ÞRÍR liðsmenn hersveita Breta og Bandaríkjamanna, ófrísk kona og bílstjóri hennar, biðu bana þegar sprengja sprakk í bifreið sem stödd var við eina af eftirlitsstöðvum bandamanna í Írak. Svo virðist sem um sjálfsmorðsárás hafi verið að ræða.
ÞRÍR liðsmenn hersveita Breta og Bandaríkjamanna, ófrísk kona og bílstjóri hennar, biðu bana þegar sprengja sprakk í bifreið sem stödd var við eina af eftirlitsstöðvum bandamanna í Írak. Svo virðist sem um sjálfsmorðsárás hafi verið að ræða.

Atburðurinn átti sér stað við eftirlitsstöð norðvestur af Bagdad í fyrrakvöld, um 18 km frá Haditha-stíflunni, um 130 km frá landamærum Íraks og Sýrlands. Í yfirlýsingu yfirstjórnar hersveita bandamanna var ekki tekið fram að um sjálfsmorðsárás hefði verið að ræða en atburðurinn líktist mjög einni slíkri 29. mars sl. þegar leigubílstjóri sprengdi bifreið sína í loft upp fyrir framan eftirlitsstöð bandamanna nærri borginni Najaf, með þeim afleiðingum að fjórir bandarískir hermenn biðu bana.

Sögðu íraskir ráðamenn þá að vænta mætti fleiri slíkra árása. Verðlaunuðu þeir fjölskyldu sprengjumannsins ríkulega með fjármunum.

Í yfirlýsingu yfirherstjórnarinnar í gær sagði að ófrísk kona hefði stigið út úr bifreiðinni og byrjað að "æpa af ótta". Í þann mund hefði bifreiðin sprungið í loft upp með þeim afleiðingum að þrír hermenn, sem komið höfðu aðvífandi, biðu bana og tveir til viðbótar særðust. Konan beið einnig bana, sem og bílstjóri bifreiðarinnar.

As Saliyah í Katar. AFP.