Sigurvegararnir úr Hlíðaskóla í stærðfræðikeppni KappAbel voru þau Ólafur Þ. Stefánsson, Árni Heiðar Geirsson, Linda Björk Kristinsdóttir og Svanfríður Harpa Magnúsdóttir.
Sigurvegararnir úr Hlíðaskóla í stærðfræðikeppni KappAbel voru þau Ólafur Þ. Stefánsson, Árni Heiðar Geirsson, Linda Björk Kristinsdóttir og Svanfríður Harpa Magnúsdóttir.
HLÍÐASKÓLI sigraði í gær í KappAbel stærðfræðikeppni 9. bekkinga, en lokakeppnin fór fram í Háskólabíói. Fast á hæla þeirra fylgdi Varmárskóli en tvö aukaverkefni þurfti til að skera úr um hvor sigraði.
HLÍÐASKÓLI sigraði í gær í KappAbel stærðfræðikeppni 9. bekkinga, en lokakeppnin fór fram í Háskólabíói. Fast á hæla þeirra fylgdi Varmárskóli en tvö aukaverkefni þurfti til að skera úr um hvor sigraði. Oddeyrarskóli hafnaði í þriðja sæti en fékk aukaverðlaun fyrir bekkjarverkefni sitt.

"Skemmtilegast við þetta var að vinna. Þetta tók dálítið á. Við höfðum lítinn tíma til að undirbúa okkur því það er söngleikur í gangi í skólanum hjá okkur, en við eyddum nokkrum dögum í þetta," sagði Svanfríður Harpa Magnúsdóttir úr sigurliði Hlíðaskóla. "Við unnum mest saman, við fjögur, en bekkurinn hjálpaði mikið til. Þetta eru mest þrautir, en ekki hefðbundin stærðfræðidæmi," sagði Svanfríður.

Ingibjörg Möller, stærðfræðikennari sigurvegaranna í Hlíðaskóla, var ánægð að keppni lokinni. "Ég er mjög stolt. Þau stóðu sig alveg með prýði sem og allir þeir sem voru í úrslitakeppninni. Það hafa mjög margir lagt mikla vinnu í þetta og örugglega lært heilmikið á því," sagði Ingibjörg. Hún sagði bekkinn sem sigurvegararnir koma úr vera góða heild sem ynni vel saman. "Það var auðvitað mjótt á munum og hefðu allir sem komust í úrslit átt skilið að vinna. Þessi keppni er mjög vel til þess fallin að vekja áhuga á stærðfræði. Hún reyndi mikið á bæði samvinnu og hugvit."

Fjórðungur tók þátt

Anna Kristjánsdóttir, umsjónarmaður keppninnar, sagði að fjórðungur allra 9. bekkinga hafi tekið þátt í keppninni. Hún sagði það mikilvægt fyrir unglingana að geta fært rök fyrir máli sínu, en hver bekkur leysti 8 verkefni. "Sá þáttur að rökstyðja mál sitt hvert fyrir öðru sýndi kennurum nýja hlið á nemendum sínum því þá sáu þeir hversu nemendurnir eru megnugir," sagði Anna. Hún sagði umfang keppninnar hafa aukist frá því í fyrra. "Ég var mjög glöð að sjá hvað íslenskir skólar tóku þessu vel. Þetta er að breiðast út. Þetta er í fyrsta sinn sem við leggjum í að vera með svona lokakeppni á sviði. Krakkarnir stóðu sig bara býsna vel vegna þess að því fylgir náttúrulega álag."