Á FUNDI MS-sjúklinga, sjúklinga í dagvist MS-félags Íslands í Reykjavík og aðstandenda í fyrri viku voru samþykktar vítur á stjórn MS-félagsins og stjórn dagvistar félagsins vegna ásakana á hendur staðgengli framkvæmdastjóra í veikindaleyfi og vegna...
Á FUNDI MS-sjúklinga, sjúklinga í dagvist MS-félags Íslands í Reykjavík og aðstandenda í fyrri viku voru samþykktar vítur á stjórn MS-félagsins og stjórn dagvistar félagsins vegna ásakana á hendur staðgengli framkvæmdastjóra í veikindaleyfi og vegna ráðningar nýs framkvæmdastjóra og þess krafist að hann léti af störfum eins og það var orðað í yfirlýsingu fundarins.

Svana Kjartansdóttir, sem er MS-sjúklingur, segir að órói hafi orðið fyrr á árinu, þegar staðgengill framkvæmdastjóra hafi verið sakaður um fjárdrátt og allt bókhald sent til ríkisendurskoðanda, en komið hafi í ljós að ekkert óhreint hafi verið í pokahorninu. Áður hafi verið reynt að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra í veikindaleyfi og þetta hafi augljóslega verið gert til að formaður MS-félagsins fengi framkvæmdastjórastöðuna, sem hún nú gegni í óþökk sjúklinganna og aðstandenda þeirra. Því hafi verið boðað til fundar og vítur samþykktar á stjórn félagsins og stjórn dagvistar félagsins.

Staðgengill framkvæmdastjóra sagði upp störfum í kjölfar ásakananna. Fundurinn harmaði uppsögn hennar og krafðist þess að hún yrði beðin afsökunar auk þess sem allra leiða yrði leitað til að fá hana til starfa á ný sem og aðra starfsmenn sem sögðu upp störfum vegna þessara atburða. Svana segir að samþykkt fundarins hafi verið send til allra ráðuneyta í von um úrbætur.

Sigríður Hrönn Elíasdóttir, formaður stjórnar dagvistar MS-félagsins, vill ekki tjá sig um deiluna meðan bókhaldið er til skoðunar hjá ríkisendurskoðun.