UNDANFARIÐ hafa Austfirðingar orðið fyrir aðkasti vegna náttúruspjallavilja, áltrúar og auðhringadekurs. Alkunna er að þeir hafa verið dregnir á asnaeyrunum fram og aftur um hálendið.
UNDANFARIÐ hafa Austfirðingar orðið fyrir aðkasti vegna náttúruspjallavilja, áltrúar og auðhringadekurs.

Alkunna er að þeir hafa verið dregnir á asnaeyrunum fram og aftur um hálendið. Þeir hafa misst fiskveiðiheimildir sínar og aðal-áltrúnaðargoðið er flúið frá þeim til framboðs í Norður-Reykjavík samanber þessa skammdegisvísu í orðastað kjósanda þar.

Bráðum mætast stálin stinn

strax og lengir daginn.

Mömmukvótakóngurinn

kominn er í bæinn.

Í andlegum keng, illa klæddir og skæddir og með hungurvofuna í dyragættinni eru alltof margir tilbúnir að falla fram og tilbiðja kölska sjálfan, bara ef hann gefur þeim salt í grautinn. Esaú seldi Jakobi frumburðarrétt sinn fyrir baunadisk, Júdas sveik Jesú fyrir þrjátíu silfurpeninga og Ingibjörg Sólrún laug að og vanvirti R- listafólk fyrir von um meiri völd.

Getum við krafist þess að Jón og Gunna fyrir austan séu síður flasfengin eða gædd meiri siðferðisþroska en áðurnefndir einstaklingar?

Við umhverfisverndarfólk og andstæðingar Kárahnhjúkavirkjunar, a.m.k. þriðjungur þjóðarinnar, eigum að beina spjótum okkar í rétta átt, að ríkisstjórnarflokkunum, því þar er ekki hvítt að velkja.

Þeir meina okkur þjóðaratkvæði í vor, gerum því komandi alþingiskosningar að þjóðaratkvæðagreiðslu.

Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur eru rúnir trausti í þessu efni og um Samfylkinguna sem umhverfisverndarflokk þarf ekki að tala, og allra síst eftir að Ingibjörg Sólrún gerðist þar innsti álkoppur í búri.

Vinstri grænir hafa einir flokka staðið bjargfastir og einhuga gegn Kárahnjúkavirkjun. Stórsigur þess flokks í vor er nú helsti raunhæfi möguleikinn til vinnings í þessari orustu.

Aftur austur vegna bréfs Jóhönnu frá Vaðbrekku í Mbl. 7. febrúar.

Ég er hræddur um að það verði til lítis fyrir Mið-Héraðsmenn að hlaupa undir pilsin hjá Framsóknarmaddömmunni eða biðja Smára Geirsson og Friðrik Sophusson að hjálpa sér, ef jarðskjálftar og eldgos hrinda af stað álíka ógnarflóði í Jöklu og gerðist 1934 og Kárahnjúkastífla brestur.

Að slíkt geti ekki gerst þýðir eki að segja okkur Vestfirðingum eftir fárviðri og snjóflóð, Vestmannaeyingum eftir gos, Sunnlendingum eftir jarðskjálftana eða Mývetningum eftir Kröfluelda.

Við lifum í landi þar sem náttúruöflin hafa verið, eru og munu ávallt verða í aðalhlutverki.

Og að síðustu, tilvitnun í austfirska sögu.

Að "týnd sé æra" og "töpuð sál"

tel ég enga byrði

fyrir þá sem elska ál

austur á Reyðarfirði.

INDRIÐI AÐALSTEINSSON, bóndi, Skjaldfönn við Djúp.

Frá Indriða Aðalsteinssyni: