Samfélag Rauðu hattanna eru samtök eftirlaunakvenna sem starfrækt eru um öll Bandaríkin. Hópurinn þekkist af rauðum höttum og skrautlegum klæðnaði en það er stefna þeirra að mæta fullorðinsárunum með kímnigáfunni öðru fremur. Undir yfirborði gervisins segj
Samfélag Rauðu hattanna eru samtök eftirlaunakvenna sem starfrækt eru um öll Bandaríkin. Hópurinn þekkist af rauðum höttum og skrautlegum klæðnaði en það er stefna þeirra að mæta fullorðinsárunum með kímnigáfunni öðru fremur. Undir yfirborði gervisins segj
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um það leyti sem lokafrestur Íraksstjórnar var að renna út lögðu tveir ungir menn á bandaríska þjóðvegi hlaðnir ógrynni myndavéla, upptökutæki og fartölvu. Kúrekar, Elvis-eftirhermur, eyðimerkurlistamenn og fleira venjulegt fólk er meðal þess sem varð á vegi þeirra. Í þessari fyrri grein er meðal annars rætt við rakara við þjóðveg 66 og sagt frá gistingu á Budget Motel.
TÆKIFÆRI til að ferðast um Bandaríkin með hæfileikaríkum ljósmyndara og góðvini í þokkabót var nokkuð sem ég greip fegins hendi. Að leggja í ferðina þegar Bandaríkin og "bandalag hinna viljugu" voru að fara í vægast sagt umdeilda herför kveikti þó blendnar tilfinningar. Þegar ljóst var hvert stefndi sáum við fram á að tilfallandi mannlífsskoðanir í landi frelsisins yrðu ef til vill (litaðar) gegnsýrðar ógnvænlegum atburðum í fjarlægu landi þar sem hundruð þúsunda Bandaríkjamanna stóðu gráir fyrir járnum. Þeir sem heima sátu lifðu við hryðjuverkaógn og biðu stríðs sem meira en þriðjungur þjóðarinnar var mótfallinn.

Eftir sem áður ákváðum við að stinga okkur í suðupottinn og rýna í ef ekki væri nema lítið brot af þeim stórbrotnu ímyndum sem flæða yfir okkur frá Bandaríkjunum og sjá glefsur af því margbrotna hversdaglífi sem þrífst að baki þeirra. Auk þess brunnu á okkur ótal spurningar um viðhorf Bandaríkjamanna til stríðs við Írak, spurningar sem skoðanakannanir geta í eðli sínu ekki svarað. Þótt ákvörðunarstaðir væru næstum aukaatriði í huga okkar þótti betra að við tækjum einhverja stefnu og þegar óendanlega fjölbreytt landflæmið blasti við stóð einn staður á kortinu uppúr, lítill bær í miðri Arizona, Bagdad að nafni.

Loftleiðir og hraðbrautir

Ferðasögur nútímans eiga sér ósjaldan upphaf á flugvöllunum og í háloftunum. Það er því kannski við hæfi að hefja söguna á Newark-flugvellinum í New York þar sem komið er langt fram yfir miðnætti og CNN er stillt á ærandi hljóðstyrk. Meðan stríðsmaskínan rennur í gang sitja flugfarþegar meira og minna sofandi í plaststólum flugstöðvarinnar. Í gegnum kallkerfið er mönnum gert að tilkynna alla grunsamlega hegðun og ég velti því fyrir mér hvort síendurtekin jójó-brögð fullorðins manns með hornaboltahúfu gætu fallið undir það.

Á flugi ber hins vegar lítið á ótta og taugatitringi. Farþegum eru sýndir gaman- og fréttaþættir þótt í þeim sé tíðindalaust af Persaflóanum. Nei, allt er með ró og spekt í háloftunum meðan svifið er yfir endalaust bútasaumsteppi túna, akra og haga og sessunautur minn, Texasbúi, les Ducks Unlimited af miklum áhuga. Í fábreytninni er ég auðveld bráð söludeildar flugfélagsins Sky Mall eða himnakringlunnar sem vill selja mér pylsuristavél (hot dog toaster) og aflíðandi bílpalla fyrir gamla og þreytta hunda. Einhvern veginn stenst ég freistinguna enda í öðrum erindagjörðum.

Á George Bush-flugvellinum í Houston í Texas varar kallkerfið við móðgunum og meinhæðni. Slíkt hefði alvarlegar afleiðingar í för með sér og væri jafnframt refsivert með lögum. Svona til vonar og vara ítreka ég þetta við ferðafélaga minn.

Eftir þrjár flugferðir erum við loksins komnir í fótspor manna eins og Jacks Kerouacs sem vörðuðu leið þeirra sem síðar sóttu í ævintýri á vegum úti, á puttanum eða amerískum köggum og með takmörkuð fjárráð. Nú er "Fordinn" reyndar framleiddur í Þýskalandi, víða eru vegir tálmaðir vegna hættuástands og undir stýri er fölleitur Íslendingur. Okkar bíður margra daga ferð um misfrjálsa þjóðvegi og hraðbrautir miðsuðurríkjanna.

Kúrekar og indíánar

Við yfirgefum hraðbrautir í bili og fylgjum vesturlandamærum New Mexico og yfir mikil klettafjöll úr rauðlituðum sandsteini með fölleitum runnum á víð og dreif.

Við þræðum krókótta vegi snæfjalla og furuskóga Apache-verndarsvæðisins. Á stríðsárunum reið fjöldinn allur af ungum mönnum af þessum slóðum til herstöðva í Arizona þar sem þeir gerðust dulmálssérfræðingar og notuðust við sérsniðna útgáfu af Apache-máli. Hérna megin girðingar sést ekki vottur af lífi frumbyggjanna nema stakur verkamaður aftan á pickup-trukki, nokkrir kálfar í útjaðri skógarins og æstur frumbyggjasöngur í svæðisútvarpinu. Gamall þjóðvegur leiðir okkur hátt til fjalla þar sem ung kona frá New York rekur vegasjoppu og bensínstöð. Með hörðum Brooklyn-hreim segist hún hafa flutt hingað stuttu fyrir árásirnar 11. september 2001. Hér unir hún sér vel í fjallakyrrðinni og í félagsskap viðræðugóðra viðskiptavina sem eiga leið hjá. Hún spyr okkur hvert ferðinni sé heitið og segir svo: "Brátt verður ekkert að sjá nema eyðimörkina og veltirunna (tumbleweed)."

Eftir margra klukkutíma keyrslu komumst við að því að snöggsoðin náttúrufarslýsing New York-búans var ekki fjarri lagi. Að nokkrum skógræktarsvæðum slepptum ná sandbreiður og runnar eins langt og augað eygir og erfitt er að ímynda sér á hverju nautgripirnir lifa sem hér er eru ræktaðir í miklum hjörðum. Smáþorp á þessum slóðum, líkt og Old Horse Springs, Pie Town og Quemado, bera þess merki að við erum komnir á sagnaslóðir "kúreka" og "indíána" sem lifa í bland við það spænskættaða fólk sem í auknum mæli setur mark sitt á bandarískt samfélag.

Á vegamatsölustaðnum Quemado Diner eru fulltrúar þessara hópa saman komnir. Þar situr aldraður maður með kúrekahatt og súrefniskút og hlær að stórkarlalegum hetjusögum lítils spænskættaðs drengs af því þegar hann snaraði skröltorminn sem beit afa hans. Amman, sem augljóslega er frumbyggi, hristir hausinn en á næsta borði sitja tvær fölleitar unglingsstúlkur í eigin heimi og ræða um hjónaband og skilnað. Á korktöflu við afgreiðsluborðið er auglýst eftir sjálfboðaliðum í löggæslustörf, í herinn og eftir vinnumönnum á nautgripabýli. Í bakgrunni suðar í útvarpinu og verið er að segja frá slysförum hermanna og auknu sprengjuregni yfir Bagdad. "Ég get ekki hlustað á þetta," segir gengilbeinan og slekkur.

Santa Fe hraðlestin og stríðið (séð frá Budget Motel)

Við komum til Gallup í New Mexico seint að kvöldi og keyrum í fyrsta skipti fram á brautarteina Santa Fe-leiðarinnar. Herbergið okkar á Budget Motel er eins og nafnið gefur til kynna íburðarlítið en óvenju hreinlegt. Lágt verð gististaðarins skýrist enn frekar þegar hin fræga lest þeysist hjá, að því er virðist í gegnum baðherbergið okkar, og er hávaðinn og skjálftinn í samræmi við það. Við félagarnir erum reyndar hæstánægðir með herbergið og snúum okkur að því að koma í gang stærðarinnar sjónvarpstæki frá áttunda áratugnum.

Íslendingi, sem á aðeins tveimur sjónvarpsstöðvum að venjast, er það mikil raun að standa frammi fyrir vali á mörgum tugum sjónvarpsstöðva. Hinn heimsborgaralegi Dani tekur því fljótt völdin og við flökkum á milli stöðvanna í leit að nýjustu fréttum af innrásinni. Ekki þurfum við að leita langt enda virðist önnur hver stöð helguð átökunum. Áherslur í fréttaflutningi koma okkur hins vegar einkennilega fyrir sjónir. Sá þriðjungur þjóðarinnar sem ekki hefur lýst yfir stuðningi við stríðið, og virðist ætla að færast nær fjórðungi, fær oftar en ekki léttvæga umfjöllun. Stundum er jafnvel gefið í skyn að slíkt sé smekklaust en nauðsynlegur fylgikvilli lýðræðisins.

Bandarískur háskólanemi frá San Francisco sagði okkur síðar frá þeirri skoðun sinni að í raun væri þjóðin klofin í afstöðunni til utanríkisstefnu Bush-stjórnarinnar og flests annars sem frá henni kæmi. Þeir sem henni væru andsnúnir fengju hins vegar lítið rými í fjölmiðlum landsins. Að PBS undanskilinni, ríkissjónvarpi Bandaríkjamanna sem helst höfði til frjálslyndra og menntamanna, dragi sjónvarpið taum íhaldssamra repúblíkana. "Stundum finnst okkur eins og við séum ekki til," segir hann, "og að öll okkar pólitíska tjáning, mótmæli margra milljóna manna, nái ekki út fyrir helstu vígi frjálslyndra demókrata."

Fréttastöðin CNN hefur ekki farið varhluta af slíkri gagnrýni en hún sat nánast ein að kjötkötlunum í Persaflóastríðinu 1991. Nú virðist aukin samkeppni lýsa sér í æ meiri getgátum um "árangur" bandaríska og breska hersins. Við fáum því lítinn botn í málið inni á mótelherberginu eins og við er að búast. Það er reyndar á CNN sem við í fyrsta skipti sjáum fréttamann á vettvangi sem hyggst ræða við slasaða íraska borgara á sjúkrahúsi í útjaðri Bagdad. Hann er í þann veginn að ræða við slasað barn þegar klippt er á fréttina. Við tekur ungur og snyrtilegur fréttamaður sem tilkynnir með miklum æsingi, þar sem hann stendur í næturmyrkrinu, að loftvarnarflautur Bagdad séu aftur komnar af stað. Það svífur svefnhöfgi á okkur herbergisfélagana sem höfum þegar séð nægju okkar af stríðsfréttum og brátt dormum við undir síbyljunni og taktinum í Santa Fe.

Þjóðvegur 66 og Engill á rakarastofunni

Okkur til mikillar furðu vöknum við endurnærðir eftir næturskjálftana, jöplum á beef jerkey, þ.e. þurrkuðu nautakjöti, og dollara-tamalí sem er nokkurs konur pönnukaka vafin inn í maíslauf. Við tökum þjóðveg 66 yfir til Arizona þar sem jarðíkornar grafa í sundur skrælnaðan jarðveginn og kýrnar bíta gras við vatnsból. Route 66 eða leið 66 er byggð á línu sem Thomas Jefferson dró þvert yfir Bandaríkin. Hún kom þó fyrst á kortið á Armistice day, vopnahlésdaginn, 1926 þegar Bandaríkjamenn halda upp á lok fyrri heimstyrjaldarinnar. Leiðin, sem kölluð er móðir allra vega, var ein aðal umferðaræð landsmanna allt fram til 1985 þegar hún var aflögð og I-40 hraðbrautin tók við. Eftir sátu mörg þorp í fjárhagsvanda og þjóðvegurinn, sem áður tengdi strönd við strönd, liðaðist í einmanalega vegarkafla.

Eitt þeirra þorpa sem sá fram á erfiða tíma í kjölfar breytinganna var fyrrverandi lestarstöðvarbærinn Seligman. Það var jafnframt fæðingarstaður Sögufélags þjóðvegar 66 eða Historic Route 66 Society. Seligman hefur því fengið heiðurinn af því sem margir kalla endurfæðingu þjóðvegarins sem fólst í alhliða viðhaldi og kynningu á þeirri sögu og menningu sem hann hafði upp á að bjóða. Á rakarastofu einni á aðalgötu bæjarins rekumst við á einn stofnanda samtakanna, Angel Delgadillo. Hann tekur vel á móti okkur, eins og öllum gestum sínum, og hefur sitt hvað að segja um "Bandaríki gærdagsins" annars vegar og nútímann hins vegar. Alla sína löngu ævi hefur hann búið við þjóðveg 66. Við tyllum okkur við útihurðina og meðan hann rifjar upp gamla daga fylgja augun hverjum þeim bíl sem keyrir fram hjá.

