Rabbe Enckell: Sjálfsmynd 1967.
Rabbe Enckell: Sjálfsmynd 1967.
Hundrað ár eru liðin frá fæðingu Rabbe Enckells, eins þeirra skálda sem ruddu nútímaljóðinu braut í Finnlandi. JÓHANN HJÁLMARSSON veltir fyrir sér hlutverki Enckells og stöðu hans nú, ekki síst með ummæli landa hans að viðmiðun.
Í BIRTINGI, 2. hefti 1955, birtu Hannes Sigfússon, Einar Bragi og Baldur Óskarsson þýðingar sínar á ljóðum tveggja finnskra skálda: Edith Södergran og Elmer Diktonius.

Þetta voru hinir miklu brautryðjendur en athygli vakti að það vantaði Gunnar Björling (hans er þó getið lítillega í kynningu) og Rabbe Enckell.

Mest er þýtt eftir Edith Södergran, aðeins eitt ljóð eftir Diktonius.

Edith Södergran hefur löngum verið í fararbroddi og vegur Gunnars Björlings er nú mikill. Sumir dá Elmer Diktonius mjög og telja hann vanmetinn. Sérstöðu hefur Rabbe Enckell sem hallað hefur á þótt hann teljist jafnan í röð fremstu skálda. Ástæðurnar eru m.a. þær að Enckell lenti í andstöðu við sér yngri menn og tók upp afturhaldssemi í afstöðu til myndlistar en hann var líka málari.

Rabbe Enckell er ekki að finna í Norrænum ljóðum (1972) Hannesar Sigfússonar en í Annarlegum tungum (1948) Anonymusar (Jóhannesar úr Kötlum) er eitt ljóð eftir Rabbe Enckell: Hafið eltir minningar sínar.

Í ljóðinu sem ekki er gallalaus þýðing er kraftur. Setningin "heimta af orðagjálfrinu / flauilsmjúka slikju hins fullkomna laufs" hittir í mark og fleira sem í senn er einfalt og flókið í myndbeitingu.

Undirritaður birti síðan í þýðingabók sinni Af greinum trjánna (1960) eitt ljóð eftir Rabbe Enckell, ljóðið um fyrsta kálf sumarsins.

Þetta er skrifað eftir minni. Kannski hafa fleiri þýtt Rabbe Enckell.

Í Svíþjóð kynntist ég fleiri ljóðum Enckells og ég var fljótur til að setja hann á fremsta bekk finnskra módernista og hef alltaf hrifist af skáldskap hans.

Þriðja mars voru hundrað ár liðin frá fæðingu Rabbe Enckells. Töluvert var skrifað um hann í Finnlandi. Meðal höfunda voru afkomendur skáldsins sem minntust hans, sumir persónulega. Enckell-ættin er fræg listaætt í Finnlandi og lætur að sér kveða með skáldskap, myndlist og bókmenntafræði svo að eitthvað sé nefnt. Blaðamenn og ritstjórar hafa líka verið í ættinni.

Frá Rabbe Enckell komu margar ljóðabækur og einnig ritgerðasöfn sem líka eru minnisstæð. Má nefna ljóðabókina Andedräkt av koppar (1946) og ritgerðirnar Relation i det personliga (1949) og Och sanning (1966). Enckell fæddist 1903 og lést 1974. Sama ár kom eftir hann ljóðabókin Flyende spegel.

Hann naut viðurkenningar sem málari og bókmennta- og listgagnrýnandi í Hufvudstadsbladet. Það spillti að vísu að hann kafaði í klassík þegar menn voru önnum kafnir við að bylta.

Hann fékk nokkur fræg bókmenntaverðlaun, heima og heiman. og hlaut skáldabústaðinn í Borgå sem heiðursbústað 1959.

Afabarnið, skáldkonan Agneta Enckell, skrifar um afa sinn að hún geti ekki greint á milli skáldsins og afans, þeir séu einn og hinn sami í hennar huga: "Mikilvægi Rabbes sem skáld felst einnig í því hvernig ég get sí og æ lesið ljóð hans. Það er hvernig hann notar orðin, hin einföldu orð sem maður verður beinn þátttakandi í, jafnhliða leyndardómsfull, margræð líkt og orðin/hugsunin snerust um þagnarsúlu í því sem maður er þátttakandi í."

Gösta Ågren yrkir rómantískt ljóð um skáldið sem hann segir síst rómantískt í hópi finnskra módernista en að hann hafi verið hugsuðurinn, bæði í prósa og ljóðum. Þess má geta að Enckell sendi frá sér spakmælasafn, aforisma.

Mér virðist Rabbe Enckell vera skáld tærleikans og hinna klassísku yrkisefna, ávallt reiðubúinn til að finna reiðu í óreiðunni, í skáldskap og lífi. Einkalíf hans var ekki auðvelt eftir að besti vinur hans stakk af með eiginkonuna

Um þetta og fleira má lesa í bók sonarins, Mikaels Enckell.

Edith Södergran er vissulega talin mest finnskra módernista en Rabbe Enckell heldur sínu striki og hann vann á með aldrinum. Síðustu ljóðabækur hans geta ekki kallast afturför heldur ávinningur.

johj@mbl.is