Darrel Lewis fór hamförum í liði Grindvíkinga og áður en yfir lauk hafði hann skorað 45 stig. Lewis sækir hér að körfu Tindastóls en til varnar er Einar Örn Aðalsteinsson.
Darrel Lewis fór hamförum í liði Grindvíkinga og áður en yfir lauk hafði hann skorað 45 stig. Lewis sækir hér að körfu Tindastóls en til varnar er Einar Örn Aðalsteinsson.
Darrell Lewis, leikmaður Grindvíkinga, sýndi það og sannaði í oddaleiknum gegn Tindastól að hann hefur náð fullum styrk á ný eftir aðgerð á hné sem hann gekkst undir fyrir fjórum vikum. Lewis skoraði að vild gegn varnarmönnum gestaliðsins og alls 45 stig auk þess sem hann tók 17 fráköst.
Æðri máttarvöld hafa greinilega viljað að ég tæki þátt í þessu verkefni með Grindavík því ég hef náð ótrúlegum bata á þessum stutta tíma," sagði Lewis í samtali við Morgunblaðið og var sammála því að hann hafi í raun sjaldan leikið betur. "Karfan virtist vera risastór og ég taldi að ég gæti alltaf skorað þegar ég skaut á körfuna. Það var líka mikið í húfi fyrir liðið og mig sem leikmann. Við vorum með bakið upp við vegginn og tímabilið gat verið búið hjá okkur. Ég var ekki tilbúinn að fara heim strax og vildi ekki þurfa að pakka niður dótinu mínu í þessari viku. Ég hef aldrei áður keppt til úrslita um eitt eða neitt á mínum ferli og vildi gera allt til þess að mæta Keflvíkingum í úrslitum Íslandsmótsins."

Spurður sagði Lewis að hann hefði verið órólegur allt þar til að leikurinn hófst en taldi að Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari liðsins, hefði stappað stálinu í hann á réttan hátt. "Ég heimsótti þjálfarann fyrir leikinn og taldi að hann væri eins spenntur og ég - en svo var ekki.

Við ræddum um daginn og veginn en lítið um leikinn sjálfan. Það eina sem hann sagði við mig var að ég þyrfti að vera leiðtogi liðsins."

Lewis skoraði með ýmsum hætti gegn Tindastól að þessu sinni og afrekaði m.a. að troða knettinum í körfuna í síðari hálfleik - og yfir hinn hávaxna rússneska leikmann Michail Antropov. "Já, ég reyndi að skora meira undir körfunni en áður og taldi mig eiga góða möguleika þar. Að mínu mati var það veikleiki í þeirra liði og við nýttum okkur það vel."

Um möguleikana gegn Keflavík sagði Lewis að það yrði erfið rimma en hann taldi Grindavíkurliðið nógu sterkt til þess að leggja Keflvíkinga að velli. Þess má geta að Damon Johnson, leikmaður Keflvíkinga, stóð álengdar og var á allt öðru máli en Lewis.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga, taldi lið sitt hafa leikið sinn besta leik í úrslitakeppninni til þessa - í vörn sem sókn. "Ég vil byrja á því að þakka Tindastólsmönnum fyrir rimmuna. Það voru allir að bíða eftir því að við myndum eiga náðuga daga gegn þeim en það er langur vegur frá því," sagði Friðrik og sagði lið sitt vera að ná saman á ný eftir misjafna leiki að undanförnu. "Ég fer ekki í felur með það að við höfum ekki sýnt stöðugleika í úrslitakeppninni en það spilar margt þar inn í. Það ríkti mikil óvissa um meiðslin hjá Darell Lewis og við vissum í raun ekki hvort hann yrði með okkur áfram en sem betur fer hefur hann náð sér að fullu. Allavega sýndi hann allar sínar bestu hliðar í þessum leik," bætti Friðrik við en neitaði því að hann væri með varaplan ef Lewis myndi meiðast á ný. "Við fylgjumst vel með honum frá degi til dags og vonum það besta."

Friðrik sagðist ekki hafa spáð mikið í Keflavíkurliðið sem verða næstu mótherjar deildarmeistaraliðs Grindavíkur í úrslitum Íslandsmótsins. "Keflvíkingar hafa verið að leika frábæran körfuknattleik að undanförnu og koma Edmund Saunders hefur breytt miklu fyrir þá. Hann er að gera hluti sem þeir höfðu ekki gert fyrri hluta mótsins og við verðum að bregðast við því."

Þjálfarinn var að sjálfsögðu ekki sammála því að lið Keflvíkinga væri ósigrandi þessa stundina. "Það sem ég skynja er að menn telja Keflvíkinga sigurstranglega og það er ósköp eðlilegt. Þessi rimma er því töluverð áskorun fyrir okkur sem lið og þrátt fyrir að við séum deildarmeistarar má segja að við verðum "litla" liðið að þessu sinni. Við verðum hins vegar að bíða og sjá hvernig þessir leikir fara og ég tel okkur í stakk búna til þess að gera góða hluti á næstu vikum," sagði Friðrik Ingi.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson