RÚMLEGA 700 umsóknir bárust um sumar- og afleysingastörf hjá Akureyrarbæ. Þetta er fjölgun umsókna um 10% á milli ára en Jónína Laxdal launafulltrúi hjá Akureyrarbæ sagðist allt eins hafa átt von á enn fleiri umsóknum í ár.
RÚMLEGA 700 umsóknir bárust um sumar- og afleysingastörf hjá Akureyrarbæ. Þetta er fjölgun umsókna um 10% á milli ára en Jónína Laxdal launafulltrúi hjá Akureyrarbæ sagðist allt eins hafa átt von á enn fleiri umsóknum í ár. Um er að ræða fjölbreytt störf hjá öldrunardeild, búsetudeild, sem og við aðrar stofnanir og deildir bæjarins. Jónína sagði að þetta væri þó mesti fjöldi umsókna um sumar- og afleysingastörf frá árinu 1997 og helgaðist af erfiðu atvinnuástandi.

Hún sagði að ekki lægi endanlega fyrir hversu margir yrðu ráðnir til starfa en að fjöldinn gæti orðið í kringum 300 manns. Jónína hafði sjálf undir höndum tæplega 500 umsóknir en einnig voru umsóknir um störf sendar til búsetudeildar og öldrunardeildar. Hún sagði að mun fleira atvinnulaust fullorðið fólk hefði sent inn umsóknir að þessu sinni og að margir væru tilbúnir að hefja störf strax. Af þessum tæplega 500 umsóknum sem Jónína hafði undir höndum voru um 290 umsóknir frá fólki eldra en 20 ára. Hún sagði að þarna væri um breytingu að ræða frá síðustu árum, þegar umsóknirnar voru flestar frá fólki á aldinum 17-20 ára.