Árbæjarkirkja
Árbæjarkirkja
ÞAÐ má með sanni segja að boðið verði til glæsilegrar gospelveislu í Léttmessu í Árbæjarkirkju sunnudagskvöldið 6. apríl kl. 20. Léttmessurnar hafa hlotið fádæma undirtektir og fallið fólki á öllum aldri vel í geð.
ÞAÐ má með sanni segja að boðið verði til glæsilegrar gospelveislu í Léttmessu í Árbæjarkirkju sunnudagskvöldið 6. apríl kl. 20.

Léttmessurnar hafa hlotið fádæma undirtektir og fallið fólki á öllum aldri vel í geð. Að þessu sinni mun hinn frábæri gospelkór kirkjunnar leiða sönginn undir styrkri stjórn Kzristínu Kalló Sklenár. Þeim til halds og trausts verður söngkonan Helga Magnúsdóttir, bassaleikarinn Björn Sigurðsson og trommarinn Brynjólfur Snorrason. Kórinn hefur sungið sig inn í hug og hjarta Árbæinga og getið sér gott orð fyrir að koma gleði "gospelsins" til skila á lifandi hátt. Lagavalið er vandað að venju og munu nokkrar af helstu perlum gospeltónlistarinnar hljóma.

Sr. Óskar Ingi Ingason þjónar fyrir altari og Ólafur Jóhann Borgþórsson guðfræðinemi og starfsmaður í unglingaklúbbi kirkjunnar flytur hugvekju. Félagar úr TTT(10-12 ára) starfi kirkjunnar lesa ritningarlestra og bænir. Eftir messu er boðið uppá kaffi og konfekt í safnaðarheimilinu. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Ekki vanrækja andlegu hliðina, láttu sjá þig í léttmessu í Árbæjarkirkju.

Kvöldmessa í Dómkirkjunni

GOSPELSYSTUR Reykjavíkur syngja í kvöldmessu í Dómkirkjunni sunnudagskvöld 6. apríl kl. 20. Margrét Pálmadóttir stjórnar og Agnar Már Magnússon leikur undir. Sr. Hjálmar Jónsson flytur hugleiðingu og sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson leiðir messuna og þjónar að kvöldmáltíðarsakramentinu.

Gospelsystur eru um 60 svo það má búast við miklum söng og stemmningu. Kvöldmessur eru jafnan fyrsta sunnudag í mánuði og æðruleysismessur hinn þriðja. Þessar helgistundir hafa verið fjölsóttar og eru vaxtarbroddur kirkjustarfsins hjá okkur sem við leggjum kapp á að hlú að og gleðjumst yfir.

Föstumessa og friðarbænir í Hallgrímskirkju

UNDANFARIN fimm sunnudagskvöld hafa klukkur Hallgrímskirkju kallað fólk saman til helgihalds kl. 20, fyrst með kröftugum hætti á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar fyrsta sunnudag í mars og síðan öllu hljóðlátara eftir að fastan gekk í garð.

Sunnudagskvöldið 6. apríl er síðasta föstumessan, en fyrsta sunnudag í maí, 4. maí, verður aftur kvöldmessa með því lagi sem tíðkast hefur undanfarin ár.

Föstumessurnar hafa að þessu sinni verið helgaðar friðarbænum öðru fremur. Öll umgjörð stuðlar að friði hið innra, kertaljós og kyrrlátir söngvar, því friður í heimi hlýtur að hefjast í hjarta einstaklingsins.

Núna á sunnudagskvöldið syngur Schola cantorum undir stjórn kantors Hallgrímskirkju, Harðar Áskelssonar. Sr. María Ágústsdóttir héraðsprestur þjónar að orði og borði. Lesið verður úr píslarsögunni, flutt stutt íhugun og friðarbænir.

Einnig er fólki gefinn kostur á að tendra bænaljós og skrifa bænarefni sín í tengslum við kvöldmáltíðarsakramentið. Vertu velkomin(n) í kirkjuna þína.

María mey í íslenskri myndlist

SÍÐASTI fræðslumorgunn í Hallgrímskirkju á þessum vetri verður næstkomandi sunnudag kl. 10. Þá mun dr. Pétur Pétursson prófessor flytja erindi um stöðu og þýðingu Maríu meyjar í trúarlífi kristinnar kirkju. Hugað verður að trúarlegu og tilfinningalegu gildi mynda af Maríu með Jesúbarnið. Þá mun dr.

Pétur ræða um mikilvægi hennar fyrir tjáningu trúar í nútímanum. Jafnframt fyrirlestri sínum mun dr. Pétur taka dæmi úr íslenskri myndlist að fornu og nýju.

Að fyrirlestrinum loknum gefst tækifæri til spjalls og fyrirspurna áður en gengið er til messu kl. 11 sem er í umsjá séra Sigurðar Pálssonar.

Gestir frá Þýskalandi hjá KFUM og KFUK

Dr. Roland Werner, Gottfried Müller og Lunatic Art-dansflokkurinn frá Þýskalandi verða gestir KFUM og KFUK í Reykjavík um þessa helgi. Samkomur verða þá haldnar í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28: Í dag, laugardag 5. apríl, kl. 20.30 og á morgun, sunnudag 6. apríl, kl. 20.

Roland Werner er einn af fremstu leiðtogum í kristilegu ungmennastarfi í Þýskalandi. Hann er mjög skemmtilegur prédikari og notar nýjustu aðferðir til að miðla hinum kristna boðskap. Þess vegna hefur hann með sér ungmennaprédikarann Gottfried Müller sem hefur getið sér gott orð í Þýskalandi sem góður ræðumaður og dansflokkinn Lunatic Art. Lunatic Art-dansflokkurinn miðlar hinni kristnu trú með dansi og látbragði og hefur getið sér gott orð í Þýskalandi fyrir listsköpun sína.

Allt besta tónlistarfólk KFUM og KFUK mun sjá um vandaða tónlist og leiða almennan söng.