Flest bendir til að skattamálin verði eitt helsta baráttumál næstu kosninga. Flestir flokkar hafa nú lagt fram tillögur sínar í skattamálum. Vekur athygli hversu ítarlegar þær eru.
Flest bendir til að skattamálin verði eitt helsta baráttumál næstu kosninga. Flestir flokkar hafa nú lagt fram tillögur sínar í skattamálum. Vekur athygli hversu ítarlegar þær eru. Skattamál hafa yfirleitt verið til umræðu fyrir kosningar en flokkar hafa alla jafna látið sér nægja að gefa almennar yfirlýsingar um hvert vilji þeirra stefni í þeim efnum. Nú hefur hins vegar hver flokkurinn á fætur öðrum lagt fram nákvæm og sértæk loforð þar sem jafnvel er heitið ákveðnum prósentubreytingum miðað við núverandi skattprósentur.

Á vorfundi Samfylkingarinnar, sem hófst í Reykjavík í gær, kynnti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður flokksins, stefnu Samfylkingarinnar í skattamálum. Í ræðu sem hún flutti á fundinum sagði hún að Samfylkingin hygðist hækka skattleysismörkin um 10 þúsund krónur, sem myndi lækka skattbyrði einstaklinga um 50 þúsund krónur á ári. Þá ætlar Samfylkingin að lækka virðisaukaskatt af matvælum og öðrum varningi sem ber nú 14% virðisaukaskatt í 7%. Samfylkingin vill einnig fella niður stimpil- og þinglýsingargjöld vegna húsnæðiskaupa og gera hluta af endurgreiðslu námslána að fullu frádráttarbæran frá skatti í sjö ár eftir að námi lýkur.

Ingibjörg Sólrún virtist einnig gefa í skyn að hún teldi rétt á móti að hækka skatta á lögaðila og fjármagnseigendur. Hún sagði m.a. "Skattborgurum er ekki gert jafnhátt undir höfði. Þeir eru dregnir í dilka eftir því hverjir þeir eru og hvernig þeir afla tekna sinna. Þeir sem afla tekna með vinnu sinni njóta engrar miskunnar hjá stjórnvöldum en þeir sem njóta hagnaðar af rekstri fyrirtækja sæta ívilnandi skattlagningu. Best eru þeir þó settir sem hafa tekjur af kaupum og sölum á verðpappírum, sem auk þess að borga lægri skatt en aðrir eru leystir undan því að greiða til sveitarfélags síns af tekjum sínum eins og aðrir borgarar."

Það er fagnaðarefni að flokkarnir skuli leggja fram skýra stefnu fyrir kosningar í skattamálum þannig að kjósendur geti vegið og metið stefnumið þeirra á raunhæfum forsendum en þurfi ekki að geta í eyðurnar. Vilji menn vera trúverðugir verða þeir hins vegar að tala jafnskýrt um þær skattahækkanir sem þeir hafa hug á að framkvæma og skattalækkanir. Samfylkingin nefnir jafnvel krónutölur þegar kemur að því að útlista skattalækkunaráform flokksins. Þegar síðan er látið að því liggja að flokkurinn telji núverandi kerfi óréttlátt og hygla hluta þjóðfélagsþegna á kostnað annarra væri hreinlegast að segja beint út hvort flokkurinn vilji að sama skapi hækka skatta á lögaðila og fjármagnseigendur og þá hve mikið.