3. apríl 2003 | Viðskiptablað | 812 orð

Hjarðhegðun á markaði

"Ekki gleyma að hlutabréfamarkaðir sveiflast stöðugt milli græðgi og hræðslu.

Skáldsögurnar We eftir Yevgeny Zamyatin, Brave New World eftir Aldous Huxley og 1984 eftir George Orwell beina sjónum sínum að framtíðarþjóðfélögum.
"Ekki gleyma að hlutabréfamarkaðir sveiflast stöðugt milli græðgi og hræðslu. Þegar græðgin nær hámarki hverfa hreinlega góð kauptækifæri, sama hversu mikið við hugsanlega reynum að óska þess að þau verði að veruleika. Þegar hræðsla nær hámarki og búið er að kreista úr markaðnum alla bjartsýni eru góð kauptækifæri út um allt." (Robert Menschel, Markets, Mobs, and Mayhem: A Modern Look at the Madness of Crowds, bls. 49.)

Skáldsögurnar We eftir Yevgeny Zamyatin, Brave New World eftir Aldous Huxley og 1984 eftir George Orwell beina sjónum sínum að framtíðarþjóðfélögum. Nálgun þessara höfunda er að mörgu leyti lík, þó skoða þeir samhliða því ólíkar hliðar framtíðarþjóðfélagsins frá mismunandi sjónarhornum. Svipaða sögu má segja um margar bækur sem beint hafa sjónum sínum að fjármálabólum á verðbréfamörkuðum. Meðal þekktra sígildra verka á því sviði má nefna Manias, Panics, and Crashes eftir Charles P. Kindleberger sem aðallega skoðar bólur út frá efnahagslegu sjónarmiði, Extraordinary Popular Delusions & the Madness of Crowds eftir Charles Mackay, sem beinir sjónum sínum að þeim sálfræðilegu og félagslegu aðstæðum sem leiða til hjarðhegðunar, og Only Yesterday eftir Frederick Lewis Allen, en hún gefur góða sagnfræðilega greiningu á því hvernig hlutabréfabólan myndaðist á þriðja áratugnum. Rétt eins og skáldsögurnar sem minnst var á hér að ofan skoða þessi rit sama fyrirbærið en varpa ljósi á ólíka þætti þess. Nýlega hafa nokkur góð verk bæst í þann hóp. Bókin Devil Take the Hindmost eftir Edward Chancellor gefur heilsteypta mynd af myndun bóla frá sagnfræðilegu umhverfi á meðan Irrational Exuberance eftir Robert J. Shiller lýsir vel þeim félagslegu þáttum sem eiga sér oft stað á slíkum tímum.

Á síðasta ári kom út enn ein bókin sem snýr að fjármálabólum. Titill bókarinnar, Markets, Mobs, & Mayhem: A Modern Look at the Madness of Crowds, vísar augljóslega í titil á verki Charles Mackay og vekur upp væntingar að hér sé á ferðinni uppfært sígilt verk. Rétt eins og bók Mackey snýr hún sérstaklega að hjarðhegðun og veitir auk þess ráð til að vinna á móti henni. Höfundurinn er Robert Menschel, en hann hefur áratuga reynslu á verðbréfamörkuðum hjá Goldman Sachs og hefur því upplifað tímana tvenna. Formáli bókarinnar fjallar um samtíðaratburði sem leitt hafa til hjarðhegðunar, oft með ófyrirséðum afleiðingum á hlutabréfamörkuðum. Menschel sýnir með skýrum hætti hversu fljótt viðhorf manna getur breyst, jafnvel hvað varðar grundvallaratriði. Eitt árið þykir öllum eðlilegt að lífeyrissjóðir stórauki fjárfestingar sínar í hlutabréfum. Ein niðursveifla (reyndar afar stór) í bland við nokkur Enron-tilfelli breytir slíku viðhorfi nánast á augabragði. Í dag þykir það vera óðs manns æði að mæla með hlutabréfum sem fjárfestingu, þrátt fyrir að lögmálið um að þau séu besta langtímafjárfestingin haldi auðveldlega velli og gengi þeirra hafi ekki verið jafnhagstætt svo árum skiptir. Menschel bendir á að jafnvel reyndustu samstarfsfélagar hans voru margir hverjir sannfærðir um að Cisco, sem var enn sumarið 2000 tískufyrirtæki, væri fjárfesting sem barnabörnin ættu eftir að njóta góðs af þrátt fyrir að öll tölfræðileg rök gæfu til kynna að slíkt byggðist á óskhyggju. Hjarðhegðun hefur þó ekki verið einskorðuð við hlutabréfamarkaði. Mikil hræðsla náði heljartökum á heimsbyggðinni vegna örfárra tilfella af miltisbrandi í bréfasendingum. Líkurnar á því að fá slíka sendingu voru þó töluvert minni en að verða t.d. fyrir eldingu, jafnvel minni en að verða fyrir eldingu með golfkylfu í hendi. Því má bæta við að á Íslandi var ein fjármálastofnun rýmd vegna slíks tilfellis þegar starfsmaður fékk hvítt duft á hendurnar við að opna eintak af tímaritinu The Economist. Flestir áskrifendur tímaritsins þekkja að plastið utan um tímaritið litaði hendur fólks iðulega við að rífa það í sundur. The Economist breytti umbúðunum snarlega til að forðast fleiri slík tilfelli.

Fyrsti fjórðungur bókarinnar Markets, Mobs, & Mayhem er fullur af fróðleik varðandi fjármálabólur. Veitt eru dæmi um hvernig hjarðhegðun átti sinn þátt í stigmögnun fjármálabóla og hvernig sumir náðu að nýta sér þær. Umfjöllun bókarinnar um áhrif veraldarvefjarins á framtíðina og hvernig hann ætti eftir að alþjóðavæða heiminn er skemmtileg lesning, enda er mikið bakslag nú þegar komið í slíka drauma. Menschel bendir á hvernig fjallað var um efasemdamenn sem einhverja sem "skildu" ekki framtíðina en það var reyndar það sama og efasemdamenn hvað varðar Enron og aðrar fjármálabólur fengu að heyra á sínum tíma. Einnig er í bókinni veitt ráð til að forðast það að verða fórnarlamb slíkra bóla, jafnvel hvernig hægt sé að nýta sér þær. Samantekt á slíkri ráðgjöf er í lok fyrsta kafla sem vert er að lesa nokkrum sinnum.

Því miður endar besti hluti bókarinnar eftir þá umfjöllun. Það sem eftir kemur er að mestu leyti samansafn greina sem aðrir hafa skrifað um atburði sem tengjast hjarðhegðun. Margt af því er áhugavert en fátt tengist verðbréfamörkuðum. Auk þess ráða dæmisögurnar allt of mikið ríkjum á kostnað umfjöllunar um eðli þeirra eða samband þeirra við verðbréfamarkaði. Markets, Mobs, & Mayhem veldur því í heildina séð vonbrigðum, þó svo að inngangur bókarinnar og fyrsti kafli sé í hágæðaflokki.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.