Jóhanna Þórðardóttir: Bon Voyage.
Jóhanna Þórðardóttir: Bon Voyage.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opnuð verður í dag kl. 15 sýning á skúlptúrum úr silfri í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar. Sýningin sem ber heitið Sterling Stuff, kemur til Íslands fyrir milligöngu breska bronssteypufyrirtækisins Pangolin Editions. Hún var áður sýnd í Gallery Pangolin og í maímánuði næstkomandi verður hún til sýnis í Royal Academy í London.
ENDURMAT er snar þáttur af myndlist nútímans. Til marks um það er nývakinn áhugi á málmsteyptum skúlptúrum sem birtist m.a. í velgengni Pangolin-málmsteypunnar. Rungwe Kingdon og kona hans, Claudia Koenig, stofnuðu Pangolin árið 1985. Í dag er málmsteypa þeirra sú stærsta á Bretlandseyjum, starfsmenn hennar eru 50 talsins og 300 listamenn eiga við hana viðskipti.

Pangolin ber sig öðru vísi að en flestar aðrar málmsteypur. Til dæmis er listamönnum iðulega boðið að vinna náið með handverksmönnum fyrirtækisins - Dan Chadwick og Damien Hirst hafa meira að segja komið sér upp vinnustofum í næsta nágrenni - og málmsteypan starfrækir eigin sýningarsal. Salurinn er aðallega notaður til að kynna aðkomumönnum framleiðsluna, en að auki eru settar þar upp tvær sérsýningar á ári. Fyrir sýninguna "Góður metall" voru listamenn fengnir til að vinna eftir ákveðinni forskrift. Sýningarsalurinn og sýningarnar sem þar fara fram samræma vinnuferlið og framleiðsluna og auka á samheldni handverksmanna og listamanna, eins og gerðist á sumarsýningu Konunglegu akademíunnar í fyrra, þegar úrval skúlptúra sem steyptir höfðu verið hjá Pangolin var sýnt í hátimbruðum sölunum í Burlington House.

Auk þess hefur þetta fyrirkomulag viðskiptalega þýðingu. Svo vitnað sé í Rungwe Kingdon sjálfan: ,,Málmsteypur eru ekki góð tekjulind, þess vegna er gott að geta reitt sig á tekjurnar af sýningarsalnum ef eitthvað fer úrskeiðis í starfseminni. Hlutirnir bila og þá getum við þurft að endurnýja tækjabúnað í snarheitum, sem kostar sitt."

Á sýningunni ,,Góður metall" notar Pangolin-málmsteypan sér til fullnustu hinn fjölbreytta hóp listamanna sem hún er með á sínum snærum, allt frá listamönnum sem sérhæfa sig í dýraskúlptúrum til myndlistarmanna á óhlutbundna vængnum. Þetta er umfangsmesta sýning sem málmsteypan hefur ráðist í til þessa. Fimmtíu listamenn voru beðnir að gera hlut sem steypa mætti úr silfri og mátti hann hvergi vera stærri um sig en 15 sentimetrar.

,,Þegar talað er um silfur verður mörgum eflaust hugsað til alls konar silfurborðbúnaðar, en auðvitað er silfur bara málmur eins og hver annar, og því tilvalið hráefni í skúlptúr" segir Kingdon. Brons er málmblanda, en silfur er góðmálmur með ákveðið verðgildi. Alla silfurmuni sem framleiddir eru í Bretlandi ber að stimpla hjá fjórum opinberum aðilum, í Lundúnum, Birmingham, Sheffield og Edinborg, þannig að verðgildi þeirra fari ekki á milli mála. Sérhver skúlptúranna á sýningunni hefur hlotið þannig gæðastimpil.

Silfur bráðnar við svipað hitastig og brons. Það er mýkra og hreinna í sér, það má fægja uns það glóir eins og fullt tungl, og þó það sé tæplega eins þjált og brons, má nota það til margháttaðrar tjáningar. Áferð silfurs er að sönnu ekki eins fjölbreytileg, það er fljótt að falla á það og það eyðist fyrr en brons. Hægt er að flýta áfellingu með sýrum en annars gerist hún með eðlilegum hætti, að vísu mismunandi hratt eftir loftslagi. Þegar sýningin verður sett upp í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Reykjavík má búast við að falli verulega á skúlptúrana á nokkrum dögum. Hjá Pangolin tekur áfelling marga mánuði, jafnvel ár.

