Edmund Saunders hefur breytt miklu í liði Keflavíkur og hefur eflst með hverjum leik að undanförnu.
Edmund Saunders hefur breytt miklu í liði Keflavíkur og hefur eflst með hverjum leik að undanförnu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Það er gott fyrir körfuknattleikinn að þessi lið séu í úrslitum þar sem liðin blása til sóknar í hverjum leik og hafa gaman af því að skjóta þriggja stiga skotum. Í báðum liðum eru einnig leikmenn sem "krydda" leikinn ef svo ber undir og ég á von því að þetta verði skemmtileg rimma," sagði Reynir Kristjánsson þjálfari Hauka er hann var beðinn um að spá í spilin fyrir úrslitaviðureign Grindavíkur og Keflavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik.
Reynir var reyndar ósáttur við að þurfa að vera í hlutverki spámannsins að þessu sinni og vildi frekar vera að stjórna liði sínu í slíku verkefni, en að hans mati eru Keflvíkingar sigurstranglegri í einvíginu. Fyrsti leikur liðanna fer fram á heimavelli Grindavíkur á laugaradag kl. 16 en það lið sem fyrr sigrar í þremur viðureignum verður Íslandsmeistari.

Reynir sagði að leikur Keflavíkurliðsins hefði þróast mikið á undanförnum vikum eftir að Bandaríkjamaðurinn Edmund Saunders hóf að leika með liðinu. "Samherjar Saunders hafa leitað meira til hans undir körfunni í undanförnum leikjum og liðið hefur nú yfir að ráða vopnabúri sem ekkert annað lið getur státað sig af. Saunders og Damon Johnson geta skorað undir körfunni og fyrir utan þriggja stiga línuna bíða síðan flestar af bestu skyttum landsins. Að auki hefur varnarleikur liðsins eflst og stundum er varla veikan blett að finna á liðinu."

Breiddin meiri hjá Keflavík

Reynir taldi að leikmannahópurinn hjá Keflvíkingum væri stærri og öflugri en hjá Grindvíkingum og það hefði mikið að segja. "Ef einhver skytta í liði Keflavíkur á slakan dag er alltaf annar leikmaður sem tekur af skarið í staðinn. Ég tel einnig að liðið hafi náð betra jafnvægi í leik sínum og þurfi ekki að treysta eins mikið á Damon Johnson og áður - en hann er að sjálfsögðu lykilmaður í þessu liði."

Eins og áður segir telur Reynir að Grindavík þurfi að treysta á minni kjarna leikmanna og þar nefnir hann til sögunnar Helga Jónas Guðfinnsson, Pál Axel Vilbergsson og Guðlaug Eyjólfsson. "Þeir verða að leika vel í öllum leikjum liðsins í þessari rimmu. Það hefur ekki gerst í úrslitakeppninni til þessa og ef einn þeirra hittir illa er oft eins og liðinu gangi illa í kjölfarið. Darrell Lewis mun skila sínu þar sem hann reynir að mestu að brjóta sér leið upp að körfunni og Keflvíkingar verða að halda honum frá knettinum í sóknarfráköstunum. Lewis hefur einstakt lag á því að ná til sín knettinum auk þess sem hann virðist geta smogið í gegnum hvaða vörn sem er. Ég á ekki von á því að Lewis skori eins mikið gegn Keflavík og hann hefur gert gegn Hamri og Tindastól, en hann á eftir að skila sínu fyrir liðið í vörn sem sókn."

Verður Pramenko leynivopnið?

Reynir segir að fyrrum lærisveinn hans hjá Haukum, Guðmundur Bragason, eigi að geta veitt Edmund Saunders verðuga keppni í baráttunni undir körfunni. "Guðmundur skorar ekki eins mikið og áður enda er það ekki hans hlutverk en Saunders mun ekki eiga náðuga daga gegn Grindavík." Að mati Reynis gæti Predrag Pramenko sprungið út í liði Grindavíkur. "Hann hefur virst vera afar undrandi á svip í heilan mánuð og er nú fyrsta að átta sig á hvernig íslenskur körfuknattleikur er leikinn. Pramenko hefur yfir að ráða góðu skoti og getur einnig skorað undir körfunni og Keflvíkingar verða að halda honum í skefjum því hann hefur verið vaxandi í undanförnum leikjum."

Liðin geta farið á "flug"

Um leikstíl liðanna hafði Reynir þetta að segja: "Bæði lið beita svipuðum leikafbrigðum. Það ber mikið á því að menn reyna að keyra inn í hjarta varnarinnar og leiki knettinum út á skytturnar sem "lúra" fyrir utan þriggja stiga línuna. Þessi leikaðferð er mjög skemmtileg á að horfa, þ.e.a.s. ef liðin hitta vel úr skotum sínum - ef ekki getur þetta verið hálfgerð vitleysa og fengi ekki að viðgangast í öðrum löndum að ég held. Að auki er hraðinn í leik liðanna mikill enda hefur Keflavík skorað 103 stig að meðaltali í leik í úrslitakeppninni og Grindavík 92 stig að meðaltali. Í stuttu máli sagt tel ég Keflavíkurliðið líklegra til þess að vinna í þessum viðureignum og er breiddin í þeirra liði lykillinn að því. Að sama skapi er það helsti veikleiki Grindvíkinga að lykilmenn þeirra geta ekki leyft sér að eiga slaka daga. Samt sem áður geta bæði liðin hitt með afbrigðum vel þegar vel gengur og þá er ómögulegt að vita hvernig leikir enda - mín spá er sú að Keflvíkingar tapi aðeins einum leik áður en þeir fagna Íslandsmeistaratitlinum," sagði Reynir Kristjánsson.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson