Villur í grein um Singapore Sling Í blaði gærdagsins birtist á síðum Fólks í fréttum grein um gott gengi rokksveitarinnar Singapore Sling í Ameríku. Tvennt misfórst í greininni.

Villur í grein um Singapore Sling

Í blaði gærdagsins birtist á síðum Fólks í fréttum grein um gott gengi rokksveitarinnar Singapore Sling í Ameríku. Tvennt misfórst í greininni. Annars vegar unnu Singapore Sling til Íslensku tónlistarverðlaunanna en ekki Edduverðlauna fyrir myndbandið við lag sitt "Listen". Leikstjóri myndbandsins er Árni Þór Jónsson. Hins vegar er rétt að fram komi að Edda útgáfa hf. sá um að framselja rétt á útgáfu plötu Singapore Sling í Norður-Ameríku til Stinky Records. Beðist er velvirðingar á þessum misfærslum.

Kringlan tæpir 50 þúsund fermetrar

Í frétt Morgunblaðsins í gær um nýja stórverslunarmiðstöð sem stefnt er að að reisa neðan Vesturlandsvegar var sagt að það yrði stærsta bygging í Reykjavík og að Kringlan væri 36 þúsund fermetrar. Hið rétta er að öll Kringlan er nú tæpir 50 þúsund fermetrar og leyft að stækka hana í allt að 52.500 fermetra. Ráðgert er að nýja verslunarmiðstöðin verði á milli 40 og 50 þúsund fermetrar.

Ljóðlína féll niður

Í minningargrein Þórheiðar um Friðbjörgu Ólínu Kristjánsdóttur á blaðsíðu 40 í Morgunblaðinu í gær, föstudaginn 4. apríl, féll niður lína úr erindi Har. S. Mag. og raskaði samhenginu. Þetta átti að hljóða svona: "Ég kveð þig, elsku systir mín, og bið góðan Guð að taka þig í faðm sinn og leiða þig í sitt ríki.

Allar stundir okkar hér

er mér ljúft að muna.

Fyllstu þakkir flyt ég þér

fyrir samveruna."

Hlutaðeigendur eru beðnir afsökunar á mistökunum.

Mynd með grein um Mínus

Með grein um nýjustu plötu rokksveitarinnar Mínus birtist mynd af sveitinni á tónleikum. Láðist að geta ljósmyndarans en hún er Guðný Lára Thorarensen. Hlutaðeigandi er beðin velvirðingar á mistökunum.