Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, afhenti Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra fyrstu kortin við athöfn þegar útgáfan var kynnt í vikunni.
Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, afhenti Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra fyrstu kortin við athöfn þegar útgáfan var kynnt í vikunni.
LANDMÆLINGAR Íslands hafa gefið út annað kortið í flokki þriggja ferðakorta landsins í mælikvarðanum 1:250.000 en fyrsta kortið kom út á síðasta ári.
LANDMÆLINGAR Íslands hafa gefið út annað kortið í flokki þriggja ferðakorta landsins í mælikvarðanum 1:250.000 en fyrsta kortið kom út á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að þriðja kortið komi út síðar á þessu ári en nýja útgáfan nær yfir landið allt með þremur kortum í stað níu korta áður. Þá hafa Landmælingar gefið út nýtt heildarkort, ferðakort af landinu öllu, í mælikvarðanum 1:500.000. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra tók á miðvikudag við fyrstu eintökum kortanna.

Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, segir að innan við tvö ár séu frá því ákveðið var að gefa út kortin á þremur blöðum í stað níu áður. Sé það bæði hagkvæmara og kortin einnig þægilegri í meðferð. Fyrsta kortið nær yfir Vestfirði og Norðurland og það sem nú kemur út yfir Vesturland og Suðurland. Hann sagði nýjungar kortanna meðal annars þær að inná þau væru færðar í auknum mæli upplýsingar um ýmsa þjónustu og afþreyingu, svo sem bensínstöðvar og tilgreint hvort það eru sumarstöðvar eða heilsársstöðvar, golfvelli, söfn, sundlaugar, tjaldstæði og fleira.

Örari útgáfa orðin auðveldari

Magnús segir að með því að vinna kortin á stafrænu formi sé endurútgáfa auðveldari en hún sé líka nauðsynleg vegna breytinga á framboði þjónustu og nýrra upplýsinga og t.d. breytinga á jöklum og árfarvegum. Hann segir bæði landshlutakortin og ferðakortið njóta mikilla vinsælda. Hafi fyrsta landshlutakortið nýja þegar selst í yfir tvö þúsund eintökum.

Ferðakortið segir hann hafa selst í liðlega 200 þúsund eintökum frá því það kom fyrst út árið 1982. Því fylgir nú skrá með yfir þrjú þúsund nöfnum og tafla yfir nokkrar vegalengdir þjóðvega. Magnús nefndi einnig geisladiskana sem Landmælingar hafa gefið út, þ.e. bæði svonefndan flugdisk þar sem fara má yfir landið og skoða það eins og úr flugvél væri og kort í venjulegu plani. Sagði hann þá báða hafa selst vel, flugdiskinn í nærri 5 þúsund eintökum. Forstjórinn þakkaði að lokum starfsmönnum Landmælinga fyrir eljusamt starf við undirbúning útgáfunnar. Meðal samstarfsaðila eru Vegagerðin, Örnefnanefnd, Þjóðminjasafnið, ferðamálasamtök og fleiri.

Siv Friðleifsdóttir óskaði Landmælingum til hamingju með útgáfuna og sagði fyrirtækið standa sig framúrskarandi vel á sviði kortagerðar og sagði geisladiskana skemmtilega nýjung.

Almennt verð landshlutakortanna er 1.290 kr. og ferðakortið af öllu landinu kostar 980 kr.