"Allar rannsóknir á íslenskri menningu nú til dags sem ekki taka menningarlegan margbreytileika inn í myndina eru á villigötum." Myndin er af Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu.
"Allar rannsóknir á íslenskri menningu nú til dags sem ekki taka menningarlegan margbreytileika inn í myndina eru á villigötum." Myndin er af Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig verður hversdagsmenning að menningararfi? Af hverju er talað um þjóðmenningu og hvernig tengist hún þjóðríkinu? Og hvað er eiginlega átt við með þjóðarsál? Í þessari grein er leitað svara við þessum spurningum og um leið gerð grein fyrir þjóðfræði sem fræðigrein í sögu og samtíð.
ÞAÐ er ekki svo ýkja langt síðan þjóðfræðin varð sjálfstæð fræðigrein hér á landi. Hún varð ekki að sjálfstæðu fagi innan Háskóla Íslands fyrr en á næstsíðasta áratug 20. aldar. Auðvitað höfðu margir Íslendingar lagt hönd á plóginn löngu fyrr, bæði safnarar og fræðimenn, en þeir litu ekki á sig fyrst og fremst sem þjóðfræðinga, heldur eitthvað allt annað: presta, bændur, bókaverði og íslenskufræðinga. Því fer þó víðs fjarri að sá grunnur sem þjóðfræðingar hér á landi starfa á sé eingöngu íslenskur. Þjóðfræðin er einkar alþjóðleg grein. Segja má að þjóðfræðilegt sjónarhorn á samfélag og menningu markist af tvennu. Annað er stöðugur samanburður. Þjóðfræðingar nálgast öll sín viðfangsefni með því að setja þau í samhengi, leggja þau við hlið annarra sambærilegra fyrirbæra, ráða í líkindin og ólíkindin með þeim og lesa úr merkingu hlutanna, hvort sem í hlut eiga orð, athæfi eða efnislegir hlutir. Samanburðurinn nemur ekki staðar við landsteinana. Viðfangsefni þjóðfræðinga ganga að jafnaði þvert á öll mörk og landamæri, pólitísk, menningarleg og fagleg. Það er fáum kunnugra en þeim, að hugmyndir eru svo að segja aldrei þjóðlegar, né heldur þær myndir sem fólk gefur hugmyndunum, hvort sem það meitlar þær í málshætti, segir sögur, veitir þeim útrás í leikjum, hannar mynstur eða smíðar verkfæri. Hitt auðkennið á sjónarhorni þjóðfræðinga er að þeir beina sjónum fyrst og fremst að viðfangsefnum sem falla utan við opinbera menningu. Þjóðfræðin rannsakar það sem tekið er sem gefið; hún grennslast fyrir um forsendur þess sem þykir sjálfsagt, en er það ekki endilega, og spyr um mikilvægi þessara hversdagslegu forsendna mannlífsins. Eiginlega má líta á þjóðfræðina sem eins konar "hjáfræði", þar sem forliðurinn "hjá" er sömu merkingar og í orðunum "hjátrú" og "hjákona". Stofnanir samfélagsins - s.s. hjónabandsstofnunin - skilgreina sig út frá lögmæti, en neita öllu sem utan þeirra fellur um sams konar lögmæti. Þetta á sömuleiðis við trúarbragðastofnunina (sem samanstendur af þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum), heilbrigðisstofnunina og bókmenntastofnunina (forlög, bókaverslanir, fjölmiðlar, gagnrýnendur, o.fl.). Það er vegna þessarar afneitunar sem okkur eru tamin hugtök eins og hjátrú eða kreddur sem falla utan opinberra trúarbragða, hjálækningar eða skottulækningar sem falla utan opinbera heilbrigðiskerfisins og þjóðsögur sem falla utan bókmenntastofnunarinnar.

Þjóðfræðingar fást þannig oft á tíðum við það sem ekki fæst viðurkennt. Önnur dæmi um slík viðfangsefni eru sagnir og orðrómur, brandarar og gátur, alþýðleg heilsufræði, graffítí og tattú, en einnig hefðbundnir atvinnuhættir, drykkjuleikir og prakkarastrik, barnaglingur, matarhættir, fatnaður og "götutíska" og allra handa starfsgreinahefðir, svo eitthvað sé tínt til. Í sérhverjum hópi eru ýmsar hefðir af þessum toga sem rammar inn samskipti manna og þar sem hugðarefni hópsins birtast skýrt og greinilega. Þetta á jafnt við um verðbréfasala (orðrómur ræður miklu um gengi bréfa í kauphöllum) eins og bændur (sem þjóðsögusöfn og þjóðháttalýsingar síðustu alda snúast oftast um).

