfnum ekki stóriðjunni. Þar liggur munurinn á okkur og vinstri flokkum. Þar kjósa menn alhæfingar og upphrópanir; allt eða ekkert. Framsóknarflokkurinn velur hvort tveggja; brot af því besta.

Eftir Björn Inga Hrafnsson

Höfundur er skrifstofustjóri og skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.