I Í samtali við Hjálmar Sveinsson og Geir Svansson í Lesbók í dag um sýningu og bók um Dag Sigurðarson er meðal annars vikið að því samfélagi sem Dagur og tveir aðrir listamenn, Róska og Megas, spruttu úr en voru jafnframt ævinlega í andófi gegn.
IÍ samtali við Hjálmar Sveinsson og Geir Svansson í Lesbók í dag um sýningu og bók um Dag Sigurðarson er meðal annars vikið að því samfélagi sem Dagur og tveir aðrir listamenn, Róska og Megas, spruttu úr en voru jafnframt ævinlega í andófi gegn. Þetta var Reykjavík á sjötta og sjöunda áratugnum sem Hjálmar og Geir segja að hafi verið ferkantað, þröngsýnt og íhaldssamt samfélag sem hafi átt erfitt með að sætta sig við ögrandi lifnaðarhætti og listsköpun þeirra Dags, Rósku og Megasar.

IIÍ samtalinu segja þeir frá því kalda viðmóti sem þessir listamenn mættu á götum borgarinnar og einnig rifjuðu þeir upp sögu af því þegar einn fremsti listamaður Evrópu á þessum tíma, Daninn Asger Jorn, kom til Reykjavíkur snemma á sjöunda áratugnum. Jorn var sannarlega aufúsugestur á meðal íslenskra listamanna en þegar hann ætlaði að fá sér að borða á veitingahúsinu Naustinu var honum vísað frá af dyravörðum vegna þess að hann klæddist rúllukragapeysu innan undir jakkafötunum.

IIIHvernig má þetta vera, spyrja vafalaust margir nú. En eins og Hjálmar og Geir benda á eru Dagur, Róska og Megas enn að hneyksla og því hefur kannski ekki svo mikið breyst. Hugsanlega hefur dyravarðaveldinu þó eitthvað hnignað. En hið raunverulega hneyksli í sögu þessara listamanna er ekki hvað þeir þóttu hneykslanlega ögrandi og jafnvel dónalegir heldur hvað þeim hefur lítið verið sinnt af riturum íslenskrar bókmennta- og listasögu. Þessar þrjár bækur sem Hjálmar og Geir hafa nú sett saman eru mikill fengur í því ljósi og ættu að verða grundvöllur að frekari rannsóknum á listamönnunum og því tímabili sem þeir spruttu úr og virðist að mörgu leyti vera í mikilli móðu þrátt fyrir að það sé ekki langur tími liðinn.

IVEinkum og sér í lagi er þáttur þeirra listamanna sem voru eins og utangarðs í íslensku listalífi á þessum tíma lítið rannsakaður. Og í þeim hópi voru fleiri en þau Dagur, Róska og Megas. Einnig mætti nefna Ástu Sigurðardóttur, Steinar Sigurjónsson og Flóka. Mynd þessa tímabils í íslenskri listasögu, sem sannarlega var frjótt og fjölbreytt, verður varla heilleg fyrr en framlag þessara listamanna hefur verið sett í samhengi.

VRaunar mætti segja um hérlenda fræðimenn að þeir hafi ekki verið sérlega duglegir eða áhugasamir um að skrifa sögu íslenskra bókmennta og myndlistar, hvorki fyrri tíma né síðari. Endurnýjun slíkra verka gengur að minnsta kosti ákaflega hægt. Mikill fengur var að fyrstu þremur bindum Íslenskrar bókmenntasögu sem Mál og menning gaf út en enn vantar fjórða og síðasta bindið þar sem einmitt á að fjalla um bókmenntir síðustu aldar og samtímans. Þótt undarlegt megi virðast er það samt eina heildstæða bókmenntasagan sem ráðist hefur verið í að skrá hér á landi. Um myndlist er engin slík saga til og ekki vitað til þess að það standi til að bæta úr því í bráð. Hvernig má það vera?