Halldóra B. Björnsson
Halldóra B. Björnsson
BERGLIND Gunnarsdóttir fjallar um Halldóru B. Björnsson skáldkonu í Þjóðarbókhlöðu kl. 14 á morgun, sunnudag. Þetta er þriðja kynningin sem safnið heldur undir heitinu Komdu og skoðaðu í kistuna mína.
BERGLIND Gunnarsdóttir fjallar um Halldóru B. Björnsson skáldkonu í Þjóðarbókhlöðu kl. 14 á morgun, sunnudag. Þetta er þriðja kynningin sem safnið heldur undir heitinu Komdu og skoðaðu í kistuna mína. Halldóra fæddist árið 1907 og lést árið 1968, þá skjalavörður á Alþingi. Eftir Halldóru komu út þrjár ljóðabækur: Ljóð, Við sanda og Jarðljóð. Hún var einnig frumkvöðull að þýðingum ljóða frá Grænlandi og Afríku og þýddi fornenska kvæðið Bjólfskviðu.

Hvers vegna valdir þú að kynna Halldóru?

"Það kemur tvennt til: Það hefur farið hljótt um Halldóru og mér finnst skáld af hennar "kaliberi" ekki mega gleymast. Halldóra átti sjö systkini og voru flest skáldmælt. Kunnastur er þó Sveinbjörn Beinteinsson allsherjargoði, en um hann skrifaði ég bók. Um elsta bróðurinn Pétur Beinteinsson, sem lést ungur, gerði ég útvarpsþátt. Mér fannst Halldóru vanta í hópinn."

Hvernig eru ljóðin hennar?

"Systkinin tengdust forneskju gegnum afa sinn, sem fæddist árið 1800, en Halldóra var þeirra nútímalegust í skáldskap sínum og höfðar skýrast til síns samtíma. Ég las ljóðin hennar fyrst fyrir löngu og þegar ég fór að skoða þau aftur nú sannfærist ég enn betur um það hversu gott ljóðskáld hún er. Það sem vakti sérstaka athygli mína er hversu fjölbreytt og efnisrík ljóðin eru. Hún yrkir um náttúruna, um líf kvenna, stríð og ástarljóðin eru mjög sterk. Í fyrstu bókinni finnur maður nýrómantísk áhrif í bland við nútímalega skynjun og hinn sterki tónn í ástarljóðunum kemur fljótt í ljós."

Hvernig tókst Halldóru að koma sér á framfæri?

"Ég hef ekki rannsakað það

sérstaklega hvar hún birti ljóðin sín áður en þau komu á bók. En á þessum tíma birtu konur gjarnan ljóð sín í kvennatímaritum, m.a. Melkorku, því leiðin var ekki eins greið í tímarit á borð við Tímariti Máls og menningar. Halldóra var róttæk og lét sig varða samfélagsmál og manninn í samfélaginu. Ég mun segja frá lífi hennar og fylgja henni eftir í ljóðunum, segja frá uppruna hennar og fjölskyldu, sem var á ýmsan hátt sérstæð. Einnig verða ritverk hennar til sýnis."

Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis.

Milli mín og þín

Vildi ég vík og haf

vildi ég reginfjöll

vildi ég varg og ljón

vita á vegi

milli mín og þín.

Þægara myndi þá

vík að vaða

fjöll að flytja

bil að brúa

ljón að leggja

en stíga fetið

milli mín og þín.