Þjóðfræðin og þjóðríkið

Frumkvöðull og faðir þess sem nú gengur undir heitinu þjóðfræði er oft talinn Johann Gottfried von Herder, þýskur hugsuður og heimspekingur. Herder var forsprakki "Sturm und Drang" hreyfingarinnar á þýskumælandi svæðum Evrópu um aldamótin 1800 og einn af megináhrifavöldum rómantísku stefnunnar á 19. öld. Á hans tímum töluðu þýskir aðalsmenn helst aðeins frönsku. Þeir voru og heimsborgarar í háttum, sem þýddi að þeir tileinkuðu sér franska hirðmenningu. Í vitum aðalsins lagði megnan daun af öllu því sem þýskt gat talist, enda velt upp úr flórnum, en af franskri siðmenningu lagði sæta angan af ilmolíum. Gegn þessu menningarástandi réðst Herder, aldrei með færri en þrjá penna á lofti í senn. Hann hélt fram ágæti alþýðumenningar sem oft tæki langt fram stirðnaðri kúnst hástéttanna. Menning alþýðunnar var sú tæra lind sem nýtt Þýskaland átti að sækja svölun sína í, ekki staðinn pollur fransks fyrirmennakúltúrs. Þýskir bændur og verkamenn voru að vísu ekki sömu heimsborgararnir og hefðarfólkið, en þeir stóðu báðum fótum á jörðinni og vissu sínu viti. Og söngvar þeirra voru niður aldanna, menntir og listir sem lærst höfðu mann fram af manni. Í hugmyndafræði Herders áttu þessir söngvar að verða uppspretta þýskrar endurreisnar. Þjóðlög og kvæði alþýðunnar urðu honum að yrkisefni í ritgerðum, hugvekjum og skáldskap. En Herder batt sig hins vegar engan veginn við þýsk þjóðkvæði. Hann vissi sem var að lög, kvæði og annað þjóðfræðaefni er landamæralaust. Árið 1778 gaf hann út stórt safn þjóðkvæða frá öllum heimshornum, sagnadansa, sagnaljóð, lýrík og margt fleira, í verkinu Stimmen der Völker in Liedern, Raddir þjóðanna í kvæðum.

Á meðan Herder var upp á sitt besta kvað rödd fólksins við í frönsku byltingunni svo undir tók um öll lönd. En þá brá svo við að Herder snerist öndverður gegn "söngvum" alþýðunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Þegar á hólminn kom var hugmyndin um "fólkið" honum hugleiknari heldur en fólkið sjálft. Þegar á leið var eins og popúlisminn fjaraði út í hugmyndafræði Herders, en þjóðernishyggjunni óx ásmegin að sama skapi (Herder smíðaði reyndar orðið "Nationalismus", þ.e. þjóðernishyggja). Það má segja að í arfleifð þessa forsprakka komi saman andstæðurnar sem síðan tókust lengi á í verkum þjóðfræðinga. Sporgöngumenn Herders í þjóðfræðinni hafa skipað sér einhvers staðar á milli þessara póla. Lengst af voru þeir ýmist virkir eða meðvirkir í uppgangi þjóðernishyggju víða um lönd, uppfinningu "þjóðmenningar" og þar með uppbyggingu þjóðríkisins. Sú saga speglar að mörgu leyti samband mannfræðinnar við nýlendustefnu, enda þarf ekki annað en að líta á landakort af Evrópu til að átta sig á að styrkur og útbreiðsla þessara systurgreina er bein niðurstaða af stjórnmálasögu 19. og 20. aldar: Mannfræðin hefur sterkasta stöðu í háskólum gömlu heimsveldanna, í Frakklandi, á Englandi, Spáni og Ítalíu, en styrkur þjóðfræðinnar er mestur í háskólum ríkja sem voru í mótun á 19. og 20. öld, á Norðurlöndum, Írlandi, Þýskalandi, en einnig í Eystrarsaltslöndunum, Ungverjalandi, Búlgaríu og ýmsum öðrum Evrópuríkjum sem eitt sinn voru austan járntjalds. Það var ekki fyrr en eftir lok síðari heimsstyrjaldar, og þó einkum eftir pólitískt umrót sjöunda áratugarins, sem þjóðfræðin gekk í gegnum róttæka endurskoðun í Evrópu, Norður-Ameríku og víðar. Gert var upp við fortíðina, þ. á m. hlutdeild þýskra þjóðfræðinga í hugmyndafræði Þriðja ríkisins. Í stað þess að byggja upp þjóðernishugmyndir tóku þjóðfræðingar nú til óspilltra málanna við að afbyggja þær. En þótt óhætt sé að fullyrða að flestir eða allir þjóðfræðingar nú til dags deili sannfæringunni um ágæti og mikilvægi hversdags- og alþýðumenningar, þá tekur því vitaskuld fjarri að allir fræðimenn í greininni deili lífssýn og skoðunum í veigamiklum atriðum. Eins og aðrar greinar getur þjóðfræðin því hvort heldur sem er verið róttæk, umbótasinnuð, íhaldssöm eða jafnvel afturhaldssöm fræðigrein. Þar veldur hver á heldur.

