Úr sögunni "Guðdómleg innri spenna og pína".
Úr sögunni "Guðdómleg innri spenna og pína".
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Teikningin er einhver eðlilegasta framlenging á hugmyndaflugi mannanna," segir Bjarni Hinriksson í samtali við ÞRÖST HELGASON en Bjarni gaf nýlega út bókina Stafrænar fjaðrir með nokkrum frumsömdum teiknimyndasögum.
ÍSLENSKAR myndasögur eiga sér ekki langa og mikla hefð. Þó hefur verið starfandi hópur manna frá árinu 1990 undir heitinu Gisp! sem hafa gefið út myndasögublöð og -bækur. Nýlega kom út bók á hans vegum eftir Bjarna Hinriksson er nefnist Stafrænar fjaðrir. Hún inniheldur fimm myndasögur og tvær myndaraðir sem allar fjalla með einum eða öðrum hætti um skáldskap eða sköpun og orð, eins og Bjarni segir.

"Upphaf þessara sagna má rekja til þess að árið 1995 bað Friðrik Rafnsson, þáverandi ritstjóri Tímarits Máls og menningar, bað mig að gera teikningar sem nota mætti til að myndskreyta tímaritið, án þess þó að þær vísuðu sérstaklega til greinanna sjálfra. Hann vildi teikningar í tímarit sem fjallaði um orð og mér fannst áhugavert að velta manninum fyrir mér í myndum, þá sérstaklega manninum hér á Íslandi, og samskiptum hans við bækurnar og orðin. Ég var öðrum þræði að fjalla um það hvernig sögur verða til, um höfundinn og glímu hans við orðin. Þessar vangaveltur náðu hápunkti sínum í "Bókaeyjunni", þar sem höfundurinn rær í orðahafi og berst við bókina, kannski bókina í sjálfum sér eða sjálfan sig í bókinni, áður en hann nær sáttum við sjálfan sig og fer að senda frá sér bækur eins og flugfiska."

Fljúgandi höfundar og persónugerð orð

Umfjöllunarefnið eru orð þótt þú sért myndasöguhöfundur?

"Í Stafrænum fjöðrum eru orðin frekar persónur en umfjöllunarefni. Líklega er þetta mitt prívatuppgjör við bókmenntaeyjuna Ísland og tilraun til að finna myndirnar sem búa í orðunum. Þetta á sérstaklega við um eldri sögurnar. Í "Dauðum stöfum" er kveikjan að sögunni sú fullyrðing margra rithöfunda að sögur þeirra skrifi sig sjálfar og lifi sjálfstæðu lífi. Þá er stutt í að orðin geti snúist gegn manni, ekki satt? Rithöfundarnir í "Dauðum stöfum" fljúga á bókavængjum sköpunar sinnar og ég vinn áfram með fljúgandi höfunda í næstu sögum en þar er þörfin fyrir að persónugera orðin ekki lengur til staðar þótt ég haldi ennþá í frelsið sem fylgir því að leyfa sögupersónunum að fljúga."

Getum við sagt að á Íslandi hafi máttur orðsins löngum verið meiri en máttur myndanna?

"Ég trúði því að minnsta kosti fyrst þegar ég hóf nám í myndasögugerð í Frakklandi og fannst skólafélagar mínir byggja á aldalangri tilfinningu fyrir teikningu sem okkur skorti á Íslandi og að bakgrunnur minn væri fyrst og fremst bókmenntir. Þegar ég síðan áttaði mig betur á menningarheimi félaga minna og áhrifavöldum þeirra sá ég að hlutirnir voru ekki svona einfaldir og að það væri engin ástæða til að grípa til þægilegra einfaldana um menningareinkenni þjóðanna í persónulegri leit minni að því samspili mynda og texta sem hentaði mér. Þar hef ég hins vegar verið lengur að ná valdi á myndinni en orðinu. Ekki myndfrásögninni, hana hef ég alltaf haft í mér, heldur teikningunni sjálfri. Eftir því sem tölvan hefur orðið mér mikilvægara verkfæri við gerð sagnanna hefur skilningur minn á teikningu breyst. Það má teikna með svo mörgu öðru en bara línunni. Smátt og smátt hef ég farið að vinna meira út frá myndinni þegar ég er að gera myndasögur. Þar á ég við að myndin þjónar ekki lengur bara söguþræðinum heldur getur haft afgerandi áhrif á framvindu hans. Og sennilega er það hætt að skipta mig nokkru máli hvort kemur fyrst, mynd eða orð. Stundum sprettur heil saga upp af einni mynd. Stundum sprettur hún af einu orði. Þetta er stanslaus leit að orðinu í myndinni og myndinni í orðinu og töfrunum sem verða til þegar þetta tvennt rennur saman."

