Verð á olíu hefur farið lækkandi í þessari viku og er sú þróun sett í samhengi við hraða sókn bandamanna í átt til Bagdad. Reyndar hefur verð á hráolíu lækkað talsvert undanfarinn mánuð eftir að hafa hækkað jafnt og þétt síðan í nóvember.
Verð á olíu hefur farið lækkandi í þessari viku og er sú þróun sett í samhengi við hraða sókn bandamanna í átt til Bagdad. Reyndar hefur verð á hráolíu lækkað talsvert undanfarinn mánuð eftir að hafa hækkað jafnt og þétt síðan í nóvember. Hæst náði verðið um 35 dollurum fatið í liðnum mánuði, en var á fimmtudag komið niður í 25,31 dollara. Bensínverð hér á landi fylgdi að nokkru leyti sveiflunum í lok síðasta árs og upphafi þessa árs. Lækkaði verðið jafnt og þétt í nóvember og desember, en frá áramótum hefur það hækkað, nú síðast um miðjan febrúar og hefur ekki lækkað síðan.

Þegar Morgunblaðið leitaði skýringa á því í gær hvernig á því stæði að bensínverð stæði í stað hér á landi þótt verð á hráolíu hefði lækkað um 30 af hundraði á heimsmarkaði fengust þau svör að mikill titringur væri á markaðnum og betra væri "að hafa fast land undir fótum".

Þegar olíuverð hefur hækkað á heimsmarkaði hefur sjaldnast þurft að bíða eftir að bensínverð hér á landi fylgdi á eftir. Það sama ætti að gilda um lækkun olíuverðs. Hér er ekki um flókna framkvæmd að ræða. Viðskiptavinir olíufélaganna gera ráð fyrir því að verðið við dæluna endurspegli þróun olíuverðs úti í heimi.