LJÓST er að alls 80 manns hafa nú látist af völdum HABL, nýs heilkennis alvarlegrar og bráðrar lungnabólgu, sem talið er að hafi komið fyrst upp í Kína. Þar hafa nú nær 1200 manns fengið sjúkdóminn og 46 látist.
LJÓST er að alls 80 manns hafa nú látist af völdum HABL, nýs heilkennis alvarlegrar og bráðrar lungnabólgu, sem talið er að hafi komið fyrst upp í Kína. Þar hafa nú nær 1200 manns fengið sjúkdóminn og 46 látist.

Einnig hafa 17 látist í Hong Kong og sjö í Kanada. Að sögn BBC hafa 2.270 manns smitast til þessa en langflestir eða um 90% ná sér aftur eftir um það bil viku veikindi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur gefið þeim sem ætla að ferðast til Hong Kong eða Guangdong-héraðs í Kína, þar sem HABL hefur einkum herjað, það ráð að fresta ferðalaginu. Ekki er alveg ljóst hvernig veikin berst milli manna en vísindamenn óttast að hún geti stundum borist með andrúmsloftinu.

Íslendingar ekki á heimleið

BBC segir að bandarísk stjórnvöld hafi gefið sendiráðsstarfsmönnum sínum í Peking kost á ókeypis farmiða heim ef þeir óski þess. Eiður Guðnason, sendiherra Íslands í Kína, segir í samtali við Morgunblaðið, að þetta sé rétt en hann hafi í fyrradag heimsótt bandaríska sendiráðið og fengið að vita að enginn starfsmannanna hafi þegið boðið. Að sögn Eiðs er ekki mikill ótti ríkjandi í borginni vegna HABL.

"Í Peking gengur lífið sinn vanagang," sagði Eiður og bætti við að ekki væru neinar ráðagerðir um að íslenskir starfsmenn yfirgæfu landið. Hann var nýlega í Hong Kong, þar sem um 20 Íslendingar eru búsettir. Sagði hann að þar hefði borið nokkuð á gagnrýni á stjórnvöld sem sökuð væru um að hafa brugðist of seint við sjúkdómnum. Enginn Íslendinganna væri hins vegar á heimleið vegna HABL.