Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Samherja, flytur skýrslu sína á aðalfundi félagsins.
Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Samherja, flytur skýrslu sína á aðalfundi félagsins.
FLUTNINGSKOSTNAÐUR er vandamál í fiskeldi og leita þarf leiða til að ná verulega niður flugfragtinni til Bandaríkjanna, en með flutningi innanlands kostar nú um 150 krónur að koma hverju kílógrammi af laxi frá Norðfirði til Bandaríkjanna.
FLUTNINGSKOSTNAÐUR er vandamál í fiskeldi og leita þarf leiða til að ná verulega niður flugfragtinni til Bandaríkjanna, en með flutningi innanlands kostar nú um 150 krónur að koma hverju kílógrammi af laxi frá Norðfirði til Bandaríkjanna. Þetta kom fram í máli Finnboga Jónssonar formanns stjórnar Samherja á aðalfundi félagsins á Akureyri, en hann gerði flutningamál m.a. að umtalsefni í ræðu sinni á fundinum.

Finnbogi sagði að gengju áætlanir eftir mætti gera ráð fyrir að cif verðmæti laxeldis hjá Samherja gæti orðið yfir 3 milljarðar eftir 2-3 ár miðað við 10 þúsund tonna framleiðslu af slægðum laxi. "Hvort verðið er 10% hærra eða lægra svarar til fjárhæðar upp á hvorki meira né minna en 300 milljónir króna á ári," sagði Finnbogi og benti á að fjárfesting í markaðsmálum á þessu sviði gæti verið einhver arðbærasta fjárfesting sem hægt væri að ráðast í og skilað miklum ávinningi til framtíðar.

Finnbogi sagði að félagið myndi væntanlega flytja lax bæði vestur um haf og austur í framtíðinni. Kosturinn við Evrópu væri sá að hægt væri að flytja hann með skipum og kostnaður sambærilegur við flutning frá Noregi til Mið-Evrópu. Gallinn væri hins vegar sá að það væri nánast aðeins ein ferð í viku og á meðan svo er væri útilokað að byggja upp viðunandi tíðni og öryggi við afhendingu.

Hvað Bandaríkin varðar sagði Finnbogi að vísbendingar væru um að með fragtflugi í stórum vélum beint frá Egilsstöðum væri hægt að lækka kostnað um þriðjung.

Miðað við 10 þúsund tonna framleiðslu á ári nemur kostnaður við að koma vörunni á markað um einum og hálfum milljarði króna. Þriðjungslækkun nemur því um 500 milljónum króna sem unnt væri að lækka flutningskostnað á ári.