Áhugasamir virða fyrir sér muni Bretons sem boðnir verða upp í næstu viku.
Áhugasamir virða fyrir sér muni Bretons sem boðnir verða upp í næstu viku.
SAGNFRÆÐINGAR hafa fundið elstu brot sem vitað er um úr Niflungaljóði, en ljóðið er einn þekktasti þýski textinn frá miðöldum. Textabrotin fundust í Stift Zwettl klaustrinu í Austurríki.
SAGNFRÆÐINGAR hafa fundið elstu brot sem vitað er um úr Niflungaljóði, en ljóðið er einn þekktasti þýski textinn frá miðöldum. Textabrotin fundust í Stift Zwettl klaustrinu í Austurríki. Að sögn Charlotte Ziegler, sagnfræðingsins sem fann textann, hafði handritabrotinu verið komið fyrir í öskju ásamt öðrum miðaldatextum fyrir nokkrum öldum. "Fyrir um það bil tíu árum var mér gefin askjan til að skrá innihald hennar," sagði Ziegler. Textann var hins vegar svo erfitt að færa yfir á nútímaþýsku að það var ekki fyrr en nýlega sem verðmæti hans uppgötvaðist.

Alls voru tíu brot af ljóðatextanum í öskjunni, en Niflungaljóðið, sem er frá 12. öld, segir söguna af uppbyggingu og hruni Búrgundarveldisins í gegnum hinn goðumlíka Sigurð fáfnisbana. Ljóðið varð síðar grunnurinn að óperu Richards Wagners, Niflungahring.

Íbúð Bretons tæmd

ÞRÁTT fyrir rúmlega 30 ára mótmæli frá fjölda evrópskra listamanna og rithöfunda hefur íbúð súrrealistans André Breton verið tæmd. Stefnuskrá súrrealista var samin í íbúð Bretons 1924, en þær þúsundir af skjölum, teikningum, ljósmyndum og minjagripum sem íbúðin geymdi hafa nú verið flutt í geymslur og íbúðin, sem súrrealistar álitu listaverk út af fyrir sig verið eyðilögð.

Munirnir verða boðnir upp í næstu viku, en þeirra á meðal eru verk eftir listamenn á borð við Joan Miró, Max Ernst, René Magritte og Francis Picabia, auk 15.000 ljósmynda eftir Man Ray.

Heimspekingurinn Jacques Derrida hefur unnið að því að efna til götumótmæla er uppboðið hefst.

"Þetta var meira en heimili rithöfundar," sagði Derrida. "Þetta var rými sem búið var til úr sköpunargleði og löngun, þarna varð nýr hugsunarháttur til, tilraunastarfsemi sem Breton sjálfur kallaði "art magique"."

Aðeins einn veggur úr íbúðinni hefur verið varðveittur og fluttur í Pompidou safnið, en sá hluti sem bjóða á upp er metinn á tæplega 1,6 milljarða króna.

Malevitsj í Guggenheim

GUGGENHEIM-safnið í New York mun á næstunni hýsa sýningu á verkum Kasimír Malevitsj, eins af meisturum rússnesku avant garde stefnunnar. Á sýningunni verða verk sem ekki hafa verið sýnd á Vesturlöndum áður, en Malevitsj var í hópi merkari fórnarlamba ofsókna Stalíns.

Mörg verkanna voru í eigu Nicolaj Kardsíev, rússnesks gagnrýnanda sem var vinur fjölda leiðandi rússneskra framúrstefnulistamanna. Varðveitti hann verk þeirra á laun, á þeim tímum er slík söfnun var bönnuð og talin til spillingar eignastéttanna.