Guðni Franzson heldur einleikstónleika í dag.
Guðni Franzson heldur einleikstónleika í dag.
"KJÚKLINGUR sveigir stein sem kallar á engla í spegli" er yfirskrift einleikstónleika Guðna Franzsonar klarínettuleikara kl. 15.15 í dag. Tónleikarnir verða á Nýja sviðinu í 15:15-röðinni.
"KJÚKLINGUR sveigir stein sem kallar á engla í spegli" er yfirskrift einleikstónleika Guðna Franzsonar klarínettuleikara kl. 15.15 í dag. Tónleikarnir verða á Nýja sviðinu í 15:15-röðinni. Guðni flytur fjögur verk: Spring Chicken, eftir Hauk Tómasson, Riflessioni eftir Arne Mellnäs, Calling Angels eftir Lars Graugaard og Flecte Lapis eftir Atla Ingólfsson. Tvö síðarnefndu verkin eru frumflutt.

"Síðustu vikur hef ég verið svo lánsamur að geta dregið mig í hlé frá íslenskum skarkala, siglt út og einbeitt mér innávið að þeim tóni sem leitar á sálartetrið," segir Guðni. "Við það vaknaði hjá mér þörf fyrir að grúska í nokkrum verkum eftir góða vini. Af þessum verkum flyt ég nú fjögur."

"Ég renndi Spring Chicken opinberlega í gegn fyrir rúmu ári, hafði þá ekki haft mikið næði til að vinna það í smáatriðum en hef núna í einangruninni spilað það daglega. Sennilega hefur Haukur stundað einhvern galdur þegar hann var að semja verkið, minnugur lífsreynslu minnar þegar ég át kjúklinginn í Brasilíu, kjúkling sem hafði verið slátrað eftir þriggja daga trúarserimóníu með trommum og "tilbehör". Ég fékk í magann daginn eftir!" En fiðurfé Hauks er Spring Chicken, nýgræðingur, byrjandi eða grænjaxl, samkvæmt orðabókinni sem þykir viðeigandi í upphafi vors.

Guðni hefur flutt Riflessioni nokkrum sinnum en aldrei fyrir Arne sjálfan. "Mig langaði alltaf að spila Riflessioni fyrir Arne, en af því getur ekki orðið, hérna megin móðu, því Arne kvaddi seint á síðasta ári. Þetta stykki hefur haft ansi mikil áhrif á mig, kannski fyrst og fremst tæknilega."

Lars Graugaard hefur unnið mikið með Caput-hópnum, þeir hafa m.a. hljóðritað geisladisk með verkum hans og hefur hann "farið víða og fengið frábærar viðtökur".

Guðni segir að Calling Angels sé í raun stórt verk þótt það sé bara fyrir eitt hljóðfæri. Fjórða verkið er Flecte Lapis. "Atli hafði samband fyrir nokkrum árum og sagðist langa að vinna frekar flókið verk fyrir klarínettu og tölvu á meðan hann dveldi í París. Ég svaraði auðvitað eins og hvert annað Spring Chicken: "skrifaðu bara það sem þér dettur í hug, ég spila allt" og þetta hafði ég fyrir," segir Guðni.