ÉG var að lesa Dagskrá vikunnar 5. tbl., nánar tiltekið bls. 54. Þar er brandari sem er á þessa leið: "Hjónabandinu fylgja margar sorgir, einlífinu engin gleði.
ÉG var að lesa Dagskrá vikunnar 5. tbl., nánar tiltekið bls. 54. Þar er brandari sem er á þessa leið: "Hjónabandinu fylgja margar sorgir, einlífinu engin gleði."

Þetta fannst mér leiðinleg lesning því ég er nú sjálf búin að vera einhleyp í 25 ár og hef upplifað marga góða tíma. Sem dæmi get ég tekið ferð sem ég fór í með föður mínum til Svíþjóðar fyrir nokkrum árum. Veðrið var gott og við skoðuðum margt skemmtilegt. Eins hef ég planað mjög spennandi ferðalag í sumar sem ég mun fara í með bróður mínum. Ég er nú ekki viss um að allir giftir geti státað af því að vera að fara í sambærilegt frí.

Ég vil bara koma á framfæri að hinir einhleypu geta alveg notið lífsins og langar mig í því sambandi að minnast á ungan mann sem ég sá ganga niður Stórholtið kl. 16.30 hinn 7. mars. Hann var í brúnum flauelsbuxum og blárri úlpu með rauðum röndum og það bókstaflega geislaði af honum því hann brosti svo breitt á göngutúrnum sínum. Hann var glaður þrátt fyrir að vera einn sem á að vera svo ömurlegt, samkvæmt Dagskrá vikunnar. Mér finnst að fólk ætti að taka menn eins og hann til fyrirmyndar, byrja að brosa og bara sleppa því að lesa Dagskrá vikunnar.

Elísabet Ólafsdóttir,

rithöfundur.

Gjald á kattaeigendur

HVERNIG er það? Á ekki að fara að setja gjald á kattaeigendur eins og á hundaeigendur? Ég tel að það sé mun meiri sóðaskapur af köttum heldur en hundum.

Ég bý í Kópavogi og fer oft út að labba með minn hund og ef hann gerir þarfir sínar á óheppilegum stað er ég alltaf með poka til að þrífa það upp en það er annað upp á teningnum með ketti, þeir fara í sandkassa þar sem börn eru að leika sér og það er ekki skylda, svo ég viti, að láta ormahreinsa þá eða sprauta gegn veikindum og ekki haft neitt eftirlit með þeim.

Ég hef aldrei séð á mínum göngutúrum neitt eftir hunda en hef heyrt sögur frá fólki sem vinnur á leikskólum og í skólum að kattaskítur sé þar víða. Ég bara bið viðkomandi aðila að athuga þetta mál og skylda fólk sem er með ketti að láta skrá þá og láta það borga gjald fyrir þá. Það kannski minnkar gjald fyrir besta vin mannsins, þ.e. hundinn. Gjaldið er fáránlega hátt.

Með von um skjót viðbrögð.

Hundavinur.

Messuvín, glært og rautt?

ANNA hafði samband við Velvakanda og vildi hún fá að vita hvort til væri tvenns konar messuvín, glært og rautt. Segir hún að í fyrra hafi hún fengið glært vín í altarisgöngu um páskana.

Gleymdist messan?

ÉG hugðist hlusta á guðsþjónustu mér til sáluhjálpar sunnudagsmorguninn 30. mars. Stillti ég á gufuna. Eftir að hafa hlustað á söng Bubba var ég viss um að þetta væri ekki messa heldur væri Bubbi að syngja á fundi umhverfissinna. Það sem á eftir kom minnti mest á pólitíkus sem "akiteraði" fyrir flokkinn sinn. Og þá er það spurningin: Gleymdist messan?

211123-7619.

Grár Nokia týndist

GRÁR Nokia 3210 týndist nálægt íþróttahúsinu í Kópavogi eða við Bergstaðastræti í miðbænum. Skilvís finnandi hafi samband í síma 5524456.