RUDI Völler, landsliðsþjálfari Þjóðverja í knattspyrnu, gefur skoska landsliðinu ekki háa einkunn fyrir frammistöðu sína á móti Litháum í Kaunas á miðvikudagskvöldið og lýsingarorðið sem Völler notar um Skotana er "tannlausir".
RUDI Völler, landsliðsþjálfari Þjóðverja í knattspyrnu, gefur skoska landsliðinu ekki háa einkunn fyrir frammistöðu sína á móti Litháum í Kaunas á miðvikudagskvöldið og lýsingarorðið sem Völler notar um Skotana er "tannlausir".

Með sigri hefðu Skotar náð þriggja stiga forskoti á Þjóðverja í efsta sæti riðilsins en sigur Litháa galopnaði riðilinn. Lið Þjóðverja, Skota og Litháa hafa öll 7 stig en innbyrðisúrslit ráða röð liðanna og sitja Þjóðverjar í toppsætinu, Litháar eru í öðru og Skotar í þriðja.

Völler, sem varð að sætta sig við jafntefli við Litháa í Nürnberg um síðustu helgi, fer með sína sveit á Hampden Park í júní á sama tíma og Íslendingar glíma við Færeyinga á Laugardalsvelli. Leikur Skota og Þjóðverja kemur til með að ráða miklu um framhaldið í riðlinum en víst er að Berti Vogts, landsliðsþjálfari Skota, á sér þann draum heitastan að leggja landa sína að velli á Hampden Park og eygja þar með möguleika á að skáka silfurliðinu frá HM síðastliðið sumar. "Satt best að segja fannst mér leikur Skotanna ansi tilgangslítill. Hann gekk út á að þruma knettinum fram og mér fannst lítið til leiks þeirra koma hvar sem á hann er litið," segir Völler. Í sama streng tekur Michael Skippe, aðstoðarmaður Völlers, sem telur að sigur Litháa hafi verið mjög sanngjarn.

"Litháar voru miklu betri og verðskulduðu að vinna. Skotar fengu eitt færi allan leikinn og leikur þeirra fannst mér ansi hugmyndasnauður," segir Skippe.