Þjóðfræði og þjóðmenning

Þótt meginviðfangsefni þjóðfræðinga sé óstofnanabundin, óopinber hversdagsmenning, þá er það ekki alveg einhlítt. Þættir úr þessari menningu eru nefnilega oft innlimaðir í opinbera menningu. Ferill ævintýra úr munnlegri hefð í bókmenntum, meðferð þeirra í ævintýrasafni Grimmsbræðra (það rit sem mesta útbreiðslu hefur á jarðkringlunni næst á eftir biblíunni) og í myndum Walt Disney, er ágætt dæmi um þetta. Svipuðu máli gegnir t.a.m. um graffítímyndina sem spreyjað var með mikilli viðhöfn að viðstöddum borgarstjóra á byggingu Máls og menningar við Vegamótastíg á Menningarnótt Reykjavíkur 1998 - skýrara dæmi um innlimun í stofnanabundna menningu verður vart fundið. Eins mætti telja til brandara úr almennri hefð sem lagðir eru Jay Leno í munn og rata þannig á sjónvarpsskjáinn, eða tattú á herðum og upphandleggjum fyrirsæta á tískusýningu hjá Giorgio Armani. Það er áhugaverð spurning hvað verður um óstofnanabundna menningu þegar hún er innlimuð í stofnanamenningu á opinbera sviðinu. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að benda á að sex binda verkið Þjóðsögur og ævintýri Jóns Árnasonar þykir miklu fínni pappír heldur en sögurnar sem þar eru skráðar þóttu á sínum tíma. Sögur sem gengu í munnmælum meðal alþýðu um miðja 19. öld voru smáðar af "betra" fólki sem taldi þær til merkis um fáfræði og hjátrú sem brýnna væri að uppræta en varðveita. Verkið sem kennt er við Jón Árnason er allt annars eðlis: Það er fermingjargjöf og stofustáss; það er hluti af opinberri, stofnanabundinni menningu, þótt munnlegu sögurnar sem þar eru bundnar í kápu og kjöl hafi eitt sinn tilheyrt óopinberri, óstofnanabundinni menningu.

Það er einmitt með þessum hætti sem svokölluð "þjóðmenning" er búin til. Þetta hugtak er ákaflega gildishlaðið. Þjóðmenning heyrir ávallt fortíðinni til (eins og þjóðlög, þjóðdansar og þjóðbúningar) og sem hugarsmíð er hún pólitískt haldreipi þjóðríkisins - sjálfstæðisbaráttan byggðist ekki síst á henni. Um leið byrgir hugtakið þó sýn á fleira í fortíð og menningu en það varpar ljósi á; það dregur upp mynd af stöðugleika og einsleitni sem aldrei var. Sem kunnugt er var þetta hugtak innréttað í hús Landsbókasafnsins við Hverfisgötu í Reykjavík, nú Þjóðmenningarhúsið, sem að sögn fyrrverandi menntamálaráðherra, Björns Bjarnasonar, er ætlað að skerpa sjálfsmynd Íslendinga sem þjóðar (pistill á bjorn.is, 23. apríl 2000), en forsætisráðherra, Davíð Oddsson, hugsar sér húsið sem "lögheimili" íslenskrar "þjóðarsálar" (Morgunblaðið, 26. apríl 2000).

Hugmyndin um þjóðarsálina, ásamt þjóðarlíkamanum, var liður í hugmyndafræði þjóðríkisins á 19. öld. Hún var notuð til að draga upp mynd af þjóðum sem náttúrulegum (og jafnvel yfirnáttúrulegum) einingum og breiða yfir þá misklíð og þær mótsagnir sem hugmyndin um þjóðina fól í sér. Það dylst enda engum sem gengur um salarkynni Þjóðmenningarhússins að sú valkvæða mynd sem þar er dregin upp af íslenskri sögu og þjóðmenningu er fádæma einsleit. Sem fyrr segir hefur þjóðfræðin átt sinn þátt í að skapa og skilgreina hugarsmíðina "þjóðmenningu". Meðal annars af þeim sökum hafa þjóðfræðingar á síðustu áratugum beint sjónum að menningarpólitík og þá einkum og sér í lagi pólitík menningararfsins. "Menningararfur" er nýlega samsett hugtak þar sem menning er tengd saman við eignarfyrirkomulag og eignarrétt, hlutgerð og færð til bókar. Þjóðfræðin er vel í sveit sett til að fjalla á gagnrýninn hátt um hugtök á borð við menningararf og notkun þeirra í stefnumótun, stjórnmálum, verslun og ferðaþjónustu.