Spennusögur, dægurmálasögur og súrrealísk dauðamelankólía

Þú fjallar meðal annars um sköpunarmáttinn í bókinni?

"Já, mér finnst að togstreitan sem fylgir því að skapa, sérstaklega í svo margbrotnum miðli sem myndasögunni, megi stundum skila sér inn í söguna sjálfa. Hins vegar á þetta fyrst og fremst við um "Bókaeyjuna." Ef ég leyfi mér að setja merkimiða á sögurnar myndi ég segja að "Dauðir stafir" væri spennu- og átakasaga, "Gróðagen" og "Guðdómleg innri spenna og pína" dægurmálasögur með þjóðsögulegu ívafi og "Cielo Palace" súrrealísk dauðamelankólía."

Sögurnar eru svolítið eins og skyndimyndir. Frásögnin er ekki endilega línuleg og rökleg, það er byrjað í miðju kafi og endirinn er opinn, felur ekki í sér neina lokaniðurstöðu. Hvers vegna velurðu þessa leið?

"Mér finnst þessi lýsing þín fyrst og fremst eiga við styttri sögurnar tvær með persónunum Tinnu og Tobba. Þær sögur eru nánast eins og ljóð og kemur þar margt til. Lengd þeirra gefur ekki tækifæri til rólegrar uppbyggingar, ég vildi koma miklu að og vinna með fleiri en einn þráð í einu, skapa stemningu og tilfinningu frekar en að segja skýrt afmarkaða sögu. Að auki hefur myndblöndunartæknin sem ég hef tileinkað mér og tölvan sem verkfæri gríðarlega mikið að segja því ég á auðveldara með að fara til baka í sögunum og breyta heldur en ef ég ynni þær með penna og pensli á pappír. Líklega eru þær myndasögur sem flestir kannast við hreinar frásagnarsögur þar sem spenna eða grín teymir söguna áreynslulaust áfram. Ég tel að sumar sagnanna í "Stafrænum fjöðrum" eigi næstum heima í þeim flokki. Kannski er uppsetning hverrar síðu og frásögnin frá ramma til ramma þannig að við fyrstu sýn virðast sumar sagnanna hafa nánast tilviljunarkennda framvindu en ef grannt er skoðað eru skýr tengsl milli orsaka og afleiðinga og ég læt aldrei frá mér sögu nema mér finnist ég hafa lokað hringnum í síðasta rammanum. Sagan verður að ganga upp fyrir mér, þótt sjálfur söguþráðurinn geti virst enda í lausu lofti. Einhver sagði um söguna "Cielo Palace" að þegar flett væri í gegnum hana virtist hún vera spennuþrungin átakasaga af ameríska hasarblaðaskólanum en við lestur hennar kæmi allt annað í ljós og þannig vil ég hafa það. Ég sækist ekki eftir því að gera lesturinn erfiðan en ekki er allt sem sýnist og lesandinn veit það fullvel, þótt hann leiti kannski oft eftir þægilegri afþreyingu þess sem hann þekkir."

Unnið með daglega lífið eða tilbúna heima

Þú byggir líka mjög á fantasíunni, þótt þú styðjist oft við sögulega eða samtímalega atburði. Er fantasían ekki mikilvægur þáttur í gerð myndasögunnar í gegnum tíðina?

"Jú, teikningin er einhver eðlilegasta framlenging á hugmyndaflugi mannanna. Leikmyndir, búningar og brellur eru ódýrar í myndasögum. Samt má ekki gera of mikið úr fantasíunni í myndasögunni. Þvert á móti má segja að undanfarin 10-15 ár hafi sögur af sjálfsævisögulegum toga einkennt framsæknar myndasögur beggja vegna Atlantshafsins. Sjálfur hef ég ýmist unnið með daglega lífið eða tilbúna heima, allt eftir því hvað hentar söguhugmyndunum. Spenntastur er ég fyrir því að skapa heim sem gæti verið okkar, einhvers konar draumkennda útgáfu á hversdagslífinu. Heim þar sem draugar, englar og menn með bókarvængi takast á við erfið álitamál lífsins. "Cielo Palace" fjallar fyrst og fremst um samband föður og sonar, um dauða og söknuð. Hin svokallað fantasía má aldrei vera þannig að lesandinn finni ekki í henni enduróm af eigin vangaveltum um lífið og dauðann. Þetta þarf að vera einhvers konar töfraraunsæi."

Í einni sögunni, Gróðagen, er fjallað um erfðafræði og Kári Stefánsson er meðal persóna. Það er grínaktugur tónn í sögunni en einnig gagnrýninn. Myndasagan hefur ekki mikið verið notuð á þennan hátt hér á landi. Eða hvað?

"Reyndar meira en maður gæti ætlað. Vandamálið er að myndasagan á Íslandi hefur þróast á slitróttan hátt og ekki verið mjög sýnileg. Strax á sjötta og sjöunda áratugnum var Haraldur Guðbergsson t.d. með skemmtilega samfélagsgagnrýni í stuttum sögum sem birtust í blöðum og tímaritum, sögur í myndasögublaðinu "Bandormi" á níunda áratugnum voru ansi beittar og í öllum útgáfum Gisp! hafa birst samtíðasögur með sterkri ádeilu og gagnrýni. Nægir þar að nefna sögur Þórarins Leifssonar. Hins vegar gætu dagblöð fært sér betur í nyt myndasöguformið hvað þetta varðar. Viðskiptablaðið hefur að vísu birt myndasöguræmur Halldórs Baldurssonar um nokkurra ára skeið og á lof skilið en þar með er það líka nánast upp talið. Myndasagan sem kjallaragrein er einstaklega máttug."

Myndmál að verða flóknara

Eru Íslendingar illa læsir á myndasögur?

"Íslendingar kunna að lesa myndasögur og þeir hafa gert það mjög lengi. Allir þekkja t.d. myndasöguáhuga og -þekkingu Megasar. Ef ég man frásögn Þórs Jakobssonar rétt teiknaði Jökull bróðir hans myndasögur við eldhúsborðið þegar þeir voru strákar. Væri fróðlegt að velta fyrir sér áhrifum myndasögunnar á leikritagerð Jökuls... Andrés Önd fékkst hér á dönsku áratugum saman og með útgáfu Tinna, Ástríks og annarra fransk-belgískra sagna á íslensku opnaðist nýr myndasöguheimur íslenskum lesendum. En síðan fór þetta versnandi. Útgáfa á Tinna og annarri franskri og belgískri klassík lagðist svo að segja af fyrir um 15 árum vegna harðrar samkeppni við myndböndin og útgefendur hér hafa ekki treyst sér til að halda þeirri úrgáfu áfram, hvað þá að vinna myndasögum fyrir fullorðna lesendur sess. Borgarbókasafnið hefur reyndar stofnað til myndasögudeilda í söfnum sínum og önnur söfn fylgt í kjölfarið sem er mjög þýðingarmikið. Og dagblöðin hafa aukið umfjöllun um myndasögur. Þekking á myndasögum hefur eitthvað aukist en stóra vandamálið er hversu lítið framboð er af íslenskum sögum.

Myndmál er hins vegar almennt að verða flóknara og það kann að þýða að sérstaklega eldri kynslóðir eigi erfitt með að átta sig á bókmenntum sem þessum. Það er alltaf eitthvað bil á milli mynda eða milli mynda og texta sem lesendur verða að fylla í. Ef þeir geta það ekki skilja þeir ekki hvað sögurnar merkja."

Í stað fordóma komið þekkingarleysi eða áhugaleysi

Er íslensk myndasöguhefð ekki fremur stutt?

"Jú, ég minntist á Harald og fleiri má tína til sem fengust við þetta upp úr miðri síðustu öld, td. Kjartan Guðjónsson, en eiginleg myndasögugerð á sennilega rætur sínar að rekja aftur til loka áttunda áratugarins og byrjun þess níunda. Bandormur, Bragi Halldórsson, Kjartan Arnórsson koma upp í hugann. Með tilkomu Gisp! varð sú grundvallarbreyting að um stund skapaðist vettvangur fyrir alla þá sem fengust við myndasögugerð. Myndasagan varð sýnilegri. Gisp!-hópurinn skipulagði víða sýningar og fyrirlestra og lagði grunninn að breyttri umfjöllun um myndasögur."

Þessi stutta hefð flækist kannski ekki mikið fyrir ykkur sem eruð að gera myndasögur nú?

"Nei, í stað fordómanna sem einkenndu alla myndasöguumræðu hér áður fyrr ríkir nú frekar þekkingarleysi og þegar verst lætur, áhugaleysi. Það er of snemmt að tala um íslenska hefð, myndasöguhöfundar hér tilheyra alþjóðlegri hefð. Styrkur íslensku myndasögunnar er að höfundar hennar fást við margs konar sköpun aðra en myndasögur og lifa og hrærast að stóru leyti utan myndasögunnar. Það getur verið mikilvægt þegar hefðin er að verða til. Tengslin við myndlistina er augljós, það þarf ekki annað en að líta á Gisp!-hópinn til að sjá þau. Að mörgu leyti hefur myndasagan átt greiðari aðgang að sýningarsölum en útgefendum. Hins vegar er orðið brýnt að íslenskir myndasöguhöfundar geti einbeitt sér að metnaðarfyllri verkefnum, lengri sögum sem festa tilveru þeirra í minni lesenda og kalla síðan á fleiri sögur."

throstur@mbl.is