Ein fyrsta minning hans er af því að bíða eftir bílaumferðinni á kvöldin. Þá streymdu bílljósin gegnum svefnherbergisgluggann og Angel skemmti systkinum sínum með skuggamyndum á hvítum veggjunum. Stríðsárin eru honum sérstaklega minnisstæð. "Það var af einhverjum ástæðum þannig að hermönnum af austurströndinni var gert að mæta til herþjónustu á vesturströndinni og öfugt. Þegar þessir menn fengu frí húkkuðu þeir far til baka um þjóðveg 66. Það tók styttri tíma en að ferðast með rútunni enda ekkert mál að fá far. Það var mikið líf hér í þá daga." Angel hefur verið aðalrakari bæjarins frá tvítugsaldri og segist hafa fengið að heyra margt án þess að spyrja. Hann hafi þó forðast hitamál í samræðum sínum við kúnnana: trúmál, kynþætti og sérstaklega pólitík.

Þegar kemur að því að ræða við hnýsna útlendinga lætur hann hins vegar engan bilbug á sér finna. Hann virðist hafa eitthvað að segja um hvern þann forseta sem setið hefur frá því hann fór að klippa upp úr 1950. "Þá var Ike (Dwight D. Eisenhower) að taka við völdum og hann vildi hraðbrautir eins og Hitler. Frekari stríð kölluðu eftir flutningamætti Autobahn, hins mikla böls þjóðveganna." Meira að segja forsetafrúr eins og Lady Bird Johnson fá að heyra það. "Hún heimtaði að skilti þjóðvegarins yrðu tekin niður til að betur mætti njóta náttúrufegurðar. Hún hafði kannski nokkuð til síns máls en við tók einsleitni í skiltagerð sem skorti alla fegurð."

Þegar ég spyr hann álits á straumi síðhærðra ungmenna um þjóðveginn á sjöunda áratugnum hugsar hann sig um drykklanga stund. "Í fyrstu hélt ég að þau væru að flýja lífið, herþjónustu og aðrar skyldur. En nei, þau höfðu hundrað prósent rétt fyrir sér. Þetta er Ameríka, land hinna frjálsu og þau voru að lifa sínu eigin lífi. Og áður en því var öllu lokið höfðu þau kennt okkur að öll þessi stríð voru fyrst og fremst pólitík. Og það var rétt af þeim að mótmæla."

Angel er heitt í hamsi og hann vandar Bush ekki kveðjurnar: "Það er mikið um mótmæli um þessar mundir en nú með öllu þessu sjónvarpi er staðan erfiðari. Ef leiðtogar vilja í stríð þá bara fara þeir í stríð. Nýverið lýsti öldungadeildarþingmaður yfir andstöðu sinni við stríðið og sjónvarpið og þingmenn ásökuðu hann um að styðja ekki forsetanum. Ég spyr bara," heldur Angel áfram, "hvers vegna var þessi maður kosinn ef ekki til að til að segja skoðun sína; segja skoðanir okkar fólksins. Svo segja sumir: "Þetta eru stríðstímar." Hvað með það? segi ég. Tjáið skoðanir ykkar hvort sem er í stríði eða friði. Hvort sem við erum í Ameríku, á Íslandi eða hvar sem er, tjáum skoðanir okkar vegna þess að þegar við hættum því tekur við lögregluríki og einræðisstjórn."

Í þessum orðum töluðum rís Angel á fætur til að afgreiða kúnna. Þeir skiptast á góðlátlegum kveðjum og kúnninn biður um bæjarblaðið. "Gjörðu svo vel. 50 cent í krukkuna, takk. Láttu eins og heima hjá þér," og aftur snýr hann sér að mér. Angel segist vera orðinn almannatengslarakari og að hann hafi hætt að klippa fyrir nokkrum árum. Hann segist þó klippa og raka hvern þann sem vill kynnast þjóðveginum og Bandaríkjum gærdagsins: "Það er mín aðferð til að halda veginum lifandi." Með það í huga kveðjum við Angel og leggjum nýrakaðir af stað út í Bandaríki dagsins í dag. Aftur er haldið út í eyðimörkina og nú til Bagdad.

Höfundur er þjóðfræðingur.