Listamennirnir sem hér koma við sögu hafa hvorki látið smæð umbeðinna skúlptúra né framandleika málmsins vaxa sér í augum. Árangurinn er sönnun þess að skúlptúr þarf hvorki að tapa slagkrafti sínum né stórbrotnu inntaki í smækkuðu formi, og sannar einnig að silfur er tjáningarríkari efniviður en hefðbundin notkun þess gefur til kynna.

Eggið er sennilega eitt af þeim frumformum náttúrunnar sem flestum hugnast; því er ekki að furða þótt margir þátttakenda hafi skapað tilbrigði um það. Ef við berum saman verk Geoffrey Dashwood, Varasjóður, egglaga fuglshöfuð og verk David Nash, Silfuregg, sem er útskorin keila, sést vel hve áferðarríkur og þjáll efniviður silfrið er. Annað verkið er slétt og skínandi bjart, hitt er hrjúft, svart og matt.

Það er óneitanlega dramatískt að fylgjast með því þegar bráðnum málmi er hellt í mót. Við það kann einhver rómantísk sál að álykta sem svo að málmsteypa hafi ekkert breyst í aldanna rás. En við þurfum ekki annað en sjá feiknstóran rafvæddan kranann sem liggur eftir endilöngu loftinu í Unit 9 skála Pangolin málmsteypunnar til að slá á slíkar hugmyndir. Málmsteyputæknin er í stöðugri endurnýjun og fagmenn eru stöðugt að þróa fljótvirkari, skilvirkari og nákvæmari aðferðir. Silfursteypurnar á þessari sýningu eru gerðar með nýrri lofttæmitækni sem verið er að prófa í Pangolin-málmsteypunni. Menn reyna stöðugt að finna leiðir til að komast nær yfirborðsáferð frummyndar.

Jonathan Kenworthy var slíkt undrabarn í leirmótun að hann fékk inngöngu í Royal College einungis ellefu ára gamall. Í verki hans sem nefnist Stúlka frá Afganistan er að finna ótrúlega fjölbreytta meðhöndlun og ummyndun efnisins. Svipaða undanlátssemi efnisins er að finna í verki Williams Tuckers, Dansmær í anda Degas, þar sem listamaðurinn leggur til grundvallar einstakt atriði í verki eftir Degas, og verki Alison Wilding Úlfur (Í haldi), þar sem einungis trýnið er mótað skýrt og greinilega.

Listamennirnir leika sér einnig með mismunandi stærðir og litbrigði. Fóstur eftir Anthony Gormley sýnir 21 dags gamlan fósturvísi á þeim tímapunkti þegar frumurnar taka á sig mannsmynd; þó er fósturvísirinn enn smærri í raunveruleikanum. Í verki Daniels Chadwick, Móðir og barn, er mótífið hins vegar smækkað niður úr öllu valdi. Verkið er áferðarríkt, djúprautt og skjannableikt á litinn, og líkist mest amöbu eða frumukjarna í smásjá. Angus Fairhurst á hér verk sem nefnist Afhjúpun, þar sem litbrigði eru notaður til að búa til mjög svo girnilega eftirmynd bjúgaldins. Flestir þátttakenda kjósa þó að virða eigindir efniviðarins.

Lynn Chadwick, sem bæði er aldurforseti þátttakenda og faðir áðurnefnds Daniels, er í hópi þeirra síðastnefndu. Hann átti stóran þátt í stofnun Pangolin-málmsteypunnar. Rungwe Kingdon lærði fag sitt hjá Chadwick, er hann aðstoðaði hann við málmsteypu í Lypiatt Park í næsta nágrenni. Enn bankar Kingdon upp á hjá læriföður sínum á degi hverjum til að spjalla við hann. Skúlptúr Chadwicks á sýningunni er einkennandi fyrir hann; sýnir tvær verur á hraðferð, valdsmannslega karlveru og kvenfígúru, báðar með kubbsleg höfuð.

