Breski réttarfræðingurinn Peter Bower.
Breski réttarfræðingurinn Peter Bower.
PETER Bower, breskur réttarfræðingur sem í yfir tuttugu ár hefur unnið við að meta uppruna og gerð pappírs af ólíkum toga, er eitt af vitnum ríkislögreglustjóra sem fengið var til að bera vitni í málverkafölsunarmálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
PETER Bower, breskur réttarfræðingur sem í yfir tuttugu ár hefur unnið við að meta uppruna og gerð pappírs af ólíkum toga, er eitt af vitnum ríkislögreglustjóra sem fengið var til að bera vitni í málverkafölsunarmálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Bower lagði stund á nám í myndlist við tvo listaháskóla á Englandi í lok sjöunda áratugarins byrjun þess áttunda en starfaði síðan við pappírsgerð. Hann segir að starf sitt í dag byggist að óverulegu leyti á menntun í myndlist heldur búi að baki 25 ára reynsla við rannsóknir á pappír af ýmsu tagi sem þróaðist út frá starfi hans sem pappírsgerðarmaður. Á þeim árum bjó hann til pappír fyrir listamenn en í því fólst m.a. að skoða gamlan pappír og þær aðferðir sem pappírsgerðarmenn áður fyrr notuðu til að búa til pappír.

Á undanförnum áratugum hefur Bower komið að rannsóknum á fjölmörgum málum þar sem nauðsynlegt hefur verið að úrskurða um uppruna pappírs, s.s. í tengslum við meinta fölsun listaverka, skuldabréfa og ýmissa viðskiptaskjala. Á síðustu árum hefur hann m.a. komið að tveimur stórum fölsunarmálum á bandarískum skuldabréfum fyrir milljónir dala. Þá átti hann þátt í að rannsaka áður óþekkta teikningu eftir ítalska endurreisnarlistamanninn Michael Angelo sem var seld á uppboði hjá Sothebys fyrir einu og hálfu ári á 5,9 milljónir punda. Myndin hafði þá verið í geymslu á bresku sveitasetri í yfir 200 ár án þess að eigendurnir vissu hver teiknarinn var.

Í seinni tíð er Bower líklegast þekktastur fyrir þátt sinn í rannsókn á manninum á bak við goðsögnina um Kobba kviðristu. Rithöfundurinn Patricia Cornwall setti fram þá kenningu í bók sinni, Portrait of a killer sem kom út í október á síðasta ári, að breski málarinn Sir Walter Sickert væri Kobbi kviðrista. Bresk yfirvöld hafa í vörslu sinni hundruð bréfa sem eiga að hafa verið skrifuð af Kobba kviðristu þótt ljóst þyki að mörg þeirra séu skrifuð af fólki sem þekkti ekkert til málsins.

Bower var beðinn um að rannsaka bréfin og bera saman við bréf sem Sir Walter hafði skrifað og teikningar sem hann hafði gert, til að athuga hvort einhver tengsl væru þar á milli. Bower segir að hægt sé að tengja pappír við ákveðna pappírsverksmiðju og jafnvel við einn og sama pappírsbunkann sem síðan var seldur út úr búð í Lundúnum. Það ráðist meðal annars af blaðinu á pappírsskurðarvélinni og hvernig blöðin séu skorin. Í ljós hafi komið að pappírinn sem hinn meinti Kobbi kviðrista og Sir Walter notuðu kom úr sama pappírbunkanum. Þess má geta að vélin sem framleiddi pappírinn var handstýrð og afkastaði 12-24 pappírsörkum í einu. Ljóst þykir því, að mati Bowers, að Sir Walter hafi skrifað talsvert af bréfum til lögreglunnar í Lundúnum þar sem hann kveðst vera Kobbi kviðrista.

Mikilvægt að túlka niðurstöður

Um rannsóknir sínar á pappír segir Bower að hægt sé að rekja uppruna pappírs með ýmsum hætti og að margt sem ekki sé hægt að greina með auganum megi auðveldlega sjá undir smásjá, m.a. hvaðan bréf kemur. Ef sú vitneskja sé fyrir hendi sé í sumum tilfellum hægt að bera bréfið saman við sýniseinstök sem geymd séu í pappírsverksmiðjum til að ákvarða aldur þeirra. Hann segir rannsóknir sínar miða að því að greina hvernig pappír var gerður, við hvaða aðstæður og úr hverju hann sé. Tæknin sem hann notist við velti á því hvað sé verið að leita að, stundum liggi það í augum uppi, stundum ekki. Hann segir það hins vegar mikilvægt að hægt sé að túlka niðurstöðurnar sem fáist úr slíkri rannsókn en til þess þurfi mikla þekkingu á aðferðum sem notaðar séu við pappírsframleiðslu, t.d. hver framleiddi hvers kyns pappír og hvenær.

Bower vill ekki láta neitt uppi sem tengist þátttöku hans í rannsókinni á málverkafölsunarmálinu sem rekið er fyrir Héraðsdómi en segir málið allt "afar athyglisvert".