Auðvitað er mörg matarholan og ég tek fram að ég hef alls ekkert á móti því að fólk sjái sér farborða eða að sveitarfélög bæti undirstöðum undir atvinnulífið með því að búa þjóðfræðaefni og aðra menningu í markaðsvænan búning. En við hljótum engu að síður að spyrja gagnrýninna spurninga um þetta nýja hugtak sem tröllríður menningarumræðu þessa dagana: "Menningararfur". Í mínum huga er menning fyrst og fremst mannamót; þar sem fólk kemur saman, þar finnum við menningu. Hún er með öðrum orðum félagsleg og ævinlega í deiglunni, hún er flæði en ekki hlutur. Dýnamískt menningarhugtak af þessum toga hefur rutt sér til rúms í þeim fræðum sem fjalla um menningu á síðustu áratugum, en það sér hver í hendi sér að þessi sýn á menningu er ósamræmanleg gamaldags hlutgerningu eins og felst í hugtakinu "menningararfur". Látum það samt vera, það er ekkert endilega slæmt að vera gamaldags. Alvarlegra er að hugmyndin um menningu sem arf kallar óhjákvæmilega á spurningar um hverjir eru erfingjar og hverjir ekki? Á hvaða forsendum á að meta það? Hverjir eru erfingjar íslenskrar menningar og hver er gerður arflaus með þeirri skilgreiningu?

Þjóðfræði og fjölmenning

Skáhallt á móti Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu stendur Alþjóðahúsið sem var opnað um þjóðhátíðarhelgina í fyrra. Alþjóðlegir fólksflutningar síðustu áratuga eiga sér engin fordæmi, nema ef vera skyldi í þjóðflutningunum miklu á 5. og 6. öld og að nokkru leyti í búferlaflutningum til Norður-Ameríku á 19. öld. Ásamt öðrum einkennum hnattvæðingar hafa þessir fólksflutningar gerbreytt hinu pólitíska landakorti og máð út landamæri sem til skamms tíma virtust óyfirstíganleg. Samfélögin eru enn að fóta sig í þessum nýja heimi, þar sem hnattvæðing er jafnmikil innan ríkja eins og á milli þeirra. Þau eru mislangt á veg komin með að stokka upp og laga sig að nýjum veruleika á pólitíska, félagslega og menningarlega sviðinu. Þjóðfræðaefni kemur hér alls staðar við sögu: Það hvort tveggja endurspeglar og mótar hvernig fólk hugsar um samband meirihlutans og minnihlutahópa (hér nægir að vísa til fordómafullra brandara, sem þó eru aðeins toppurinn á ísjakanum). Þá er mikið sótt í þjóðfræðaefni þegar búnar eru til táknmyndir sem eiga að lýsa sjálfsmynd sumra í samfélaginu, en útiloka aðra (mér dettur í hug auglýsing Landsbankans, "Við Íslendingar erum engum líkir..., sem nú hefur verið tekin af dagskrá). Menningarlegur margbreytileiki samtímans er einkar þýðingarmikið rannsóknarefni fyrir þjóðfræðinga hér á landi. Allar rannsóknir á íslenskri menningu nú til dags sem ekki taka menningarlegan margbreytileika inn í myndina eru á villigötum. Þjóðfræðaefnis var lengi vel einvörðungu leitað á meðal bændafólks og má af því sjá hvaða skilningur var þá lagður í orðið "þjóð". Íslenskir þjóðsagnasafnarar hafa líka hiklaust talið íslenska innflytjendur til Norður-Ameríku og afkomendur þeirra til "þjóðarinnar" í þessum skilningi og safnað sögum þeirra. En innflytjendur til Íslands sitja hins vegar á hakanum. Það er spurning hvenær þessir íslensku borgarar teljast nógu gildir til að þeir fái hlutdeild í íslenskri menningu. Það er þegnréttur þessara borgara að opinberar stofnanir sem láta sig þjóðfræðaefni varða sýni menningu þeirra og lífi í íslensku samfélagi engu minni áhuga en menningu og lífi annarra Íslendinga. Jafnframt er nauðsynlegt að rannsaka hefðir, sagnir og sameiginlega lífsreynslu annarra jaðarhópa. Þannig geta þjóðfræðingar hent á lofti möguleika "hjáfræðinnar" og lagt sitt af mörkum til að byggja opnara, réttlátara og betra samfélag, þar sem nóg pláss er fyrir allra handa manneskjur og fólki er tekið á þess eigin forsendum.

EFTIR VALDIMAR TR. HAFSTEIN

Höfundur er þjóðfræðingur.