Chadwick er í hópi alþjóðlega þekktra myndhöggvara sem nú fer óðum fækkandi, sem á sjötta áratugnum innleiddu eins konar ,,nýja bronsöld" í breskt listalíf. Á þeim árum voru þeir gjarnan spyrtir saman í vitund breskra listunnenda, Chadwick og góðvinur hans Kenneth Armitage, sem lést í janúar 2002. Armitage vannst tími til að leggja sýningunni til gifsmynd af Manni með upprétta handleggi frá öndverðum sjötta áratugnum. Samvinna hans og Pangolin-málmsteypunnar síðustu tvö árin sem hann lifði, þegar þrjár stærstu höggmyndir hans voru steyptar þar í brons, var hápunktur lífs hans og listferils.

Með verkum sínum greiddu ,,bronsaldarmenn hinir nýju" götu þeirra myndhöggvara í Bretlandi sem komu í kjölfarið. Fáir listamenn á hans aldri hafa notið viðlíka velgengni á alþjóðlegum vettvangi eins og Damien Hirst. Verk hans, Depurð; sýnir hönd sem heldur á opnu pilluglasi; út úr glasinu vella pillurnar. Er hér um að ræða hjálparhönd einhvers eða stirnaða hönd manneskju sem þegar er búin að fyrirfara sér? Listamaðurinn eftirlætur áhorfandanum að skera úr um inntak verksins.

Skúlptúr Steve Hurst, Lífrænt reiknilíkan, mynd af pari í faðmlögum, er að mörgu leyti merkilegur gripur. Kennari Hursts var Albert Angeloni, sérfræðingur við málmsteypudeild Royal College of Art. Það eimir enn eftir af dulsmálum og ævafornri gullgerðarlist í málmsteypu og Angeloni var frægur fyrir það hversu leynt hann fór með aðferðir sínar. Fyrir tilstilli Hurst varð Pangolin-málmsteypan aðnjótandi að a.m.k. einhverjum hluta þeirrar "galdralistar".

Síðan má geta þess að Claude Koenig tekur sjálf þátt í sýningunni með verki sem nefnist Venus frá Cocoom, en með þátttöku sinni treystir hún enn frekar sambandið milli málmsteypunnar og listamannanna. Loks má segja að Sue Freeborough reki endahnútinn á framlag fígúratífra listamanna til sýningarinnar með verki sínu Höfuðáttir, sem er tilbrigði um hinn fagurlimaða Vítrúvíusarmann Leonardos da Vinci, nema hvað hennar maður er feitur og pattaralegur.

Í sjálfu sér er öll list "huglæg" og "óhlutlæg", en þessi annars óljósu hugtök má nota til að greina á milli ólíkra tegunda myndlistar. Óhlutlæg verk eru í minnihluta á þessari sýningu, en meðal þeirra eru þó verk eftir ekki ómerkari listamenn en þá Nigel Hall, William Pye og Phillip King, sem nú er forseti Konunglegu akademíunnar.

Í dag er mjög í tísku meðal innvígðra að kenna allt mögulegt við "skúlptúr". Velgengni Pangolin-málmsteypunnar er andsvar við þessu fimbulfambi. Skúlptúrar eru hlutir, og ljóst er að hlutir búa enn yfir áhrifamætti sem virkar bæði á listamenn og almenning. Listamenn finna hjá sér þörf til að búa til hluti og við listnjótendur finnum hjá okkur ámóta þörf til að berja þá augum og fara um þá höndum.

,,Sýning á smáum og fáguðum hlutum er samþjöppun hlutveruleikans," segir Rungwe Kingdon. ,,Sjáum bara Venus frá Willendorf; hún er örsmá en þó hefur aðdráttarafl hennar ekki farið minnkandi á þeim 30.000 árum sem liðin eru frá sköpun hennar." Góður metall.

Eftir John McEwen

Aðalsteinn Ingólfsson þýddi.