Namm, kirsuberjakók. Nú vantar bara kókosprinsið.
Namm, kirsuberjakók. Nú vantar bara kókosprinsið.
VÍKVERJI ætlar að vera hreinskilinn. Víkverji ætlar að ljóstra því upp að hann hefur alltaf verið mjög nýjungagjarn, nokkuð sem menn jafnan þvertaka fyrir að vera.
VÍKVERJI ætlar að vera hreinskilinn. Víkverji ætlar að ljóstra því upp að hann hefur alltaf verið mjög nýjungagjarn, nokkuð sem menn jafnan þvertaka fyrir að vera.

Þessi nýjungagirni er reyndar svo til aðeins tengd matvörum, enda Víkverji alltaf verið matgæðingur mikill. Þetta lýsir sér þannig að í hvert sinn sem Víkverji kaupir inn og sér einhverja nýja matvöru á boðstólum stenst hann ekki mátið og verður að kaupa hana, svona til þess að smakka að minnsta kosti einu sinni. Sem getur verið gott því ef hún bragðast illa hverfur löngunin alfarið til að kaupa hana. Ekki langaði Víkverja t.d. aftur í Súkkó eftir að hafa bragðað þennan íslenska súkkulaðigosdrykk einu sinni. Ekki var áhuginn meiri á að kaupa kirsuberjakók oftar en einu sinni, þegar það fékkst hér á landi til skamms tíma á níunda áratugnum. Sömu sögu er af segja af nýja vanillukókinu, Pepsí Twist og sykursnauðu kóki með sítrónubragði. En alltaf verður Víkverji að kaupa þessar vörur einu sinni, bara til að smakka. Á yngri árum beindist þessi nýjungagirni auðvitað að sælgætinu fyrst og fremst. Þannig var ekkert indælla en að smakka eitthvað nýtt nammi, einhverja nýja tegund af dönskum piparbrjóstsykri, helst með dufti inní. Með árunum hefur meðtekinn þroski síðan beint áherslunum að einhverju leyti frá sælgætinu að öðru góðgæti og öllu "menntaðra", ostum og jafnvel léttvíni. Samt á Víkverji enn bágt með sig er hann sér einhverja nýja sælgætistegund í búðarhillunni, tala nú ekki um ef hún er íslensk. Nóabombur. Uss, alltof góðar. En auðvitað er það oftar sem kötturinn er keyptur í sekknum. Auðvitað þurfti Víkverji að prófa Prins Póló með kókosbragði og gott ef ekki hnetum einnig. Þvílíkt og annað eins! Hvern langar ekki í kirsuberjakók og kókosprins?

Svo hefur Víkverji náttúrlega fallið fyrir öllum tilraunum landans til að framleiða snakk. Það sleppur þetta sem nú er fáanlegt, enda froðusnakkið að mestu horfið, þetta sem bólgnaði út á tungunni á manni, svo kraumaði í rétt eins og verið væri að steikja tunguna á pönnu. Og hver man ekki eftir fiskisnakkinu? Ekkert slorbragð. Einmitt það já. Og harðfiskurinn með allskonar bragðtegundum? Nei takk, meira að segja hinir nýjungagjörnu kjósa þennan gamla góða, alveg eins og hann er, með harðfisksbragði.

Þær eru tvær vörutegundir sem Víkverji prófaði nýverið í fyrsta sinn og féll fyrir. Annars vegar Breakfast in a Bottle frá Chiquita, ávaxtasafi og trefjar saman í flösku, morgunmatur í flösku. Ekki hægt að vera án hans eftir að hafa prófað hann einu sinni og það komið frá manni sem hingað til hefur hvorki getað borðað vott né þurft í morgunsárið. Hin varan er Gunnars tómatsósa, miklu betri en þessi erlenda, alvöru tómatbragð, minnir svolítið á gömlu Vals tómatsósuna, þessa með öllu eplamaukinu í. Pylsusalar notuðu hana líka mikið, en hún hvar úr búðarhillunum. Rétt eins og þessi nýja Gunnars tómatsósan, hún fæst hvergi orðið. Hvar er hún?