"Það er einkennilegt þegar menn eins og Sverrir ráðast að kerfi sem þeir hafa sjálfir tekið þátt í að koma á fót og hafa persónulega borið hagnað af."
SVERRIR Hermannsson, fyrrverandi þingmaður Austurlands, skrifar grein í Morgunblaðið hinn 23. mars síðastliðinn undir yfirskriftinni: Varnarbaráttan.

Í greininni lýsir hann vanþóknun sinni á því að skrifað hafi verið undir samning um stóriðju á Austurlandi. Ég man ekki betur en að hann þá sem iðnaðarráðherra hafi verið einn af forsvarsmönnum um byggingu stóriðju á Austurlandi. Sverrir lofaði því á þeim árum að hann myndi "éta hattinn sinn upp á það" að kísilmálmverksmiðja yrði byggð. Þetta var þegar hann var í framboði gegn Hjörleifi Guttormssyni sem þá var iðnaðarráðherra. Hattinn át hann aldrei þótt hann hafi verið rukkaður um það nokkuð oft og í ljósi samnings um álver er rétta að aflétta þessu af honum, þ.e. að éta hattinn.

Í þessari sömu grein ræðst hann að undirstöðuatvinnugrein Austfirðinga, sjávarútveginum. Það er einkennilegt þegar menn eins og Sverrir ráðast að kerfi sem þeir hafa sjálfir tekið þátt í að koma á fót og hafa persónulega borið hagnað af. Ég man ekki betur en að hann hafi verið krafinn um það að selja hlut sinn í sjávarútvegsfyrirtækinu Ögurvík þegar hann varð landsbankastjóri. Þá seldi hann sig út úr greininni, raunar nauðugur viljugur að því að mig minnir, uppskar hagnað af sölunni og vill nú breyta kerfinu, væntanlega svo hann komist sjálfur aftur inn í greinina án fjárfestingar!?

Það er ótrúlegt þegar reynslumiklir menn eins og Sverrir setja sig á háan hest og telja að bylta þurfi málum af því að þeir hafa ekki sjálfir lengur töglin og hagldirnar, er það ekki valdabarátta? Sverrir var framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar sem síðar varð að Byggðastofnun, þegar farið var í það af hálfu hins opinbera (Framkvæmdastofnun) að byggja upp tæknivæddan sjávarútveg. Menn á vegum stofnunarinnar byggðu frystihús víða um land í þeim tilgangi að hagræða í og efla samkeppnishæfni sjávarútvegs. Á sama tíma var fjárfest í stórum skipum og öllu var þessu handstýrt af ráðamönnum þess tíma. Áratug seinna var mikill vandi í greininni, sem kallaði á gengisfellingar og verðbólgu sem aldri fyrr. Settir voru á fót sjóðir til að bjarga og töluðu þá margir um eignaupptöku. Í kjölfarið var ákveðið að markaðsvæða greinina, samfélagið krafðist aukins frjálsræðis.

Nú virðist sem Sverrir sakni valdsins og vilji fara að handstýra aftur, færa valdið frá markaði yfir á stjórnmálamenn.

Sverrir mótmælir harðlega þeirri hagræðingu sem á sér stað í greininni um þessar mundir, talar um "lénsherra"; var hann þá ekki lénsherra síns tíma í stóli framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar?

Í samtímanum er þess krafist að fyrirtæki greiði starfsmönnum sínum góð laun, geri upp við birgja og greiði sín lán. Ef þau standa sig ekki fara þau á hausinn. Það er allt of algengt að fyrirtæki standist ekki samkeppni og fari á hausinn með afdrifaríkum afleiðingum fyrir fólkið sem starfar fyrir þau. Oftast endar kostnaður við gjaldþrot með beinum eða óbeinum hætti á almenningi, t.d. er ríkið að greiða offjár vegna ábyrgðasjóðs launa.

Gjaldþrotum í sjávarútvegi hefur fækkað stórlega síðastliðin ár samtímis með að fyrirtækin hafa stækkað og þeim fækkað. Skýringin á þessu er einföld, með fækkun fyrirtækja og stækkun þeirra minnkar kostnaður við yfirstjórnun, skipin nýtast betur og hagnaður eykst. Í allri þessari hagræðingu og tæknivæðingu fækkar þeim höndum sem þarf til að vinna verkin, hver starfsmaður skilar fleiri kílóum á dag, fullunnum í neytendapakkningar.

Ég trúi því ekki að Sverrir sé orðinn svo sjóndapur að hann sjái ekki breytinguna. Fyrir 30 árum fluttum við fiskinn út óunninn í stórum stíl. Í dag erum við að flytja út fullunna hágæðavöru sem krefst stöðugleika. Sem dæmi þá eru Síldarvinnslan og Samherji í dag í samstarfi um að afla stöðugs framboðs á ferskum þorski sem fluttur er daglega með flugvélum til Bretlands, allt árið. Í nútímanum þarf að hafa öflug og örugg tæki sem menn geta unnið á allt árið, til þess að skapa stöðugleika í greininni til lands og sjávar. Nútíminn verður aldrei eins og fortíðin þar sem menn reru til fiskjar á sínum trillum og verkuðu í salt heima á hlaði. Sverrir gerir sér greinilega ekki grein fyrir því að nútíminn er stóriðja í fiski sem áli og menn eru alstaðar alltaf að leita leiða til þess að gera betur. Sverrir man vonandi þann tíma þegar álverið var reist í Straumsvík. Upphaflega afkastaði það um 60.000 tonnum á ári og ráðnir voru um 700 starfsmenn. Þetta er fortíð. Í nútímanum er verið að byggja nýtt álver á Reyðarfirði sem mun framleiða ríflega 5 falt það magn sem álverið í Straumsvík gerði í upphafi. Til Fjarðaáls verða ráðnir 450 starfsmenn. Sverrir, þetta er nútíminn til sjávar og sveita, við erum lærð, markaðshugsandi og tökumst á við verkefnin eins og þau eru á hverjum tíma. Sverrir er greinilega rómantískur, það vantar bara að hann, eins og kona í nýlegum sjónvarpsþætti, segi: "Hvað er fallegra en gamalt ryðgað ESSO skilti sem ískrar í á hlaðinu í sveitinni."

Eftir Jóhannes Pálsson

Höfundur er verkfræðingur.