Hollvinir gufubaðs og smíðahúss komnir inn í annan af tveimur klefum sem byggðir eru ofan á sjóðandi hverinn.
Hollvinir gufubaðs og smíðahúss komnir inn í annan af tveimur klefum sem byggðir eru ofan á sjóðandi hverinn.
HOLLVINASAMTÖK hafa verið stofnuð um varðveislu og endurreisn gufubaðsins og smíðahúss á bökkum Laugarvatns. Síðastliðinn laugardag var haldinn stofnfundur samtakanna í gamla smíðahúsinu á Laugarvatni.

HOLLVINASAMTÖK hafa verið stofnuð um varðveislu og endurreisn gufubaðsins og smíðahúss á bökkum Laugarvatns. Síðastliðinn laugardag var haldinn stofnfundur samtakanna í gamla smíðahúsinu á Laugarvatni. Hundrað og tíu manns mættu á stofnfundinn og skráðu nafn sitt í sérstaka stofnfélagabók sem ætlunin er að liggi frammi í afgreiðslu gufubaðsins út árið.

Hilmar Einarsson, byggingarfulltrúi uppsveita Árnessýslu, flutti söguágrip bygginganna og rakti tilurð þeirra. Sagði hann frá því að skólapiltar í Héraðsskólanum hefðu farið suður til Reykjavíkur til að rífa þar sýningarskála sem stóð við Alþingishúsið og flutt hann á Laugarvatn og endurreistu þar. Var húsið fyrsta íþróttahúsið á staðnum og þjónaði sem slíkt þar til Íþróttakennaraskóli Íslands var stofnaður með lögum 1942 og húsnæði byggt yfir hann við hlið Héraðsskólahússins 1944. Eftir það var húsið notað til smíða og bókbandskennslu.

Gufubaðið var byggt ofan á hverinn um það leyti sem skólinn var í byggingu 1928-9 af smiðum skólans. Búningsaðstaðan var síðar stækkuð og karlaklefi byggður inn í smíðahúsið.

Gufubaðið hafði strax nokkra sérstöðu. Þarna hittust gjarnan að loknum erfiðum degi, bændur, sumarhúsafólk, kennarar og aðrir gestir staðarins og skiptust á skoðunum um pólitíkina og önnur mál hvers tíma, líkt og gert er í heitu pottunum í dag.

Gufubaðið varð strax mjög vinsælt og þótti af mörgum hin mesta heilsulind, enda ekki víða sem menn komust í svona mikla nálægð við hveravatnið án þess að brenna sig. Bara svitna og þar með að losa sig við allan venjulegan óþverra. Þorkell Bjarnason, fyrrverandi hrossaræktarráðunautur sem fæddur er og uppalinn á Laugarvatni, sagði frá íþróttatímum sem hann sem ungur drengur horfði á og fékk síðar að stunda í húsinu undir stjórn Björns Jakobssonar. Björn sem rak sinn einka íþróttakennaraskóla á Laugarvatni spilaði undir á fiðlu þegar stúlkurnar gerðu æfingar sínar og krakkarnir í þorpinu og sveitinni fylgdust með af andakt.

Ólafur Örn Haraldsson, þingmaður, skoraði á núverandi og næstkomandi ráðherra menntamála og menntamálaráðuneytið að vinna duglega og af myndarskap með Hollvinasamtökunum að þeirri uppbyggingu sem nú væri farin af stað.

Fram komu einnig reynslusögur um lækningamátt í vatninu og gufunni varðandi psoriasis exem sem hyrfu við margendurtekin böð.

Á fundinum voru samþykkt lög samtakanna og kosin stjórn sem í sitja Hafþór B. Guðmundsson, lektor við Íþróttafræðasetur KHÍ, Ragnar Sær Ragnarsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, Friðrik Guðmundsson, framkvæmdastjóri Húsbyggingafélags námsmanna, Kristján Einarsson, forstjóri í Rekstrarvörum, Tryggvi Guðmundsson, framkvæmdastj. Flugleiðahótela, Ólafur Örn Haraldsson, alþingismaður, og Bjarni Finnsson, fyrrv. framkvæmdastj. Blómavals. Varamenn eru Þorsteinn Kraag, umboðsmaður, og Halldór Páll Halldórsson, skólameistari ML.

Eftir að lög samtakana voru samþykkt og stjórnarkjör gerði fundurinn eina ályktun sem hljóðaði svo: Aðalfundur Hollvinasamtaka gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni óskar eftir góðu samstarfi við menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið um verkefni félagsins. Fundurinn skorar á menntamálaráðherra að greiða götur félagsins með öllum hætti.