Fjöldinn allur af málverkum er nú til taks við réttarsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur og í salnum eru enn fleiri málverk og teikningar, alls 103 myndir. Allar eru þær merktar mörgum af helstu listamönnum þjóðarinnar.
Fjöldinn allur af málverkum er nú til taks við réttarsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur og í salnum eru enn fleiri málverk og teikningar, alls 103 myndir. Allar eru þær merktar mörgum af helstu listamönnum þjóðarinnar.
SMÁSJÁRMYNDUM af pappírstrefjum var varpað á vegg við áframhaldandi málflutning í stóra málverkafölsunarmálinu í dómssal Héraðsdóms Reykjavíkur í gær þegar Peter Bower, sérfræðingur ákæruvaldsins, útskýrði hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu að...
SMÁSJÁRMYNDUM af pappírstrefjum var varpað á vegg við áframhaldandi málflutning í stóra málverkafölsunarmálinu í dómssal Héraðsdóms Reykjavíkur í gær þegar Peter Bower, sérfræðingur ákæruvaldsins, útskýrði hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu að pappír í sumum af meintum fölsunum væri um 20 árum yngri en segir á merkingu myndanna. Þannig hefði teikning eftir Svavar Guðnason, merkt með ártalinu 1942, verið á pappír sem hefði ekki verið framleiddur fyrr en eftir 1960. Þetta væri öruggt merki um fölsun.

Karl Georg Sigurbjörnsson hrl., verjandi Jónasar Freydal Þorsteinssonar, hafði áður mótmælt því að Bower fengi að bera vitni og sagði enga staðfestingu vera á því að maðurinn væri sá sérfræðingur sem hann segðist vera. Þessu hafnaði Pétur Guðgeirsson dómsformaður.

Deilt um hvítunarefni

Aðspurður kvaðst Bower vera pappírssagnfræðingur og sérfræðingur í pappírsgreiningu og ætti að baki tveggja ára nám í listaskólum auk þess sem hann hefði háskólagráðu (BA) í bókmenntum og listum. Uppistaðan í kunnáttu hans væri þó fengin á 25 ára starfsferli en á þessum tíma hefði hann unnið fyrir lögreglu, listaverkasala og listasöfn. Hann hefði m.a. rannsakað pappír í listaverkum í málum þar sem vafi lék á uppruna verkanna og hann kvaðst vera á lista í Bretlandi yfir sérfræðivitni í dómsmálum. Hann lýsti fyrir dómnum hvernig pappír bæri merki um uppruna sinn og aldur, t.d. gæfi tilvist ákveðinna trefja og svonefndra hvítunarefna vísbendingar um framleiðsluár. Myndirnar sem hann rannsakaði eru m.a. eignaðar Jóhannesi S. Kjarval, Nínu Tryggadóttur og Asger Jorn en flestar Svavari Guðnasyni. Myndunum skipti hann í þrjá flokka. Bower sagði að í fyrsta flokknum væru trefjar sem framleiðandinn byrjaði ekki að nota fyrr en eftir 1960 en á þremur myndanna voru merkingar um að þær hefðu verið málaðar á fimmta áratugnum. Hér væri um að ræða öruggt merki um fölsun. Eftir að hafa rannsakað liti og stíl annarra mynda í þessum flokki taldi hann sterkar líkur á að þær væru líka falsaðar. Helstu vísbendingar um fölsun mynda í öðrum flokki voru hvítunarefni sem Bower sagði að væri greypt í pappírstrefjarnar. Þetta efni hefði framleiðandinn fyrst notað á sjötta áratug síðustu aldar. Samkvæmt merkingu á myndunum hefðu þær á hinn bóginn verið gerðar 20 árum fyrr. Aðspurður af Sigríði Rut Júlíusdóttur hdl., verjanda Péturs Þórs Gunnarssonar, sagði hann útilokað að efnisagnir úr hvítunarefninu hefðu smitast í pappírinn t.d. frá undirlagi. Ef um smitun væri að ræða hefði efnið legið ofan á pappírnum en ekki verið greypt í hann eins um hér væri um að ræða. Kvaðst hann ósammála dönsku sérfræðiáliti þar sem komist er að gagnstæðri niðurstöðu. Bleikiefni kom einnig við sögu í þriðja flokknum. Bower sagði að efnið hefði ekki verið notað í pappírinn fyrr en eftir 1960, sex verkanna væru hins vegar ármerkt 20 árum áður og með samanburði á hinum verkunum komst hann að þeirri niðurstöðu að þau væru einnig fölsuð. Bower byggði niðurstöður sínar einnig á því að pappírinn væri ekki dæmigerður fyrir listamanninn og það væri athyglisvert að ástand pappírsins væri sambærilegt þrátt fyrir að myndirnar væru eftir ólíka listamenn og líklegt að meðferð myndanna hefði verið misjöfn í gegnum tíðina.

Límbandið yngra en myndirnar

Rannver Hannesson, forvörður og varðveislustjóri Landsbókasafnsins, komst að svipuðum niðurstöðum og Bower, þ.e. að í mörgum tilvikum væri pappírinn 20 árum yngri en ármerking á myndunum gæfi tilefni til. Hvítunarefni kom þar talsvert við sögu auk þess sem á sumum vatnslitamyndunum fann Rannver merki um límband sem hann sagði að ekki hefði verið framleitt þegar myndirnar áttu að hafa verið gerðar. Ummerki eftir límbandið væru á hinn bóginn með þeim hætti að þau gætu ekki hafa komið nema þegar myndirnar voru málaðar og pappírinn því blautur. Rannver varði einnig talsverðum tíma í að greina frá niðurstöðum sínum af rannsókn á pappír sem fannst á heimili Péturs Þórs Gunnarssonar. Sagði hann að svo liti út að mynd sem eignuð er Asger Jorn væri gerð á samskonar pappír og fannst á heimilinu. Mynd eftir Pétur Þór var reyndar máluð á samskonar pappír.

Fyrsta vitni sem verjandi hefur kallað fyrir kom fyrir dóm í gær. Bárður Halldórsson greindi frá því að fyrir nokkrum árum hefði hann keypt níu verk eftir Ásgrím Jónsson í Danmörku. Seljandinn var tengdadóttirmyndhöggvara sem gerði mynd af Ásgrími en verkin höfðu legið óhreyfð á háalofti í áratugi.

Menn felli dóma með varúð

Aðspurður sagði Bárður að ekkert þessara verka hefði áður komið til Íslands en þau hefði Ásgrímur gert á námsárum sínum. Meðal myndanna hefðu verið frumskissur að myndunum Sturluhlaupi og Djáknanum frá Myrká sem eru þekkt verk eftir listamanninn. Þá lýsti hann því þegar hann fór með mynd eftir Louisu Matthíasdóttur í Morkinskinnu til viðgerðar fyrir nokkrum árum. Á verkstæðinu hefði hart verið gengið að honum að sanna að myndin eftir Louisu Matthíasdóttur væri ófölsuð. Sagðist Bárður hafa sagt við Ólaf Inga Jónsson forvörð, sem fyrstur kærði meintar falsanir Péturs Þórs, að menn yrðu að fara varlega í að fella dóma. Myndin var sannarlega ófölsuð, að sögn Bárðar, hún hefði hangið á heimili bróður listakonunnar þar sem hún dvaldi oft á sumrin.